Kveðja frá Svíþjóð

Fimmtudagsmorgun, 3. maí kl. 7.30

Sendi ykkur kveðju úr lestinni á leið frá Örebro til Stokkhólms þaðan sem ég flýg heim.

Hér skín glampandi sól inn um gluggann. Hún var taugaóstyrk ungi doktorsneminn sem var að verja ritgerð sína um lög Islam (Sharia) í ljósi alþjóðlegra mannréttindaákvæða. Allt gekk vel. Leiðbeinandi hennar er prófessor við lagadeild Stokkhólmsháskóla og bæði eru þau af írönskum uppruna. Hún sagði mér að margir hefðu varað hana við að fjalla um svo eldfimt efni sem Sharialögin og viðbrögð öfgafullra múhameðstrúarmanna við því að tjáningarfrelsið verndaði ritverk Salman Rushdie; skopmyndir af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum o.fl. – en niðurstaða hennar er að þeir eigi ekki að geta “ritstýrt” umræðunni með því að fæla alla frá að fjalla um þessi trúarbrögð af ótta við afleiðingarnar – tjáningarfrelsið gengur framar umfjöllun um trúarbrögð.

Þetta er sem sagt hugrökk, ung kona og gaman að hafa átt þátt í því að styðja hana!

Kær kveðja,

Herdís Þorgeirsdóttir

Skilaboð til ykkar

Frá Herdísi Þorgeirsdóttur:

Kæru vinir,

Vegna anna í störfum næstu daga er ég ekki komin á fullt í baráttuna. Hún hefst fyrir alvöru eftir rúma viku.  Er að undirbúa andmæli við doktorsvörn í Svíþjóð og fyrirlestur sem ég flyt í Reykjavík í næstu viku auk þess sem ég er að binda enda á lausa hnúta vegna kosningabaráttunnar framundan.

Fyrir þá sem hafa áhyggjur af viðhorfskönnunum netmiðla bendi ég á grein Egils Helgasonar á Eyjunni um „vonda blaðamennsku“. Viðhorfskannanir á netmiðlum segja að sjálfsögðu ýmislegt um aflið sem býr að baki frambjóðendum  með aðgang  að mörgum tökkum og tölvum – en þær segja ekkert um stefnumál eða burði frambjóðenda.

Ég er sama sinnis og Abraham Lincoln sem sagði  (í óbeinni þýðingu): Við eigum að trúa því að réttlátur málstaður sé afl í sjálfu sér, og í þeirri trú, allt til enda, eigum við hafa hugrekki til að fylgja þeim málstað samkvæmt skilningi okkar.

Herdís Þorgeirsdóttir

Ábyrgð forseta

Ábyrgð forseta

Eftir Herdísi Þorgeirsdóttur

Í einkabréfi til vinar síns árið 1800 skrifaði Thomas Jefferson: Ég hef heitið guði að vera í eilífri baráttu gegn hvers konar harðstjórn yfir huga manna. Þessi orð hans veittu mér styrk og innblástur þegar ég hóf rannsóknir mínar á sviði tjáningarfrelsis og mannréttinda upp úr 1990.

Baráttan um embætti forseta Íslands er í mínum huga ekki vinsældakeppni um hver verði myndarlegasta húsfreyjan eða húsbóndinn á Bessastöðum? Hver þyrli upp minnstu ryki; verði alltaf til friðs og nái að sameina þjóðina með því að brosa til hennar og brýna fyrir henni á tyllidögum að spenna sætisbeltin og hlýða á tölu um mikilvægi þess að allir séu sammála.

Hvað þýðir það þegar fólk segir að forsetinn megi ekki vera pólitískur? Að hann megi ekki að segja hug sinn? Slíkt er  ágætt ef forsetinn hefur ekkert að segja. En sú manneskja sem skipar þetta embætti verður að hafa eitthvað að segja.

Lýðræðinu stafar ógn af ópólitísku fólki; þeim sem taka ekki afstöðu í mikilvægum lýðræðis- og mannréttindamálum en slík grundvallarréttindi eru lögfest í íslensku stjórnarskránni og alþjóðlegum samningum. Mannréttindi eru  í eðli sínu pólitísk af því flest sem varðar afdrif einstaklings er háð pólitísku, efnahagslegu og félagslegu umhverfi hans. Forseti sem ekki skeytir um þetta er lýðræðinu lítils virði.

