Af Facebook síðu Herdísar Kjerulf Þorgeirsdóttur:

Ég kemst ekki að fylgja Guðbjörgu Þorvarðardóttur dýralækni síðasta spölinn í dag. Við vorum bræðradætur. Hún var nokkrum árum eldri en ég – úr fjölmennum, stórmyndarlegum systkinahópi. Gauja ólst upp á Kiðafelli í Kjós en í minningunni tengi ég hana Unni afasystur minni Jónsdóttur, sem einnig var hestakona og mikill karakter. Gauja skar sig strax úr fjöldanum. Það gustaði um hana í bókstaflegri merkingu. Röddin hennar var sterk og kraftmikil – það var undirliggjandi hlátur í henni. Minning poppar upp af gráleitum laugardagsmorgni á menntaskólaárunum þar sem ég gekk niður Bankastrætið á leið í Eymundsson. Reykjavík var engin stórborg á þessum árum, fremur gróðurlaus og hugmyndasnauð, fannst manni. Þetta var á þeim árum sem hippamenning blómstraði, penar konur að reykja pípur í mussum án þess að maður yrði var við háværa hugmyndafræði. Aðeins tveir hommar voru þekktir í bænum – annar vann í tóbaksbúð og hinn á hárgreiðslustofu. Sappho var eina lesbían sem vitað var um. Öllum bar að hlýða tíðarandanum, vera steyptir í sama mótið, vera eins, vera í mussum. Þarna sem ég gekk í eigin þönkum niður Bankastrætið, og ekki í hippafötum, skransar snögglega leigubíll í brekkunni og við kveður rödd sem kallar nafn mitt eins og kraftmikill hvirfilbylur ólgandi af hlátri: Gauja frænka kannski rúmlega tvítug með flösku í leigubíl fyrir hádegi á laugardegi . . . ekki dæmigert fyrir nokkurn á þessum tíma nema einhverja kalla í kaupstaðaferð eða sjóara í landi. Þarna var hún í vaðstígvélum og lopapeysu með ljósrauðleitt hárið og stóran spékopp eins og íslensk útgáfa af Línu langsokk nýkomin úr siglingu í Suðurhöfum. Lína langsokkur sem vippaði hesti upp með annarri hendinni. Minning sem ég hef aldrei gleymt og fær mig alltaf til að brosa. Gauja varð farsæll dýralæknir, rak Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg um langt árabil og hrókur alls fagnaðar í lífinu. Blessuð sé minning eftirminnilegrar frænku. Innilegar samúðarkveðjur til Juliette konu hennar og minna góðu frændsystkina.

 

Æviágrip – yfirlit

Guðbjörg Anna Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1951. Hún lést 28. ágúst síðastliðinn. Eftirlifandi eiginkona Guðbjargar er Juliette Marion f. 2.5.1960. Guðbjörg Anna var dóttir hjónanna Önnu Einarsdóttur, húsmóður (4.11.1921–11.11.1998) og Þorvarðar Kjerúlf Þorsteinssonar (24.11.1917–30.8.1983), síðar sýslumanns á Ísafirði. Þau skildu. Anna giftist síðar Hjalta Sigurbjörnssyni (8. 7.1916–12.11.2006) bónda á Kiðafelli í Kjós og þar var Guðbjörg upp alin frá fimm ára aldri. Alsystkini Guðbjargar Önnu eru: Einar f. 16.3.1944; Sigríður, f. 3.8.1948; Margrét, f. 22.11.1949; og Þorsteinn, f. 10.8.1955. Hálfsystkini Guðbjargar sammæðra eru: Þorkell Gunnar f. 30.3.1957; Sigurbjörn f. 10.6.1958; Kristín Ovell f. 5.4.1961; og Björn f. 4.8.1963. Hálfsystkini samfeðra eru: Dýrfinna Sigríður f. 9. 2.1947; Þórunn, f. 18.8.1955; Dagbjört Þyri, f. 19.3.1958; Ólína Kjerúlf, f. 8.9.1958 og Halldóra Jóhanna Kjerúlf, f. 23.11.1959. Fóstursonur Guðbjargar Önnu er Kjartan Tumi Biering f. 31.10.1973. Guðbjörg Anna útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri 1968. Hún varð stúdent frá MT (Menntaskólanum við Tjörnina) 1971 og dýralæknir frá KVL (Den Kongelige Veterinær og Landbohøjskole) í Frederiksberg í Kaupmannahöfn 1981. Eftir námið í Danmörku vann hún í eitt ár við slátureftirlit sauðfjár í Invercargill á Nýja Sjálandi. Lauk síðan masternámi í röntgenlækningum dýra í Sidney í Ástralíu 1983. Guðbjörg Anna var héraðsdýralæknir í Strandasýslu með búsetu á Hólmavík til margra ára. Síðar gegndi hún sama starfi á Húsavík, í Búðardal og á Hvolsvelli. Um aldamótin söðlaði hún um og setti á stofn eigin stofu, Dýralæknastofu Dagfinns, að Skólavörðustíg 35 í Reykjavík, þar sem hún starfaði alla tíð síðan. Guðbjörg Anna var virk í félagsmálum og lét víða til sín taka á því sviði. Hún var formaður Dýralæknafélag Íslands 2009–2015 og sat um skeið í samninganefnd BHM  fyrir Dýralæknafélagið.