Dr. Herdís Þorgeirsdóttir hefur verið kjörin einn þriggja varaforseta nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, í daglegu tali nefnd Feneyjanefndin. Hlutverk Feneyjanefndar er að veita lögfræðilega ráðgjöf til aðildarríkja á sviði stjórnskipunar, ekki síst þeirra ríkja sem eru að aðlaga löggjöf og stofnanir að evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis.
Að Feneyjanefnd eiga aðild 59 ríki með einn og hálfan milljarð íbúa, þar af 47 ríki Evrópuráðsins auk Bandaríkjanna, ríkja í Suður-Ameríku, Asíu og Norður-Afríku. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambands og Efnahags-öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sitja aðalfundi nefndarinnar. Í Feneyjanefnd eiga sæti sérfræðingar á sviði stjórnskipunar og mannréttinda.
Herdís Þorgeirsdóttur var skipuð fulltrúi í Feneyjarnefnd af hálfu Íslands 2010 og hafði þá gegnt stöðu varafulltrúa frá 2003. Núverandi varafulltrúar eru Páll Hreinsson dómari við EFTA-dómstólinn og Hjörtur Torfason fyrrv. hæstaréttardómari. Herdís hefur gegnt formennsku í stærstu undirnefnd Feneyjanefndar á sviði mannréttinda frá 2011.
Herdís var skipuð prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst 2004. Hún hefur átt sæti stjórn Evrópsku lagaakademíunnar frá 2012. Hún var kjörin forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga 2009 og endurkjörin 2011. Hún hefur lengi starfað í hópi lögfræðingateymis á sviði evrópsks vinnuréttar og jafnréttis. Hún er menntuð lögfræðingur og stjórnmálafræðingur, lauk framhaldsnámi í Bandaríkjunum og doktorsprófi frá lagadeild Lundarháskóla. Hún starfar nú sem lögmaður í Reykjavík.
Meginhlutverk Feneyjanefndar er að veita lagalega ráðgjöf í formi lögfræðiálita á lagafrumvörpum eða nýrri lagasetningu sem er borin undir nefndina. Feneyjanefndin gerir einnig rannsóknir á mikilvægum álitaefnum. Aðilar sem leita eftir lögfræðilegum álitaefnum Feneyjanefndar eru löggjafsamkundar aðildarríkja og ríkisstjórnir; framkvæmdastjóri Evrópuráðs, ráðherranefnd og þingmannasamkunda Evrópuráðs; alþjóðlegar stofnanir, Evrópusambandið, Efnahags-öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og fleiri. Á síðasta ári óskaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis eftir áliti Feneyjarnefndar á frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Feneyjanefndin hefur aðsetur í höfuðstöðvum Evrópuráðs í Strassborg. Mannréttindadómstóll Evrópu vitnar iðulega til álita nefndarinnar sem og dómstólar, stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðlar víða um heim.
Sjá hér.