greer geirlaugRáðstefnan Tengslanet – Völd til kvenna verður haldin í þriðja sinn á Bifröst dagana 1.-2. júní og er hin kunna kvenfrelsiskona Germaine Greer sem er aðalfyrirlesari ráðstefnunnar. Greer kom til landsins í dag. Meginþemað á ráðstefnunni í ár er staðalímynd kvenna, kynbundinn frami, fyrirtækjamenning og samskipti kvenna.

„Það þarf að breyta staðalímyndinni til að ná meiri áhrifum í jafnréttisbaráttunni og það er t.d. gert með því að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja, fjölga konum sem hafa áhrif í að móta þjóðfélagsumræðuna og fjölga konum í háskólaumhverfinu, viðskiptalífinu og dómarastétt, svo fátt eitt sé nefnt. Sé það ekki gert felast í því skilaboð til annarra kvenna um að þær komist ekki upp úr glerþakinu,” sagði Herdís Þorgeirsdóttir skipuleggjandi ráðstefnunnar.

Að sögn Herdísar verður dagskrá ráðstefnunnar með sama sniði og fyrri ár. Hefst hún á göngu á Grábrók síðdegis fimmtudaginn 1. júní og veislu í Paradísarlaut í kjölfarið. Ráðstefnan sjálf verður sett á föstudagsmorgni og lýkur með móttöku forseta Íslands á Bessastöðum að kvöldi dags.

 

Germaine Greer er eitt af stóru nöfnunum

1.-2. júní 2006:

Ástralski rithöfundurinn og kvenréttindakonan Germaine Greer er eitt af stóru nöfnunum í kvenfrelsishreyfingunni. Greer gegndi lengst af prófessorsstöðu í enskum bókmenntum við Háskólann í Warwick á Englandi og er ötull og beittur penni. Frægasta bók hennar, The Female Eunuch, sem út kom 1969, hafði mikil áhrif á kvenfrelsishreyfinguna upp úr 1970, en í bókinni heldur hún því fram að hinum sanna persónuleika kvenna sé haldið niðri af gildismati karla. Af öðrum verkum Greer má nefna Sex and Destiny sem út kom árið 1984, en þar heldur hún því fram að þjóðfélög Vesturlanda séu fjandsamleg börnum og frelsið í kynferðismálum þar sé manninum óeðlilegt. Fyrir sex árum má segja að Greer hafi fylgt The Female Eunuch eftir með útgáfu bókarinnar The Whole Woman þar sem hún heldur því fram að aftur sé kominn tími fyrir konur að reiðast sökum þess hversu sorglega hægt hafi miðað í kvenréttindabaráttunni.