by Herdís Þorgeirsdóttir | 24.10.2012 | Mannréttindi & pólitík
24. október 1975 – 24. október 2012
“Ef stúlkum er innprentað að vera öðrum háðar; að hegða sér í samræmi við þær kröfur sem aðrar ófullkomnar mannverur gera til þeirra; og þóknast, með réttu eða röngu, valdinu – hvar endar þetta þá?”
– Mary Wollstonecraft 1759-1797
Að hugsa sjálfstætt og hafa hugrekki til að fylgja sannfæringu sinni er forsenda þess að við getum tryggt jöfn tækifæri.
Sjá grein um Mary Wollstonecraft á Vísindavef Háskóla Íslands.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 22.10.2012 | Mannréttindi & pólitík
Er að undirbúa fyrirlestur vegna ráðstefnu í einu af fyrrum Sovétlýðveldunum og því fátækasta af þeim öllum. Samtök kvenlögfræðinga hafa skipulagt ráðstefnuna. Þetta minnsta ríki Mið-Asíu er aðili að öllum helstu alþjóðlegu mannréttindasamningunum; þ. á m. samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Engu að síður benda alþjóðleg mannréttindasamtök (Amnesty International; Human Rights Watch o.fl) á það að mannréttindi eru þarna lítilsvirt; spilling mikil; tjáningarfrelsi fótumtroðið og hátt í helmingur kvenna og stúlkubarna í landinu hefur sætt ofbeldi innan fjölskyldunnar.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 16.10.2012 | Mannréttindi & pólitík

Nú hefur Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stigið fram og segist axla ábyrgð af lélegri öryggisgæslu í sendiráði Bandaríkjanna í Benghazi þar sem sendiherra Bandaríkjanna var myrtur í síðasta mánuði (sjá frétt BBC í morgun). Hún segir að öryggisgæsla sé á hennar ábyrgð ekki Hvíta Hússins og er þetta liður í því að létta ásökunum á hendur Barak Obama en nú standa fyrir dyrum aðrar kappræður hans og hins forsetaframbjóðandans, Mitt Romneys.
Ekkert nýtt að konur axli ábyrgð og alveg ljóst að Hillary Clinton er að styrkja sig mjög í sessi. Ýmsir sjá nú eftir því að hafa ekki veitt henni brautargengi þegar frambjóðandi demókrata til embættis forseta var valinn í aðdraganda forsetakosninganna 2008. Barak Obama hefur valdið vonbrigðum og hinar miklu breytingar, sem hann boðaði þykja ekki vera í sjónmáli.

Ég átti samtal við rússneska kaupsýslumenn sem eru nú búsettir í New York og eru yfir sig hrifnir af Romney – maður sem hefur unnið sig upp og er táknrænn fyrir bandaríska drauminn; segja þeir, þessir menn sem flúðu Sovétríki kommúnismans fyrir rúmum tveimur áratugum. Á sama tíma segja Bandaríkjamenn, sem ég hitti fyrir nokkrum dögum, að ameríski draumurinn sé dauður – forsetakosningarnar nú snúist um tvo kosti, hvorugan ákjósanlegan, enda snúist þetta allt um peninga þegar upp er staðið. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur nýverið úrskurðað að lögaðilar, fyrirtæki, hafi á grundvelli tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar rétt til að ráða úrslitum í kosningum með fjárframlögum sínum; minnir kona á, sem varð á vegi mínum og er ekki spennt fyrir kosningunum. Hún segir Obama sjálfhverfan og þroskaleysi hans komi í ljós þegar hann þarf að tjá sig án „teleprompters“.

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru grafalvarlegt mál en þær varpa þær einnig ljósi á yfirborðsmennsku stjórnmálanna. Ummæli Rússana um ameríska drauminn segja sína sögu. Þessir menn, sem kannski fæddust á þeim tíma þegar Krúsjeff fór úr öðrum skónum og sló í ræðupúlt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með rússneska babúsku sér við hlið, sem hét Nina – á meðan Bandaríkjamenn horfðu með stjörnur í augum á sinn ameríska draum holdi klæddan í John F. Kennedy og hans glæstu eiginkonu, Jacqueline í Chaneldragt.