Um réttarstöðu forsetans er fjallað í stjórnarskránni frá 1944 sem var hugsuð til bráðabirgða. Samkvæmt hefðbundinni túlkun er forseti Íslands valdalaus þótt ýmis ákvæði stjórnarskrár megi túlka í gagnstæða veru. Forseti Íslands má t.d. leggja frumvarp fyrir Alþingi. Ólafur Jóhannesson, höfundur ritsins um Stjórnskipun Íslands, var á þeirri skoðun að forsetinn ætti að vera virkari hluti af framkvæmdavaldinu; hann ætti að skipa ráðherrana án atbeina Alþingis, enda  bæru þeir ábyrgð gagnvart honum en ekki þinginu. Skoðun þessa byggði hann á því að nauðsynlegt væri að draga úr valdi hinna pólitísku flokka og ýmissa annarra hagsmunasamtaka.

Forseti sem í samræmi við stjórnarskrána vísar umdeildum málum til þjóðarinnar svo að hún megi eiga lokaorðið starfar í anda lýðræðisins. Þjóðin er ekki síður bær til að taka ákvarðanir um afdrif sín en þeir fulltrúar sem hún kýs á Alþingi. Þjóðin velur þingmennina og telji hún þá sýna sér yfirgang í lagasetningu á hún þann möguleika að spyrna við fótum. Rétturinn til að taka ákvörðun um afdrif sín og framtíð liggur hjá þjóðinni. Ef einhver telur að þjóðin sé ekki í stakk búin til að greiða atkvæði um umdeild mál af því að hana skorti þekkingu eða innsæi þá er lausnin ekki að taka réttinn frá henni heldur að upplýsa hana betur. Hlutverk forseta er að tala fyrir mannréttindum og lýðræði; halda þjóðinni við efnið. Forsetinn á að tala fyrir hagsmunum þjóðarinnar enda fulltrúi hennar en ekki valdsins. Sá sem sækist eftir því að verða forseti verður að vera tilbúinn að axla þá ábyrgð.

– Herdís Þorgeirsdóttir (16. apríl, 2012).

 

Forseti Íslands og ægivald fjármagnsins

Ólafur Ragnar Grímsson býður sig nú fram í embætti Forseta Íslands eftir sextán ára setu. Rætt er um að möguleg mótframboð kosti tugi ef ekki hundruð milljóna og séu því ekki á færi annarra en þeirra sem njóta stuðnings fjársterkra aðila.

Nýverið færði Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, nokkur rök fyrir því í Ríkisútvarpinu að Ólafur Ragnar Grímsson yrði sjálfkjörinn fimmta kjörtímabilið. Vógu þar þyngst rökin um kostnað en fleiri ástæður voru nefndar sem hefðu fælingaráhrif á mögulega mótframbjóðendur.

„Ísland hrundi undan þunga eigin spillingar,” sagði Svanur og benti á að hið pólitíska vald hefði lengi verið í höndum hagsmunaaðila og því „ekkert almannavald í landinu”. Hann kvað Ólaf Ragnar hafa notað 90 milljónir króna að núvirði til að ná kjöri 1996. Hugsanlegur mótframbjóðandi nú þyrfti, ef eitthvað væri, hærri fjárhæð vegna forskots sitjandi forseta. Að vísu gætu útgerðarfyrirtækin látið „réttan frambjóðanda” fá digran sjóð og þá væntanlega þann sem væri hlynntur áframhaldandi „sægreifavaldi á Íslandi”. En hann taldi ekki miklar líkur á að einhver færi í forsetaframboð í boði kvótakónga.

Í aðdraganda forsetakosninganna 1996 var ég með framsögu í Háskóla Íslands um lögmæti þess að peningaöfl réðu úrslitum í pólitík. Þar töldu sumir eðlilegt að pólitísk framboð væru fjármögnuð af stórfyrirtækjum. Ég benti á hættuna sem af því hlytist fyrir lýðræðið og vísaði í þekkt dómsmál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna (Buckley gegn Valeo, 1976) þar sem tekist var á um það hvort fjármögnun framboða væri liður í stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi eða ógn við jafnræði borgara í lýðræðisríki.

Hæstiréttur Bandaríkjanna staðfesti þá lögmæti laga sem takmörkuðu framlög í kosningasjóði en taldi þó frambjóðendum heimilt að nota eins mikið eigið fé og þeir réðu yfir, slíkt væri liður í pólitísku tjáningarfrelsi. Þessi niðurstaða varð umdeild enda hefur rödd peningaaflanna í pólitík leitt til þeirra mótmæla nú, sem kenna sig við 99 prósentin er berjast gegn spillingu, græðgi peningaafla og hnignun lýðræðisins.

