Umfjöllun Eyjunnar um bréf til RÚV

Umfjöllun Eyjunnar um bréf til RÚV

Herdís i Vín með glerauguHerdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi vill að utanaðkomandi einstaklingar verði fengnir til að stýra kosningaumfjöllum Ríkisútvarpsins til að tryggja það að hún verði hlutlaus. Dögg Pálsdóttir, hæstaréttarlögmaður, skrifaði á dögunum varafréttastjóra RÚV bréf fyrir hönd Herdísar þar sem þess er óskað að RÚV upplýsi hvernig stofnunin hyggist tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun.

Þann 9. maí skrifaði Dögg bréf til Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, varafréttastjóra RÚV, í framhaldi af samtali þeirra Herdísar og Sigríðar. Tilefni bréfsins var sú staðreynd að…:

…einn frambjóðenda til embættis forseta Íslands er einstaklingur sem fram til 4. apríl sl. var nánast daglegur gestur á heimilum landsmanna vegna starfa sinna hjá Ríkisútvarpinu sem aðstoðarritstjóri í fréttaþættinum Kastljósi og annar tveggja spyrla í spurningaþættinum Útsvar.

Er þarna verið að vísa í Þóru Arnórsdóttur. Í bréfinu er vitnað til ummæla sem Þóra lét hafa eftir sér í viðtali við Pressuna þann 5. janúar þar sem fram kemur að hún útilokaði ekki framboð og hún geti ekki annað en brugðist við áskorunum af fullri virðingu.

Þrátt fyrir þessa frétt á víðlesnum netmiðli verður ekki séð að Ríkisútvarpið hafi gripið til ráðstafana gagnvart áframhaldandi störfum umrædds einstaklings á skjánum. Viðkomandi hélt áfram að koma fram í viku hverri í Kastljósi og Útsvari,

segir í bréfinu. Enn fremur er fundið að því að í frétt RÚV þann 4. apríl, daginn sem Þóra tilkynnti um framboð, hafi hvergi komið fram hvenær hún hafi látið af störfum hjá RÚV, en fram kom að eiginmaður hennar Svavar Halldórsson hafi fengið leyfi frá störfum frá og með þeim degi. Enn fremur, þá voru þau Þóra og Svavar enn á lista yfir starfsmenn RÚV á heimasíðu stofnunarinnar og hvergi tilgreint að þau séu í leyfi, daginn sem bréfið var skrifað.

Það vekur furðu að Ríkisútvarpið virðist engar reglur hafa um það hvað gildir í tilvikum sem þessum. Í þrjá mánuði var umræddur starfsmaður áfram oft í viku gestur á skjám landsmanna þrátt fyrir yfirlýsinguna um að forsetaframboð væri líklegt. Starfsmaðurinn gaf þann möguleika aldrei frá sér eftir að frétt um efnið birtist hinn 5. janúar sl.

Í bréfinu segir að framangreindar staðreyndir séu „mikið umhugsunarefni“ og geri fátt til að vekja traust á því að RÚV sé eða geti verið hlutlaust í umfjöllun sinni um frambjóðendur í komandi kosningum.

Sú skekkja sem framangreint hefur valdið hlýtur að kalla á að Ríkisútvarpið geri það sem í þess valdi stendur til að leiðrétta ójafna stöðu frambjóðenda. Þá hlýtur Ríkisútvarpið að þurfa að tryggja það að engir samstarfsmenn umrædds frambjóðanda komi nálægt þáttagerð vegna forsetakosninga. Til þess eru þeir vanhæfir. Aðrir forsetaframbjóðendur geta ekki treyst því að þeir njóti hlutleysis eða sanngjarnrar umfjöllunar í þeirri kosningaumfjöllun sem framundan er nema að þeirri vinnu komi af hálfu Ríkisútvarpsins aðrir en samstarfsmenn eins forsetaframbjóðandans.

Loks er þess óskað að RÚV upplýsi um eftirfarandi atriði:

Hvernig Ríkisútvarpið hyggst kynna aðra forsetaframbjóðendur til að gera það sem hægt er að tryggja það að þeir sitji við sama borð og starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem var að störfum á skjánum nánast fram að þeim degi sem framboði var lýst.

Hvernig Ríkisútvarpið hyggst tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun og hvaða utanaðkomandi einstaklingar hafi verið fengnir til þess verks að annast hana af hálfu þess.