Munurinn sem Rússar og Bandaríkjamenn standa frammi fyrir nú er ekki eins sláandi. Vladimir Putin, Mitt Romney og Barak Obama eiga það allir sammerkt að stór og sterk fyrirtæki standa að baki þeim. Ameríski draumurinn er dauður – segja margir Bandaríkjamenn. Draumurinn um hin jöfnu tækfæri er að engu orðinn þegar 1 prósent þjóðarinnar á helming alls auðsins. Hvað eiga þá 2 prósent og hvað er þá eftir handa hinum?
En frambjóðendurnir eru eins og nýstignir út úr vaxmyndasafni Madame Tussaud; spengilegir, með broshrukkur og sumir segja með hæfilegan skammt af hláturgasi áður en þeir ganga inn á vígvöll sjónvarpskappræðna, sem heimsbyggðin fylgist með. Og Nota Bene: Allir karlkyns.
Michelle, elskan, leiðinlegt að geta ekki haldið upp á tuttugu ára brúðkaupsafmælið með þér . . . takk fyrir að vera gift mér . . . lofa þér að halda upp á næsta brúðkaupsafmæli í einrúmi . . . – eitthvað í þessa veru hófst ræða Barak Obama í fyrstu sjónvarpskappræðunum vegna forsetakosninganna. Eins og hundruð milljóna séu þrúguð af áhyggjum yfir því að þau hjón hafi þurft að eyða kvöldinu í sjónvarpssal.
Þessi frambjóðendur hafa ógrynni fjár (talið að kosningarnar í heild kosti um 700 milljarða Bandaríkjadala), þeir hafa ímyndarsmiði á vakt allan sólarhringinn og samt geta þeir/hann ekki gert betur en þetta. Er það af því að teleprompterar hugsa ekki sjálfstætt og af því að ímyndarsmiðir eru jú, bara auglýsingamenn en ekki endilega frumlegir hugsuðir, hvað þá hugsjónamenn?
Þegar grannt er hlustað er minni munur á málflutningi Obama og Romneys en Obama og Hillary Clinton, sem tapaði fyrir honum á sínum tíma. Hillary Clinton talar um peningaöflin. Ég vek athygli á því og bendi kjósendum, hvar sem þeir eru, að hlusta eftir því. Þeir sem ekki minnast á peningaöflin eru á valdi þeirra og það eru ekki þannig frambjóðendur sem koma til með að þjóna lýðræðishugsjóninni um jöfn tækifæri og grundvallarréttindi.
Obama og Romney? Tværi hliðar á sömu mynt?
(Stærstu styrktaraðilarnir í bandarísku forsetakosningunum skv. BBC)
by Herdís Þorgeirsdóttir | 16.10.2012 | Mannréttindi & pólitík
15. október 2012
Ingrid Schulerud
Ingrid Schulerud heilsaði upp á mig á fundi hjá Evrópuráðinu í vikunni. Hún sagðist hafa lesið um forsetakosningarnar á Íslandi í norsku pressunni. Ingrid er stjórnmálafræðingur að mennt og starfar að málefnum Evrópska efnahagssvæðisins í utanríkisráðuneytinu í Osló. Eiginmaður hennar er Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs. Þess má jafnframt geta að föðursystir hennar var hinn dáði og verðlaunaði barnabókahöfundur, Ann-Cath Vestly. Hver man ekki eftir bókinni um Óla Alexander Fíli bomm-bomm?
Caroline Martin
Er lögfræðingur sem starfar hjá Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum (Feneyjarnefnd) – á sviði lýðræðisstofnana og mannréttinda. Hún á þýska móður en franskan föður og er alin upp í Frakklandi. Hún hefur starfað hjá Evrópuráðinu í nokkuð langan tíma; er mikil fagmanneskja og frábær í samstarfi.
Dan Meridor
Í þó nokkurn tíma hefur þessi maður verið sessunautur minn á fundum hjá Evrópuráðinu – fulltrúi Írlands situr á milli okkar, þ.e. Íslands og Ísrael. Dan Meridor heitir hann og er varnamálaráðherra og varaforsætisráðherra Ísrael. Lífverðir fylgja honum hvert fótmál. Hann hefur áður gegnt stöðu dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra enda verið lengi tengdur stjórnmálum. Hann er fæddur í Jersúsalem 1947; er lögfræðingur að mennt; en gegndi herþjónustu áður. Las einhvers staðar að hann hafi verið skriðdrekaforingi í sex daga stríðinu á milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrland hins vegar í júní 1967 og Jóm Kippur stríðinu í október 1973 á milli Ísraels annars vegar og bandalags Arabaríkja hins vegar. Stríðið hófst með sameiginlegri árás Egyptalands og Sýrlands á Ísrael á jóm kippur, hátíðisdegi gyðinga.
Slavica Banic