Í lýðræðinu erum það við, almenningur sem ráðum. Völdin eiga að koma frá okkur og þau ber að nota í okkar þágu. Þetta er sá grundvöllur sem öll mannréttindi hvíla á og rætur eiga í stórmerkum hugmyndum 18. aldar; Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna 1776, Mannréttindayfirlýsingu Frakka 1789 – og í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldar, Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna 1948. Sérhver einstaklingur er jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin og slíkt er undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.

Í Mannréttindayfirlýsingunni segir að hverjum manni sé heimilt að taka þátt í stjórn lands síns, beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa í frjálsum kosningum. Sú fagra draumsýn um betri veröld sem þarna birtist hefur síðar verið skrumskæld. Einstaklingur má sín lítils nú gegn ægivaldi fjármagnsins. Nú vaða valdhafar víða fram í skjóli peningaafla; rússneskir oligarkar sem urðu auðjöfrar í einkavæðingarferli á rústum kommúnismans standa að baki Pútín. Í Bandaríkjunum býður sig enginn fram til forseta sem ekki hefur gífurlega fjármuni á bak við sig.

Og hér á Íslandi, eftir eitt mesta efnahagshrun allra tíma, kyngjum við því að enginn eigi erindi í framboð nema að hafa tryggt sér öfluga fjárhagslega bakhjarla.

Á nýja Íslandi blasir við að forsetinn muni sitja í tuttugu ár. Engu að síður er teflt fram þeim rökum að hefðin mæli gegn mótframboði við sitjandi forseta. Af hverju helgast sú hefð? Það hlýtur að vera hefð spillingarinnar því lýðræðishefðin gerir kröfu um mótframboð, um andstöðu, um breytingar.

Í þriðja lagi voru þau rök nefnd að fjölmiðlum bæri ekki skylda til að kynna frambjóðendur. Það er rangt. Fjölmiðlum ber skylda til að miðla áfram til almennings öllum þeim upplýsingum sem almenning varða, eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur margítrekað. Fjölmiðill sem ekki miðlar slíkum upplýsingum er ekki að axla þá ábyrgð sem tjáningar- og upplýsingafrelsið gerir kröfu um og er fylgifiskur þeirrar verndar sem fjölmiðlar njóta.

Í fjórða lagi var þeirri ástæðu teflt fram sem hrella myndi mögulegan mótframbjóðanda að hann yrði „úthrópaður” af stuðningsmönnum forsetans – sem Evrópusambandssinni. Þjóðin ákveður endanlega hvort Ísland verður aðili að Evrópusambandinu en ekki sá sem skipar embætti Forseta Íslands. Þar ræður mestu að hæfileikamanneskja skipi þann sess, svo að ég vitni í stjórnskipunarrit Ólafs Jóhannessonar, en hvorki einarður andstæðingur né talsmaður Evrópusambandsaðildar. Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og sameiningartákn þjóðarinnar en ekki fulltrúi sérhagsmuna eða sérstaks hóps innan hennar. Forsetinn er talsmaður þjóðarinnar; tákngervingur hennar, vona hennar og styrks.

Óháð því hvað fólki finnst um mögulega frambjóðendur eða forsetaembættið yfir höfuð er aðeins einn sigur í stöðunni og það er sigur fólksins í landinu en ekki peningaafla, sem rústa meginreglu lýðræðisins um jöfn tækifæri.

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 24. mars 2012).

Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

herdís tilkynnir forsetaframboðKjör forseta Íslands fer fram laugardaginn 30. júní. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur sitjandi forseti ákveðið að sækjast eftir endurnýjuðu umboði – fimmta kjörtímabilið í röð. Þessi ákvörðun hans er umdeild.

Því hefur verið haldið fram að það sé nánast ómögulegt að fara gegn sitjandi forseta. Teflt er fram ýmsum fælingarástæðum, þar á meðal óheyrilegum kostnaði. Fáum sé því kleift að bjóða sig fram– nema með stuðningi fjársterkra aðila.

