Viðtal í Fréttablaðinu við Herdísi um þátttöku hennar á fundi um fjölmiðla hjá Evrópuráðinu í Strassborg:
“Við ætlum meðal annars að ræða hvernig fjölmiðlum er gert kleift að rækja hlutverk sitt sem varðhundar almennings og hvaða úrræði eru til staðar takist það ekki,” segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við Háskólann á Bifröst. Skýrsla hennar á sviði fjölmiðlaréttar verður lögð til grundvallar á fundi Evrópuráðsins í Strassborg í dag. Skýrslan, sem hún vann fyrir Feneyjanefnd Evrópuráðsins, hefur vakið heimsathygli, eins og rannsóknir hennar á sviði fjölmiðlaréttar.
“Vissulega er viðurkenning í því að haldinn sé fundur þar sem verk manns eru útgangspunktur í umræðu um hvernig sé hægt að ýta undir ábyrgari fjölmiðlun,” segir Herdís. Hún hóf fyrir fjórtán árum rannsóknir og umræðu um samtvinnun viðskipta og pólitísks valds í fjölmiðlum út frá réttarvernd sem þeir njóta á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu og í stjórnskipun ríkja, sem lengst eru komin í að tryggja frelsi og sjálfstæði fjölmiðla.
“Ég hóf rannsóknirnar á þeirri forsendu að sjálfsritskoðun væri vandamál í fjölmiðlun. Nú er almennt viðurkennt að það sé víðtækt, vegna þröngs eignarhalds og innri sjálfsritskoðunar, svo þeir geta ekki staðið sig í vörslu almenningshagsmuna,” segir Herdís og tekur efnahagsþrot Íslendinga sem dæmi. “Spyrja má hvort fjölmiðlar hefðu getað stemmt stigu við þróuninni hefðu þeir verið sjálfstæðari og betur búnir til að sinna hlutverki sínu. Ef illa er komið fyrir okkur er það af því að almenningur náði ekki að sporna við fótum þar sem hann var illa upplýstur, en fjölmiðlar eiga að setja pólitíska og efnahagslega umræðu í skýrt samhengi. Aldrei hefur það verið ljósara en nú þegar hugsanlegt þjóðargjaldþrot blasir við og flestir fjölmiðlar komnir undir einn hatt. Hvernig geta þeir rækt hlutverk sitt ef hagsmunatengsl toga í þá?” spyr Herdís og segir sjálfsritskoðun hrjá blaðamenn víða um heim. “Þeir óttast því þeir vita ekki hvað ritstjóra þeirra þóknast. Hann veit ekki hvað eigendum þóknast, sem hugsa um pólitísk tengsl, auglýsendur, fjármagn og oft eigin hagsmuni vegna áhrifa í viðskiptalífi,” segir hún og bætir við að Mannréttindasáttmáli Evrópu verndi stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi, meðal annars tjáningarfrelsi.
“Tjáning fjölmiðla er tvíþætt; tjáningar- og upplýsingafrelsi án þess að stjórnvöld leggi áður stein í götu þeirra; svo er óbein hindrun eða ósýnileg ritskoðun vegna eignatengsla, áhrifa fjársterkra aðila og pólitískra ítaka eða sambland af öllu,” segir Herdís og bendir á að stjórnmálamenn heims vilji hafa ritstjóra á sínu bandi til að koma vel út i fjölmiðlum. Samtrygging sé milli fjölmiðla, stjórnvalda og viðskiptalífs, en almenningur verði eftir. “Fjölmiðlar sem byggja afkomu á viðskiptalegum hagsmunum geta varla gagnrýnt sömu öfl, en þá er upplýsingum haldið frá almenningi og afleiðingarnar geta orðið alvarlegar.” Hún segir lýðræði Íslendinga í hættu vegna efnahagslegs ósjálfstæðis. Í bók sem senn kemur út í Evrópu skrifar hún kaflann “Eitthvað er rotið …” um mikilvægi þess að fjölmiðlar taki á spillingu. “Spurning er hvernig þeir eiga að geta það þegar þeir eru sjálfir í valdaflækjunni? Fundur Evrópuráðsins snýst meðal annars um hvort stjórnvöldum beri skylda til að tryggja að fjölmiðlar ræki þetta hlutverk og hvað beri að gera.”thordis