Á myndinni er ég með Slavica Banic, sem er dómari við stjórnlagadómstólinn í Króatíu og með mér í Evrópusamtökum kvenlögfræðinga – (www.ewla.org). Hún er fædd í Sarajevo í Bosníu Hersegóvínu í febrúar 1966 og lauk laganámi frá háskólanum í Zagreb. Hún var skipuð dómari við stjórnlagadómstólinn í Króatíu 2008.
Þorgerður Erlendsdóttir
Æskuvinkona mín, Þorgerður Erlendsdóttir er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Til hægri á myndinni er yngsta systir hennar, Hugborg. Þorgerður er einstök kona, vandvirk, vel gefin, vel gerð og vill hvers manns vanda leysa.

by Herdís Þorgeirsdóttir | 6.10.2012 | Mannréttindi & pólitík
6. október 2012
Í Fréttablaðinu í dag er viðtal Bergsteins Sigurðssonar við ástralska rithöfundinn, Önnu Funder, höfund bókarinnar Stasiland. Í bókinni segir hún sögu fjögurra andófsmanna í Austur-Þýskalandi og fjallar um hugrakka uppljóstrara og starfsmenn austur-þýsku öryggislögreglunnar, Stasi. Í viðtalinu segir Anna Funder að hún hafi mikinn áhuga á hugrekki og að skoða hvers konar kjark þurfi til þess að neita að starfa með ógnarstjórn, vitandi að maður verði látinn gjalda þess á einn eða annan hátt.
“Í upphafi drap Stasi fólk óhikað en þegar á leið dró úr því og við tóku aðferðir sem miðuðu að því að taka fólk á taugum, til dæmis áreitni og hagnýting illa fenginna upplýsingar um hagi þess“.
Í fyrradag lést samstarfsfélagi, Vojin Dimitrijevic, serbneskur prófessor, dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag, forstöðumaður Mannréttindastofnunarinnar í Belgrad, mikilsvirtur fræðimaður á alþjóðavettangi og baráttumaður gegn hvers konar spillingu, alræðistilburðum og mannréttindabrotum; heiðraður af frönskum stjórnvöldum og prófessor við háskóla beggja meginn Atlantsála. Hann var áttræður þegar hann lést og hafði mikla reynslu af spilltum stjórnvöldum og skoðanakúgun. Hann hafði verið skipaður prófessor við lagadeild háskólans í Belgrad en var vikið úr starfi vegna andúðar sinnar og gagnrýni á stjórnarhætti hins forherta, þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic. Prófessor Dimitrijevic hafði hugrekki til þess að fara gegn straumnum.
Miloslevic var mannréttindaníðingur og hafði lítið dálæti á pólitískum réttindum
eins og tjáningarfrelsi og auðvitað var borgaralegt hugrekki manna eins og prófessors Diemitrijevic, sem hafði engan áhuga á að vera kjölturakki spilltra stjórnmálamanna – eitur í beinum Slobodans Milosevic. Enda galt Vojin Dimitrijevic fyrir með stöðu sinni við háskólann í Belgrad þar sem prófessorar eru skipaðir til æviloka. En hann átti eftir að ná frama sem fræðimaður á alþjóðavettvangi og komst í þá stöðu að vera skipaður dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag – þangað sem Slobodan Milosevic var dreginn síðar (en hann dó í fangaklefa í Haag 2006). Meðan Sloba, eins og gælunafn hans var, var forseti Serbíu og síðar Júgóslavíu, voru ítök stjórnvalda í fjölmiðlum álitin ein kjölfesta valdsins – að vanda – og þannig var umræðunni í samfélaginu stjórnað. Blaðamenn og fleiri voru sóttir til saka fyrir að gagnrýna stjórnvöld – en þegar óttinn er orðinn víðtækur þarf ekki ekki sinni að ákæra fólk. Sjálfs-ritskoðunin tekur völdin og fólk þegir – nema þessir fáu hugrökku sem eru tilbúnir að færa persónulegar fórnir. Enginn skyldi halda að þessi lýsing eigi bara við Serbíu – eða að hún eigi bara við síðasta áratug síðustu aldar.
