Á aðalfundi sínum hinn 15. mars sl. samþykkti Feneyjanefnd Evrópuráðsins nýja skýrslu um fjárframlög til félagasamtaka sem unnin var af hópi sérfræðinga sem eru fulltrúar í nefndinni: Herdísi Þorgeirsdóttur, Richard Clayton, Söru Cleveland, Veroniku Bilkova, Martin Kuijer og Pieter Van Dijk. Skýrslan er unnin að beiðni aðalframkvæmdastóra Evrópuráðsins 2016 sem vildi leggja línur fyrir ráðherranefnd Evrópuráðsins um hvaða viðmið ætti að hafa í huga þegar settar væru reglur í þágu gagnsæis um fjárframlög. Það er skýr niðurstaða nefndarinnar í þessari nýju úttekt að ekki megi setja félagasamtökum skorður með sama hætti og stjórnmálaflokkum eða lobbyistum, sem oft hafa mikið fjármagn til umráða til að hafa áhrif á ákvarðanatöku í stjórnkerfinu. Þeir sérfræðingar sem unnu ofangreinda skýrslu hafa með einum eða öðrum hætti komið að öllum úttektum nefndarinnar á félagafrelsi undanfarin ár; þ.á m. áliti um lagasetningu í Rússlandi þar sem félagasamtök sem þáðu fjárframlög erlendis frá voru sett í hóp með útlendum ,,agentum” (svokölluð foreign agent law) og þeim voru settar verulegar skorður. Líkt var upp á teningnum í Kyrgystan. Í Ungverjalandi vildu stjórnvöld auka upplýsingaskyldu félagasamtaka vegna fjárframlaga sem og í Rúmeníu.