Togstreita markaðar og réttarríkis – I (upphaflega birt sem greinaflokkur í Morgunblaðinu í janúar og febrúar 2006).
Hvernig ber að líta á réttarríkið?
Með þessum hætti þarf að hugsa um réttarríkið en ekki eingöngu sem ríki sem lýtur réttarreglum við beitingu ríkisvalds, þ.e. að stjórnvöld hagi athöfnum sínum í samræmi við lög; að eftirlit þurfi með meðferð opinbers valds, að lög séu ekki afturvirk; að dómstólar eigi að vera sjálfstæðir og valdmörk milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds séu skýr – allt bráðnauðsynlegar forsendur en ekki nægar. Það þarf að hugsa um réttarríkið sem dýpra og innihaldsríkara hugtak eins og það var skilgreint af alþjóðanefnd lögfræðinga 1959: Réttarríkið er fyrirkomulag til að ná fram stjórnmálalegu, félagslegu og efnahagslegu réttlæti! Þessi skilgreining á réttarríki á sér æ fleiri talsmenn. Einn þeirra, Owen Fiss, professor við lagadeild Yale-háskóla, bendir á hvernig fylgjendum þessa viðhorfs hafi fjölgað á sama tíma og ný-frjálshyggjan hafi leitt öflug stórfyrirtæki í öndvegi – sem í sjálfu sér sé lýðræðislegt. Á hinn bóginn sé ljóst að kröfur réttarríkisins um virðingu fyrir mannréttindum og kröfur fyrirtækja um hámarksarðsemi fara ekki alltaf saman. Markaðir þurfa á réttarríki að halda en þeir eru ef til vill ekki tilbúnir fyrir það í öllu sínu veldi, þar sem kröfur réttarríkis eru ekki endilega í samræmi við forsendur markaðarins.
Alexis de Toqueville, franski aristókratinn sem gerði úttekt á lýðræði í Ameríku á fyrri hluta 19. aldar, sagði að efnahagsleg hagsæld í lýðræði þyrfti alltaf að haldast í hendur við ákveðnar dyggðir. Hann taldi ekki nóg að afnema forréttindi valdastéttarinnar eins og gert hefði verið í frönsku byltingunni, efnahagslegur ójöfnuður væri líka áhyggjuefni fyrir lýðræðið.
Í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg í síðustu viku, sagði Terrie Davis aðalframkvæmdastjóri þess, í árlegu ávarpi til þingmannasamkundunnar, að til þess að Evrópuráðið gæti staðið vörð um þau grunngildi sem það byggði á – lýðræði, mannréttindi og réttarríki – mætti ekki gleymast að lýðræði væri meira en grunnreglur um viðeigandi lögskipan og ferli. Raunverulegt lýðræði ætti rætur í lýðræðis-menningu og þá menningu þyrfti að rækta, ekki bara í nýfrjálsum ríkjum heldur einnig þeim sem byggðu á aldalangri hefð.
Stöðug barátta fyrir réttindum
Þær rúmu 800 milljónir íbúa hinna 46 ríkja sem nú eru aðilar að Evrópuráðinu og Mannréttindasáttmála Evrópu eru mis”kúltíveraðar” í þessum efnum. Hin nýfrjálsu ríki Austur-Evrópu, umföðmuðu anda Evrópuráðsins þegar vígi kommúnismans féll með Berlínarmúrnum á svipaðan hátt og “eighties-tískuna” svokölluðu, jafn móttækileg fyrir mannréttindum og Íslendingar fyrir Gleðibankanum á þeim tíma. En eins auðveldlega og fólk gat losað sig við herðapúða og legghlífar níunda áratugarins eins erfiðlega getur gengið að breyta hugsunarhætti þess sem hefur búið við þá skoðanakúgun, ótta og óöryggi sem fylgir harðstjórn. Það er sama hvernig hún birtist allir óttast hana en eru að sama skapi ekki tilbúnir að berjast fyrir réttindum sínum eins og þarf að gera stöðugt.Þegar blaðamaður bandarísks stórblaðs hafði samband við mig sem varaforseta Evrópusamtaka kvenlögfræðinga í síðustu viku og bað mig að finna fyrir sig konu í einhverju Evrópuríki, sem hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni (líkast til af því að ný Hollywood-mynd með Charlize Theron í hlutverki slíks fórnarlambs er komin á markað) – var engin kona tilleiðanleg til að koma fram í dagsljósið og ræða sín mál. Ástæðurnar sem lögmenn þeirra gáfu voru m.a. ótti við afdrif sín á vinnumarkaði í kjölfarið.