Serbía varð 45 aðildarríki að Evrópuráðinu 2003 og hefur því undirgengist þær skuldbindingar sem Mannréttindasáttmáli Evrópu leggur á ríki að standa vörð um tjáningarfrelsi; og ekki eingöngu það heldur ber stjórnvöldum skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að þetta grundvallarfrelsi í lýðræðisríkjum sé virkt. Í dómaframkvæmd og túlkun á 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu er vernd tjáningarfrelsis meðal annars fólgin í því að vernda uppljóstrara; stuðla að öflugri pólitískri umræðu, sjálfstæðu, óháðu ríkisútvarpi, fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og umfram allt óttaleysi blaðamanna, bloggara og almennings í að tjá sig.
Árið 1927 skrifaði Louis Brandeis dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna rökstuðning fyrir niðurstöðu í dómi í máli Whitney gegn Kalíforníu – þar sem hann sagði m.a. að þátttaka í opinberri umræðu væri pólitísk skylda og að þeir sem hefðu lagt grunninn að bandarískri stjórnskipun hefðu gert sér grein fyrir því að stofnanir samfélagsins væru ekki öruggar andspænis kúgunartilburðum —- (t.d. skoðanakúgun í stjórnsýslu, í háskólum o.s.frv.) – en óttinn elur af sér kúgun; kúgun leiðir til haturs og hatur er ógn við stöðugleika stjórnkerfa – leiðin til farsældar er fólgin í opinskárri umræðu, í heilbrigðri gagnrýni.
Á öðrum stað sagði þessi merki hæstaréttardómari: – hugrekki er forsenda frelsis. Enn fremur sagði hann:
Við getum búið við lýðræði, eða að við búum við það að auðurinn er í höndum örfárra – en við getum ekki búið við hvort tveggja.
(We may have democracy, or we may have wealth concentrated in the hands of a few, but we can’t have both.)
Þannig hugsaði dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrir næstum einni öld.
Þeir sem eru hugrakkir í dag geta endurtekið: Við getum búið við lýðræði eða auðræði en við getum ekki búið við hvort tveggja.
Verum hugrökk!
by Herdís Þorgeirsdóttir | 3.10.2012 | Mannréttindi & pólitík
Uppgjör framboðs Herdísar Þorgeirsdóttur
Frétt Bylgjunnar
Frétt Vísis
Frétt í DV
Frétt Mbl. af útgjöldum frambjóðenda.
Vísir
RÚV / RÚV um opið bókhald Herdísar
Sjónvarpsfréttir á RÚV daginn eftir að skilafrestur rann út

Var við kennslu í Tbilisi, Georgíu alla síðustu viku. Kom heim á sunnudagskvöld en aðrir frambjóðendur höfðu verið skila fyrir helgina. Uppgjörið fór til löggilts endurskoðanda í gær og er nú komið til Ríkisendurskoðunar.
Hér birtist uppgjör mitt vegna kosninga til embættis forseta Íslands þann 30. júní 2012.
Bókhald mitt var opið hér á heimasíðunni fram yfir kosningar, þann 30. júní s.l.
Í þessu uppgjöri, sem er nú vottað af löggiltum endurskoðanda og komið til Ríkisendurskoðunar, er gerð grein fyrir öllum mótteknum framlögum og útgjöldum vegna framboðs míns. Kosningabaráttan stóð yfir tímabilið maí – júní 2012.
Í samræmi við þau málefni sem ég lagði áherslu á í kosningabaráttunni – að peningaöfl ættu ekki að ráða úrslitum í lýðræðisþjóðfélagi, þáði ég enga styrki frá fyrirtækjum.
(more…)