Andmælandi við doktorsvörn

Andmælandi við doktorsvörn

Sendi ykkur kveðju úr lestinni á leið frá Örebro til Stokkhólms þaðan sem ég flýg heim.

11Hér skín glampandi sól inn um gluggann. Hún var taugaóstyrk ungi doktorsneminn sem var að verja ritgerð sína um lög Islam (Sharia) í ljósi alþjóðlegra mannréttindaákvæða. Allt gekk vel. Leiðbeinandi hennar er prófessor við lagadeild Stokkhólmsháskóla og bæði eru þau af írönskum uppruna. Hún sagði mér að ýmsir hefðu varað hana við að fjalla um svo eldfimt efni sem Sharia lögin og viðbrögð öfgafullra múhameðstrúarmanna við því að tjáningarfrelsið verndaði ritverk Salman Rushdie; skopmyndir af Múhameð spámanni í Jótlandspóstinum o.fl. – en niðurstaða hennar er að “þeir” eigi ekki að geta “ritstýrt” umræðunni með því að fæla alla frá að fjalla um þessi trúarbrögð af ótta við afleiðingarnar – tjáningarfrelsið gengur framar umfjöllun um trúarbrögð.

Þetta er sem sagt hugrökk, ung kona og gaman að hafa átt þátt í því að styðja hana!

Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

Tilkynning Herdísar Þorgeirsdóttur um framboð til embættis forseta Íslands 30. mars 2012

herdís tilkynnir forsetaframboðKjör forseta Íslands fer fram laugardaginn 30. júní. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins hefur sitjandi forseti ákveðið að sækjast eftir endurnýjuðu umboði – fimmta kjörtímabilið í röð. Þessi ákvörðun hans er umdeild.

Því hefur verið haldið fram að það sé nánast ómögulegt að fara gegn sitjandi forseta. Teflt er fram ýmsum fælingarástæðum, þar á meðal óheyrilegum kostnaði. Fáum sé því kleift að bjóða sig fram– nema með stuðningi fjársterkra aðila.

Í kjölfar þess að íslenska fjármálakerfið hrundi haustið 2008 átti sér stað vitundarvakning um ábyrgð og hlutverk hins almenna borgara að stuðla að framgangi lýðræðisins. Það kviknaði von hjá mörgum um gagngerar breytingar. Umdeild ákvörðun sitjandi forseta hefur slegið á þær væntingar og orðið til þess að ég hef fengið hvatningu um að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Þeir sem kalla eftir framboði mínu eiga það sammerkt að deila hugsjónum mínum um virkara lýðræði og aukin mannréttindi. Í rannsóknum mínum hef ég fjallað um þá hættu sem lýðræði og mannréttindum stafa af nánum tengslum stjórnmála, peningaafla og fjölmiðla. Ég hef gagnrýnt þöggun og ótta við valdhafa, sem kæfa nauðsynlega umræðu í samfélaginu og halda því í fjötrum sérhagsmunagæslu.

***

Ég hef kallað til þessa blaðamannafundar til að tilkynna þá ákvörðun mína að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Framboð mitt byggir á því að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin og það er undirstaða réttlætis og lýðræðis. Völdin eiga að koma frá okkur fólkinu og þau ber að nota í okkar þágu.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er grundvallarregla íslenskrar stjórnskipunar. Í stjórnarskránni er forseta Íslands falið vald til að virkja þann rétt. Málskotsrétturinn er öryggisloki, sem ber að beita af varfærni, en þjóðin þarf jafnfamt að geta treyst því að forseti Íslands hafi burði til að beita þessum rétti ef þörf krefur.

***

Mér finnst að allt sé til vinnandi til að gefa kjósendum kost á að fylkja sér að baki þeim hugmyndum sem framboð mitt byggir á. Í framboði mínu felst ákveðin tilraun fyrir lýðræðið, að láta á það reyna hvort fólkið í landinu – vilji það styðja mig til embættis forseta Íslands – sé máttugra en fjármálaöflin – sem hafa skekkt grundvölll lýðræðisins.

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að forseti Íslands gegnir mikilvægu hlutverki sem talsmaður þjóðarinnar en hvorki sérhagsmuna né sérstaks hóps innan hennar.

Á þjóðinni hvílir farg. Hún hefur áhyggjur af fjármálum sínum og framtíð. Í landinu ríkir óvissa.

Þjóðin hefur aldrei þurft meira á því að halda en nú að forseti Íslands sé öflugur málsvari mannréttinda og lýðræðis. Ég er óhrædd á þeim vettvangi og tel að forseti sem leggur áherslu á þær hugsjónir muni starfa í sátt við þjóðina.

 

Þakka ykkur fyrir.

 

 

Jónas Kristjánsson í upphafi kosningabaráttu

Jónas Kristjánsson í upphafi kosningabaráttu

AAf

Af heimasíðu Jónasar Kristjánssonar fyrrum ritstjóra og samfélagsrýnanda með meiru í upphafi kosningabaráttu Herdísar Þorgeirsdóttur 2012.

Herdís verður frábær

 — PUNKTAR

Ég get vel hugsað mér að kjósa Herdísi Þorgeirsdóttur sem forseta Íslands. Held að hún sé að mörgu leyti frábær kostur. Vel menntuð og ákveðin, engin pólitískur taglhnýtingur. Ég veit samt lítið um líkur hennar á árangri. Því miður vildi hún ekki taka þátt í prufukeyrslunni á spurningavagni Capacent um daginn. Því er engin mæling komin enn á karisma hennar. Þóra Arnórsdóttir fékk þar fína mælingu. Hefði átt að fá fljúgandi start út á það, en er enn að hugsa málin. Við að taka af skarið fær Herdís forskot og aukna athygli, sem ætti að gagnast henni í næstu könnun. Líklega verða alvöru kosningar.