 

Bréf framboðs til Ríkisútvarps

Frétt Stöðvar 2: viðtal við Herdísi Þorgeirsdóttur

Fréttamenn Ríkisútvarps ætla ekki að víkja

Bréf til Sigríðar Hagalín Björnsdóttur hjá Ríkisútvarpinu dagsett 9. maí, 2012

Í framhaldi af símtali þínu við Herdísi Þorgeirsdóttur forsetaframbjóðanda í dag hefur Herdís falið mér að koma eftirfarandi á framfæri vegna þeirrar staðreyndar að einn frambjóðenda til embættis forseta Íslands er einstaklingur sem fram til 4. apríl sl. var nánast daglegur gestur á heimilum landsmanna vegna starfa sinna hjá Ríkisútvarpinu sem aðstoðarritstjóri í fréttaþættinum Kastljósi og annar tveggja spyrla í spurningaþættinum Útsvari:
  1. Hinn 5. janúar 2012 birtist á pressan.is viðtal við umræddan forsetaframbjóðanda, sjá http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/thora-arnors-heit-fyrir-forsetaframbodi—fjoldi-askorana—get-ekki-annad-en-brugdist-vid-af-fullri-virdingu þar sem fram kemur að hún útilokar ekki forsetaframboð og að hún geti ekki annað en brugðist við af fullri virðingu fyrir þeim sem skorað hafi á sig. Í viðtalinu kemur fram að á starfsmanninum sé að skilja að forsetaframboð sé meira en líklegt.
  2. Þrátt fyrir þessa frétt á víðlesnum netmiðli verður ekki séð að Ríkisútvarpið hafi gripið til ráðstafana gagnvart áframhaldandi störfum umrædds einstaklings á skjánum. Viðkomandi hélt áfram að koma fram í viku hverri í Kastljósi og Útsvari.
  3. Umræddur starfsmaður Ríkisútvarpsins lýsti yfir framboði til embættis forseta Íslans 4. apríl sl. Í frétt Ríkisútvarpsins um framboðið segir ekkert um hvenær hún lét af störfum hjá Ríkisútvarpinu en fram kemur að sambýlismaður hennar, sem einnig starfar hjá Ríkisútvarpinu, hafi fengið leyfi frá störfum frá og með þeim degi, sjá: http://www.ruv.is/frett/thora-bydur-sig-fram-til-forseta. Við gerð þessa tölvupósts skoðaði ég heimasíðu Ríkisútvarpsins. Bæði frambjóðandinn og sambýlismaðurinn eru enn á lista stofnunarinnar yfir starfsmenn og hvergi tilgreint að þau séu í leyfi.
  4. Það vekur furðu að Ríkisútvarpið virðist engar reglur hafa um það hvað gildir í tilvikum sem þessum. Í þrjá mánuði var umræddur starfsmaður áfram oft í viku gestur á skjám landsmanna þrátt fyrir yfirlýsinguna um að forsetaframboð væri líklegt. Starfsmaðurinn gaf þann möguleika aldrei frá sér eftir að frétt um efnið birtist hinn 5. janúar sl.
  5. Í byrjun maí sl., mánuði eftir að viðkomandi lýsti yfir forsetaframboði, sendi fréttastjóri Ríkisútvarpsins bréf til starfsmanna og hvatti þá til hlutleysis í umfjöllun í komandi forsetaframboði.
Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Vegna þessarar stöðu á Ríkisútvarpið ekki eingöngu að vera hlutlaust heldur virðast hlutlaust. Framangreindar staðreyndir eru mikið umhugsunarefni og þær gera fátt til að vekja traust á því að Ríkisútvarpið sé eða geti verið hlutlaust í umfjöllun sinni um frambjóðendur í komandi forsetakosningum.
Sú skekkja sem framangreint hefur valdið hlýtur að kalla á að Ríkisútvarpið geri það sem í þess valdi stendur til að leiðrétta ójafna stöðu frambjóðenda. Þá hlýtur Ríkisútvarpið að þurfa að tryggja það að engir samstarfsmenn umrædds frambjóðanda komi nálægt þáttagerð vegna forsetakosninga. Til þess eru þeir vanhæfir. Aðrir forsetaframbjóðendur geta ekki treyst því að þeir njóti hlutleysis eða sanngjarnrar umfjöllunar í þeirri kosningaumfjöllun sem framundan er nema að þeirri vinnu komi af hálfu Ríkisútvarpsins aðrir en samstarfsmenn eins forsetaframbjóðandans.
Þess er óskað að Ríkisútvarpið upplýsi:
  • Hvernig Ríkisútvarpið hyggst kynna aðra forsetaframbjóðendur til að gera það sem hægt er að tryggja það að þeir sitji við sama borð og starfsmaður Ríkisútvarpsins, sem var að störfum á skjánum nánast fram að þeim degi sem framboði var lýst.
  • Hvernig Ríkisútvarpið hyggst tryggja hlutlausa kosningaumfjöllun og hvaða utanaðkomandi einstaklingar hafi verið fengnir til þess verks að annast hana af hálfu þess.

