Forsetinn 2012: Herdís Þorgeirsdóttir

Sýn forsetaframbjóðenda á ungt fólk; Pistill og upptökur af framsögu forsetaframbjóðenda á fundinum Ungt fólk og forsetinn

Herdís um ungt fólk og forsetann:

Hvernig getur forseti Íslands náð til ungs fólks og virkjað lýðræðisvitund þess?

Þetta er mjög mikilvæg spurning að mínu mati og áhugaverð.  Hún er mikilvæg vegna þess að ef lýðræðisvitund ungs fólks er ekki til staðar, þá á heilbrigt lýðræðislegt samfélag sér ekki framtíð.

Í aðdraganda hrunsins – eins og kemur fram í Rannsóknarskýrslu alþingis – einkenndist stjórnmálamenningin – þ.e. afstaða fólks til stjórnmála  og samfélagsins af doða og andvaraleysi.  Öll skoðanamótun virtist miða að því að ala upp neytendur fremur en borgara. Neysluhyggjan var í algleymi og metnaðurinn virtist snúast um það að velja sér lífsstarf – sem gæfi mikið í aðra hönd. Það er gott og gilt út af fyrir sig að vilja búa vel í haginn fyrir framtíðina en það er í raun og veru fátæklegt líf ef það gengur eingöngu út á það að vera neytandi en ekki borgari.

Ein stærsta lexía hrunsins er sú að doði og andvaraleysi fullorðins fólks er mikil ógn við lýðræðið. Okkur varð ljóst – eða átti að verða ljóst að við berum sjálf ábyrgð á því hvort samfélagið þróast í lýðræðisátt eða hvort það hrynur undan þunga eigin spillingar.

Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að virkja lýðræðisvitund ungs fólks.  Þegar þið kjósið eru þið að virkja grundvallarréttinn í lýðræðisríki – þið eruð að velja ykkur forystu. Vonandi  ræður upplýst sannfæring ykkar hvern þið kjósið en ekki auglýsingar og áróður.

Forseti Íslands getur beint ungu fólki inn á þá braut að verða ábyrgir borgarar en ekki bara neytendur. Hann getur gengið á undan með góðu fordæmi með því að leggja áherslu á það að náttúran býður ekki upp á endalausan hagvöxt. Ef forseti gengur á undan og hampar þeim sem lifa ríkulega – sækist eftir félagsskap fólks sem flýgur á einkaþotum og á mikila peninga í stað þess að hampa þeim gildum sem eru okkur lífsnauðsyn eftir hrunið – það er heiðarleika, ábyrgð, hófsemi – þá er forsetinn að hvetja ungt fólk til neyslu – í stað þess að hvetja ungt fólk til að vera virkt í að efla lýðræðið og bjarga samfélaginu.

Umhverfið er ungu fólki ekki endilega hagstætt – fjölmiðlaumfjöllun  og markaðspólitík ganga út á það að ala upp neytendur.  Neysluhyggjan er forheimskandi. Ef hún nær yfirhöndinni í samfélaginu hrynur það – aftur og aftur og aftur.

Við stöndum á tímamótum í margvíslegum skilningi – efnahagsástandið víða um heim er ískyggilegt – atvinnuhorfur og þar af leiðandi framtíðarhorfur ungs fólks eru víða slæmar – og því er þörf meir en nokkru sinni fyrr að hvetja ungt fólk til að taka málin í sínar hendur – að sýna borgaralegt hugrekki og stíga út úr þeim fasa að gera eða vera eins og allir aðrir.

Hvað getur forsetinn gert fyrir ungt fólk?

Svarið við þeirri spurningu er í beinu framhaldi af þessu –  ef ég næði kjöri myndi ég vilja virkja ungt fólk til meiri þátttöku með því að virkja áhuga þess á mikilvægi þess að virða og efla mannréttindi og lýðræðið fyrir samfélagið og fyrir líf þess og framtíð. Ef þið fáið meiri áhuga á því að sinna stjórnmálum og samfélagsmálum heldur en bara til að svala eigin metnaði –  getið þið orðið mjög öflugir borgarar – og við þurfum meir en nokkru sinni áður á slíku fólki að halda. Nú þegar peningaöflin hafa undirtökin alls staðar – þarf mikið hugrekki til að gagnrýna  þau – alveg eins og það krafðist mikils hugrekkis að gagnrýna konungsveldi áður og síðar kjörna forystumenn í lýðveldinu.

Það sem samfélagið þarf nú er heiðarleiki og ábyrgð.  Við þurfum ekki að mennta lögfræðinga til að læra að sniðganga skattana eða endurskoðendur sem geta reddað bókhaldinu.

Við þurfum ungt fólk til að hjálpa íslensku samfélagi – og forsetinn á að virkja þetta unga fólk. Hann á að ganga undan með góðu fordæmi. Hið nýja hugvit er hugvit heiðarleika, hófsemi, dyggða og velvilja.

Það þarf að virkja þessa eiginleika og nota þá.

Einu sinni sagði frægur forseti í Bandaríkjunum ekki spyrja hvað samfélagið eða valdastofnanir þess geta gert fyrir ykkur – heldur hvað þið getið gert fyrir samfélagið. Þessi spurning er sígild.  Það besta sem maður getur gert fyrir ungt fólk er að vekja áhuga þess á samfélaginu og trú þess á því.

Hvert og eitt ykkar getið með ykkar framlagi skipt sköpum fyrir samfélagið.