Herdís á RÚV 17 apríl 2017Viðtal í kvöldfréttum RÚV í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingarnar í Tyrklandi.

http://www.ruv.is/frett/urkynjad-ferli-i-tyrklandi

Miklir ágallar voru á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Tyrklandi að mati alþjóðlegra eftirlitsnefndar. Stjórnarskrárbreytingarnar sem þjóðin samþykkti í gær stuðla að einræði og úrkynjuðu ferli segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, varaforseti Feneyjanefndarinnar.

Tyrkir samþykktu stjórnarskrárbreytingarnar með 51,4 prósentum atkvæða. Þær færa Erdogan, forseta landsins mjög aukin völd, um leið og embætti forsætisráðherra verður lagt niður.

„Þarna er verið að stuðla í raun og veru að persónubundnu stjórnarfari, einræði og það er úrkynjað ferli því að það er ekki tryggt með þessu forsetaræði, það er ekki sterkt dómsvald og það er í raun og veru ekki lengur þrígreining ríkisvaldsins vegna þess að forsetinn núna, hann hefur verið forseti frá því 2014, að hann er kominn með vald til þess að setja neyðarlög í landinu hvenær sem honum sýnist, án takmarkana og tilskipanir og forsetaúrskurði sem hafa jafnvel meira vægi en lög í framkvæmd,“

segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir.

Kosningaeftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópuráðsins sögðu í dag að lýðræðishalli hefði verið á framkvæmd kosninganna, þrátt fyrir að tæknileg framkvæmd þeirra hafi verið í lagi. Andstæðingar stjórnarskrárbreytinganna hefðu ekki setið við sama borð og stuðningsmenn Erdogans í kosningabaráttinni, og til að mynda fengið mun minni tíma til að kynna sjónarmið sín í fjölmiðlum. Óháð könnun sýnir að stuðningsmenn Erdogans fengu 10 sinnum meiri tíma á 17 sjónvarpsstöðvum til að kynna sjónarmið sín í kosningabaráttunni en andstæðingar hans.

Herdís segir að úrslitin séu mikil ógn við mannréttindi í landinu.

„Það er búið að festa einræði í sessi og það hefur stefnt í þetta lengi í Tyrklandi, þetta er grafalvarlegur hlutur sem er að eiga sér stað þarna, mjög alvarlegt.“

Erdogan ávarpaði stuðningsmenn sína í dag og minnti þá á forsetakosningarnar sem fram fara eftir tvö ár, en hluti stjórnarskrárbreytinganna sem kosið var um í gær, gera það að verkum að Erdogan getur nú setið á forsetastóli til 2029. Hann ítrekaði fyrir stuðningsmönnum sínum að hann vildi innleiða dauðarefsingu að nýju í Tyrklandi, en hún var afnumin þar með lögum árið 2002, og var talið að það myndi auka verulega möguleika þjóðarinnar á að fá aðild að Evrópusambandinu.

Sigmar Gabriel, utanríkisráðherra Þýskalands segir ljóst að innleiði Tyrkir dauðarefsingu að nýju sé úti um vonir þeirra um að verða meðlimir í Evrópusambandinu.