Vigdís Grímsdóttir rithöfundur um skipulagðan róg

vigdís grímsdóttirSumir sögðu við suma að sumum hefði ekki líkað við framgöngu Herdísar í menntaskóla: sumum þótti hún þá heldur fín. Sumir svöruðu því til að þeir skildu suma mætavel því sumir hefðu heldur alls ekki þolað Herdísi þegar hún var ritstjóri og vildi sem slíkur stjórna sumum sem vildu alls ekki láta stjórna sér. Sumir lögðu þá orð í belg og sögðu að sumir hefðu heyrt til Herdísar í
sjoppu og fundist hún hrokafull og það þegar hún var ólétt hérna í denn. Þetta segja sumir og sumir hafa auðvitað alltaf rétt fyrir sér því þannig eru sumir og hafa alltaf verið.

 

Kristján Hreinsson skáld: Engin uppgjöf!

Auðvitað segja flestir að það kalli á uppgjöf þegar fylgið er lítið. Þetta er samt ekki svo einfalt; ef allir þeir sem hafa ákveðið að kjósa Herdísi – vegna þess að hún er besti kosturinn – fá með sér einn vin, henni til stuðnings, þá hefur okkur tekist að tvöfalda fylgið.
Að ganga á fjöll er góður siðir, einsog ágæt kona á æskuslóðum mínum orðaði það. Hún lét karlinn aka sér útfyrir borgarmörkin og svo eyddi hún deginum við klifur. Brattar hlíðar og hættulegar skriður voru henni engin fyrirstaða. Hún kleif öll fjöll sem eitthvað var varið í að klífa.
Einhverju sinni var hún spurð útí þetta príl, einsog önnur nágrannakona orðaði það. Svarið var afar einfalt: -Ég gæti svosem gengið á Öskjuhlíðina um hverja helgi. En lágreist fjöll gefa mér akkúrat ekkert. Það eru háu og illfæru fjöllin sem gefa lífinu gildi. Og uppgjöf er ekki til.
Sjálfur hef ég látið þessar pælingar vakna á milli eyna minna annað veifið.

-ÁFRAM HERDÍS!

 

Vigdís Grímsdóttir rithöfundur: Valdablokkir á bak við framboðin (“turnana” tvo)

Mér liggur þetta á hjarta hérna í rokinu á Ströndum:

Við skulum hætta að tala um tvo turna því þetta eru tvær öflugar valdablokkir; annars vegar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur á bak við Ólaf Ragnar og hins vegar Samfylking með nýjasta bandamanni sínum Besta flokki og Bjartri framtíð ásamt þeim hópi úr Sjálfstæðisflokki sem á sér drauma um fyrirhruns-samsteypu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Enn eina ferðina er þjóðin fórnarlamb skoðanamótunar þessara valdablokka, sem stjórna umræðunni í gegnum fjölmiðla sína. Þjóðin heldur að hún sé að kjósa á milli tveggja einstaklinga í formi turna en hún er að koma sér fyrir í lestum þeirra klíkna sem stjórna ferðinni og fara með hana þangað sem þeim hentar ásamt þeim forseta sem þeim hentar.