Frjáls Verslun, 5. tbl. 2006 kom út í dag en þar er að finna ítarlega úttekt á Tengslaneti – Völd til kvenna í grein eftir Svövu Jónsdóttur blaðamann. Jafnframt gerir Jón Hauksson ritstjóri, þessa helsta tímarits viðskiptalífsins á Íslandi, hinni árlegu ráðstefnu á Bifröst hátt undir höfði í leiðara blaðsins. Meginþema blaðsins að þessu sinni eru konur í íslensku viðskiptalífi. Blaðið velur áttatíu áhrifamestu konur í íslensku atvinnulífi og þar af tuttugu á topplistann.
Í Frjálsri verslun segir ritstjórinn Jón G. Hauksson um þetta val: “Við gerð listans eru nokkrir þættir hafðir að leiðarljósi og eru þeir fleiri en áður. Það vegur þyngra núna hve mikinn vilja og áhuga konur hafa á að setjast í stjórnir fyrirtækja og félagasamtaka og láta þar með að sér kveða og hafa sig frammi í atvinnulífinu. Stóru þættirnir við valið eru áhrif og völd í skjóli fjármagns, forystuhugsun, fyrirmynd, fordæmi, athafnasemi, eldmóður, stærð fyrirtækja – og takið eftir; vilji til að beita sér og hafa sig frammi. Völd og áhrif í skjóli fjármagns geta verið tilkomin vegna hlutafjáreignar viðkomandi kvenna í fyrirtækjum- þar sem þær koma nálægt stórum og afdrifaríkum ákvörðunum – en líka í gegnum stjórnunarstarf þeirra í fyrirtækjum, til dæmis sem forstjórar eða framkvæmdastjórar einstakra sviða. Frjáls verslun velur tvær konur úr “akademíunni” inn á topp tuttugu listann að þessu sinni, þær Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, og Herdísi Þorgeirsdóttur lagaprófessor og baráttumanneskju um aukið jafnrétti. Báðar eru vel að því að vera komnar inn á listann. Menntun og jafnréttisbarátta eru núna fyrirferðameira í viðskiptalífinu en oft áður. Guðfinna hefur t.d. haft áhrif á þúsundir nemenda, sem numið hafa við HR og er sterkur leiðtogi sem hefur beitt sér fyrir nýjungum og haft áhrif á menntun á Íslandi.
Herdís Þorgeirsdóttir hefur haldið ráðstefnu á Bifröst þrjú ár í röð um tengslanet – völd til kvenna. Það verður að segjast eins og er að- það teljast mikil áhrif að fá hátt á fjórða hundrað kvenna upp á Bifröst og hvað þá að fá þær allar til að standa upp með dynjandi lófaklappi og bravóhróprum og samþykkja einróma ályktun um að sett verði lög um kynjakvóta í stjórnum skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni. En þetta gerði Herdís.”
– Jón G. Hauksson