Í kjölfar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi haustið 2008 átti sér stað vitundarvakning um ábyrgð og hlutverk hins almenna borgara að stuðla að framgangi lýðræðisins. Það kviknaði von hjá mörgum um gagngerar breytingar. Umdeild ákvörðun sitjandi forseta hefur slegið á þær væntingar og orðið til þess að ég hef fengið hvatningu um að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Þeir sem kalla eftir framboði mínu eiga það sammerkt að deila hugsjónum mínum um virkara lýðræði og aukin mannréttindi. Í rannsóknum mínum hef ég fjallað um þá hættu sem lýðræði og mannréttindum stafa af nánum tengslum stjórnmála, peningaafla og fjölmiðla. Ég hef gagnrýnt þöggun og ótta við valdhafa, sem kæfa nauðsynlega umræðu í samfélaginu og halda því í fjötrum sérhagsmunagæslu.

***

Ég hef kallað til þessa blaðamannafundar til að tilkynna þá ákvörðun mína að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Framboð mitt byggir á því að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin og það er undirstaða réttlætis og lýðræðis. Völdin eiga að koma frá okkur fólkinu og þau ber að nota í okkar þágu.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er grundvallarregla íslenskrar stjórnskipunar. Í stjórnarskránni er forseta Íslands falið vald til að virkja þann rétt. Málskotsrétturinn er öryggisloki, sem ber að beita af varfærni, en þjóðin þarf jafnfamt að geta treyst því að forseti Íslands hafi burði til að beita þessum rétti ef þörf krefur.

***

Mér finnst að allt sé til vinnandi til að gefa kjósendum kost á að fylkja sér að baki þeim hugmyndum sem framboð mitt byggir á. Í framboði mínu felst ákveðin tilraun fyrir lýðræðið, að láta á það reyna hvort fólkið í landinu – vilji það styðja mig til embættis forseta Íslands – sé máttugra en fjármálaöflin – sem hafa skekkt grundvölll lýðræðisins.

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að forseti Íslands gegnir mikilvægu hlutverki sem talsmaður þjóðarinnar en hvorki sérhagsmuna né sérstaks hóps innan hennar.

Á þjóðinni hvílir farg. Hún hefur áhyggjur af fjármálum sínum og framtíð. Í landinu ríkir óvissa.

Þjóðin hefur aldrei þurft meira á því að halda en nú að forseti Íslands sé öflugur málsvari mannréttinda og lýðræðis. Ég er óhrædd á þeim vettvangi og tel að forseti sem leggur áherslu á þær hugsjónir muni starfa í sátt við þjóðina.

 

Þakka ykkur fyrir.

 

 

Hrokafullt upphaf hrunsins eða… aldrei andlega virk þjóð?

ÍSLENSKA efnahagshrunið ber svipuð einkenni og hrun Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi í heimskreppunni um 1930 en það stóð þá frammi fyrir mesta efnahagsvanda nokkurs vestræns ríkis.