Um leið og óskað er staðfestingar á móttöku þessa tölvupósts er þess farið á leit að viðbrögð RÚV við ofangreindu berist svo fljótt sem auðið er.

Með virðingu,
f.h. framboðs Herdísar Þorgeirsdóttur til embættis forseta Íslands,
Dögg Pálsdóttir

NÆRMYND AF HERDÍSI ÞORGEIRSDÓTTUR

NÆRMYND AF HERDÍSI ÞORGEIRSDÓTTUR

Nærmynd af Herdísi Þorgeirsdóttur

Viðtöl við vini Herdísar og systur um æsku hennar uppvöxt, feril og persónu í Íslandi í dag á Stöð 2, 15. maí 2012. Umsjón Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Sindri Sindrason.

Þessu góða fólki eru færðar þakkir fyrir framlag þeirra og fagleg vinnubrögð.

Elísabet Ronaldsdóttir

“Herdís hefur skýra sýn á hlutverk forseta Íslands, hugmyndafræði hennar öll er mörkuð af störfum hennar í þágu mannréttindamála og tjáningarfrelsis og hún er fyrir hugmyndir um sjálfbærni. Get ekki hugsað mér betri forseta. Áfram Herdís!”

– Elísabet Ronaldsdóttir á FB 17. maí, 2012

 

 

 

 

 

 

 

Herdís Magnea Hübner

“Ef þið eruð í vafa um hver sé hæfasti forsetaframbjóðandinn, skuluð þið horfa á þessa nærmynd. Hugsið svo um hvort það sé boðlegt að láta telja sér trú um að það séu bara tveir möguleikar í boði”.

– Herdís Magnea Hübner á FB 15. maí, 2012.

 

 

 Vigdís Grímsdóttur rithöfundur um Herdísi

“Það er ekkert auðveldara í veröldinni en að styðja heiðarlega hugsjónamanneskju með sterka réttlætiskennd; manneskju sem hefur skömm á mismunun í samfélaginu, berst fyrir mannréttindum, jafnrétti og bræðralagi og lætur hvorki hinn dauðþreytta fjórflokk né hin ísmeygilegu peningaöfl gengisfella sannfæringu sína. Herdís er traustsins verð, hún kemur til dyranna einsog hún er klædd og segir það sem henni býr í brjósti.”

(Úr ummælakerfi):

Vigdís Grímsdóttir · Works at Rithöfundur/kennari

Það var einhver sem sendi mér póst og spurði hvort það væri eitthvað sérstakt að ég styddi Herdís Þorgeirsdóttir ( þgf) – svarið er já – það er sérstakt, ég styð ekki fólk nema það hljómi við þá sannfæringu mína að allir menn séu jafnir og eigi sama rétt, að öllu fólki sé gert jafnt undir höfði, slíkar manneskjur eru fágætar, Herdís Þorgeirsdóttir, er ein þeirra!

 

 

 

SÖFNUN MEÐMÆLENDA LOKIÐ

Tilkynning frá framboði Herdísar Þorgeirsdóttur

herdis.is  11:00 15. maí, 2012

Söfnun meðmælenda er lokið.

Stuðningsmenn Herdísar Þorgeirsdóttur eru að ganga frá gögnum í því formi sem yfirkjörstjórnir óska eftir.

Söfnun um land allt gekk mjög vel. Þeim sem söfnuðu undirskriftum eru færðar einlægar þakkir.

Öllum sem voru tilbúnir að mæla með framboði Herdísar Þorgeirsdóttur til embættis forseta Íslands færir Herdís sérstakar þakkir.