Weimar var sligað af stríðsskuldum í kjölfar Versalasamninganna sem Þjóðverjar kölluðu nauðungarsamninga. Weimar-ríkisstjórnin fékk á sig stimpil landráðamanna. Eftir hrunið kom Hitler, uppgangur nasismans og hörmungar síðari heimsstyrjaldarinnar. Úr þeim rústum reis Evrópuráðið byggt á markmiðunum um lýðræði, mannréttindi og réttarríki.Íslensk stjórnskipun á að heita lýðræðisleg. Í grunninn byggir hún á þeirri göfugu hugsun sem lá að baki frönsku stjórnarbyltingunni og sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna og var vegsömun á einstaklingsfrelsi, borgaralegum réttindum, trúnaðarskyldum valdhafa við þegna, pólitískri ábyrgð, upplýsingu og mikilvægi tjáningarfrelsis í framgangi lýðræðislegs samfélags.
Höfuðeinkenni stjórnskipunar okkar eru þrígreining ríkisvaldsins, vernd grundvallarmannréttinda, þingræðisreglan og sú grundvallarskoðun að ríkisvaldið eigi upptök hjá þjóðinni. Eru þessi einkenni óræk hér?Sjálfstæði dómstóla hefur oft verið dregið í efa og umboðsmaður Alþingis bent á að skort hafi forsvaranleg vinnubrögð ráðherra við skipan dómara. Samkvæmt þingræðisreglunni ber ríkisstjórn ábyrgð á gerðum sínum og er undir eftirliti kjörinna fulltrúa á Alþingi. Ríkisstjórn er skylt að segja af sér, ef þingið vottar henni vantraust. Slík áhrif hafa óbreyttir þingmenn ekki, hvorki á stjórnarstefnu né stjórnarframkvæmdir. Ávarpið „háttvirtur“ hljómar sem öfugmæli. Það er erfitt að fylgja stjórnarskránni og vera trúr sannfæringu sinni ef þingmaður er skuldbundinn fjárhagslegum bakhjarli.
Á Íslandi er flokksræði þar sem pólitískir flokkar hafa keppt um stuðning viðskiptablokka. Menn ganga í stjórnmálaflokka ekki af hugsjón heldur til að eignast bakland og tryggja eigin framtíð. Íslenskt samfélag er klíkusamfélag þar sem frami veltur oftar á velvild ráðamanna, hvort sem er í stjórnmálum eða viðskiptum, en hæfi og getu. Mönnum hefur verið umbunað fyrir pólitíska hollustu með stöðuveitingum og refsað að sama skapi ef þeir eru eigi auðsveipir með því að setja þá út á jaðarinn. Hér hefur ekki verið í tísku að tala eða skrifa gagnrýnið um valdhafa. Skynsamir en einnig skammsýnir menn hafa áttað sig á því að það borgar sig að þegja. Þöggun og þýlyndi hefur einkennt íslenskt samfélag.
Höfundur Frelsisins, John Stuart Mill, talaði um „andlega ánauð“ (mental slavery) í ritinu sem fjallar um mikilvægi tjáningarfrelsis. Það er slíkur andlegur þrældómur sem skapar kjöraðstæður fyrir spillta stjórnarhætti. Í slíku andrúmslofti getur einstaka hugsuður þrifist, sagði John Stuart Mill – „en aldrei andlega virk þjóð“.
Frjálshyggjan hér var ekki frjálslyndari en svo að hana mátti ekki gagnrýna. Efnahagsstjórnin var ekki einu sinni laissez-faire – frjálslynt afskiptaleysi af markaði – heldur samspil kjörinna stjórnvalda og markaðsráðandi aðila. Einkavæðing ríkisfyrirtækja sem átti að draga úr skuldum ríkissjóðs með því að stuðla að einstaklingssparnaði og auknum viðskiptum með hlutabréf varð að „einkavinavæðingu“ þar sem fáir útvaldir fengu almenningseignir á afar hagstæðum kjörum. Slík „einkavæðing“ hafði átt sér stað í Rússlandi skömmu áður og þá haft eftir formanni einkavæðingarnefndar að spilltir kaupsýslumenn „stælu og stælu og næstum því öllu“ en það myndi jafnvel skila sér í heilbrigðara viðskiptalífi en gömlu ríkiseinokuninni þegar upp væri staðið. Í kjölfarið myndi réttarríkið dafna og félagslegt réttlæti aukast í öllu þessu frelsi. Einn þeirra sem efaðist var Josef Stieglitz, aðalhagfræðingur Alþjóðabankans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði frá árinu 1997 predikað stjórnfestu þegar leitað var til hans af einhverjum af 185 aðildarríkjum sjóðsins um ráðgjöf eða fjárhagslega aðstoð. Hugtakið stjórnfesta tekur til stjórnarþátta í ríki og samspili þeirra og efnahagslífsins í heild. Spilling er þrengra hugtak, oft skilgreind sem misnotkun á opinberu valdi í þágu einkahagsmuna.
Íslenska einkavæðingin var í anda þeirrar rússnesku – gráðug, ófagleg og spillt. Í einkavæðingarferlinu var ekki fylgt þeim meginreglum sem átti að gera í upphafi heldur pólitískum helmingaskiptareglum sem marka hrokafullt upphaf hrunsins. Til að hnykkja á því má minna á að þegar Landsbankinn var seldur fóru dýrmætar þjóðargersemar með í pakkanum án þess að um hið mikla málverkasafn væri sérstaklega samið. Það bara gleymdist. Er það táknrænt dæmi um skort á eftirliti. Íslenskir stjórnmálamenn varða veg sinn Kröflum.
Á þessum uppgangstíma nýfrjálshyggjunnar skyldi sá guð einn vegsamaður sem ríkið virti. Sá krafðist engra fórna annarra en að einstaklingar treystu stjórnvöldum í blindni, grilluðu á kvöldin og drykkju rauðvín, ynnu og versluðu þess á milli. Neysla var boðorð númer eitt. Ekki að spilla ungviðinu með gagnrýnisröddum fremur en Sókrates forðum sem hlaut dauðadóm fyrir að neita að falla fram og tilbiðja guði ríkisins.
Peningamenn áttu fjölmiðla og þar með máttugasta vopnið til að móta almenningsálitið. Stærri ríkisstjórnarflokkurinn stjórnaði ríkisútvarpinu/sjónvarpinu með pólitískt skipuðum útvarpsráðum og pólitískum mannaráðningum. Svigrúmið fyrir gagnrýni var sem „stormur í vatnsglasi“ þar sem ekki mátti bera brigður á heilbrigði „kerfisins“. Afstaðan fólst í því í hvers liði maður var. Þetta er andrúmsloft andlegrar ánauðar, sjálfsritskoðunar og skoðanakúgunar.
Þegar neyðarlögin voru sett var staðfest að hér ríkir neyðarástand – afleiðing langvarandi spillingar. Hví að kalla hlutina öðrum nöfnum? Í spilltum kerfum er ekki krafist pólitískrar ábyrgðar. Þar er ekkert gagnsæi. Með spilltum valdhöfum er ekki eingöngu átt við þá sem hafa komist til valda í fyrrum nýlendum Afríku og heimurinn þekkir sem hálfgerð skrímsli, drifin áfram af sjúklegum hégóma og grægði. Spilltur valdhafi getur líka verið jafn utangátta og „meinlaus“ og María Antoinette í frönsku stjórnarbyltingunni, sem átti að hafa sagt banhungruðum lýðnum að borða bara kökur fyrst ekki var til brauð. Það er hægt að valda miklum skaða, ekki aðeins með athöfnum sínum heldur einnig athafnaleysi.
Alþingismenn hafa sjálfir viðurkennt vanmátt sinn, ekki gagnvart almenningi, heldur ríkisstjórninni og hennar vald virðist runnið frá guði ríkisins, sem fyrr er getið. Frumuppspretta ríkisvaldsins sem samkvæmt nútímalegri stjórnskipun á að liggja í sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar – virðist ekki eiga djúpar rætur í íslenskri stjórnskipun. Forsenda sjálfsákvörðunarréttar þjóðar er að hún hafi náð ákveðnu þroskastigi, sagði John Stuart Mill. Þjóð sem er fær um að stjórna sér sjálf er upplýst og virk ella sættir hún sig við Mugabe, Idi Amin, Kim Il Sung og vestræn skyldmenni þeirra.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun hafa sett stjórnvöldum pólitíska afarkosti, sem skilyrði fyrir lánveitingu, sem mun íþyngja ungum og öldnum um ókomna tíð. Engin lán myndu fást nema þjóðin öll yrði látin axla skuldbindingar af starfsemi einkafyrirtækja, sem flestir vita þó að kunna að reynast okkur um megn. Um hvað verður samið og hverjir eru skuldbundnir? Er verið að hneppa komandi kynslóð/ir í fjötra? Hvar liggur pólitísk ábyrgð? Eru þeir sem eru nú að margra mati sjálfskipaðir í forsvari að bjarga einhverju öðru en eigin skinni?
Við stöndum á tímamótum. Við blasir efnahagslegt hrun og pólitískt ef ekki stjórnskipulegt skipbrot. Við vitum nú að ábyrgð valdhafa í pólitík og viðskiptum er hvorki þeim ljós né okkur. Við berum hins vegar öll ábyrgð á börnum þessa lands og okkur ber að standa vörð um líf þeirra og framtíð. Höfum við heimild til að hneppa þau í skuldafjötra vegna yfirgengilegrar óráðsíu fullorðinna manna og vanrækslu eftirlitsaðila og kjörinna valdhafa? Er það síður óheiðarlegt að gera það sem er rangt vegna þess að það eru ekki skráð viðurlög? Það stendur hvergi skrifað í stjórnarskrá okkar að hver ný kynslóð sé tryggð gegn óráðsíðu og spillingu þeirrar kynslóðar sem á undan er gengin. En réttlætir það að gengið sé á rétt uppvaxandi og komandi kynslóða? Thomas Jefferson, einn höfunda stjórnarskrár Bandaríkjanna, varpaði þessari spurningu fram árið 1813. Eigum við að bíða lengi eftir svari? Mitt svar er nei.

Höfundur er prófessor og varaforseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga (EWLA).

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 21. janúar, 2009