Það var loks pólskur lögmaður (kona), sem svaraði tölvupósti og sagði frá því að á síðasta ári hefði komið upp alvarlegt mál af þessu tagi í verksmiðju, sem er útibú frá Pepsi, nálægt Varsjá. Þar hafði hópur verkakvenna kært yfirmann sinn fyrir kynferðislegt áreiti í vinnutímanum. Saksóknari gaf út ákæru á hendur verksmiðjustjóranum og hefur málsmeðferð fyrir sakadómi tekið langan tíma. Konunum hefur öllum verið sagt upp störfum og eru þær komnar með mál sitt fyrir félagsdóm. Fulltrúa Solidarnosk, verkalýðsfélagsins á staðnum, sem mótmælti brottrekstri þeirra var gefið að sök að hafa falsað upplýsingar og fleira áður en honum var sparkað. Landssamtök Samstöðu hafa í kjölfarið hótað að sniðganga vörur fyrirtækisins.
Vald stórfyrirtækja
Hvað kemur þessi saga markaði og réttarríki við frekar en sagan af Montesquieu? Hvað ef faðir hans, dómarinn hefði farið út fyrir kastalann sinn og sparkað í beiningamanninn á tröppunum? Spurningin snýst um ábyrgð þeirra sem eiga að tryggja að virðing sé borin fyrir mannréttindum og mannhelgi einstaklinga. Hún snýst um það hvernig samfélagið og umheimurinn allur bregst við þegar stórfyrirtæki á borð við það sem rak pólsku verkakonurnar fyrir að berjast gegn kynbundnu ofbeldi – eru komin í aðstöðu til að hóta fólki að henda því út á guð og gaddinn ef það er með eitthvert mannréttinda-múður. Og hún snýst ekki síst um það hvernig kjörin stjórnvöld bregðast þá við.
Eftir því sem vandamálin verða stærri og hnattrænni því meiri þörf er að alþjóðavæða réttarríkið. Það er að verða viðurkennd staðreynd í hópi sérfræðinga á sviði alþjóðalaga og stjórnskipunar að þróunin sé í átt að heimsrétti og að það sé að verða til kerfi alþjóðlegrar stjórnskipunar. Þar vegur þungt þróun mannréttinda á alþjóðavettvangi, ekki síst dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og túlkun hans á Mannréttindasáttmála Evrópu, sem “lifandi sáttmála” sem eigi að veita raunverulega réttarvernd í stað þess að vera fræðileg tálsýn. Evrópusambandsdómstóllinn í Lúxemborg hefur einnig verið virkur í því hlutverki að endurskoða löggjöf aðildarríkja á grundvelli Rómarsáttmálans. Þessi réttarframkvæmd hefur haft gífurleg áhrif innan ríkja, þ.e í afstöðu ríkja til eigin þegna og samskipta þeirra innbyrðis og gert það að verkum að fræðimenn eru farnir að vísa í evrópska stjórnskipun – jafnvel alþjóðlega stjórnskipun.
Óréttmæt áhrif valdablokka
Það er nokkuð viðurkennd staðreynd að ein mesta meinsemd nútíma stjórnkerfa eru óréttmæt áhrif valdablokka í viðskiptalífi á hið lýðræðislega ferli stjórnmálanna, sem í raun varpar skugga á lögmæti þeirra sem eru kjörnir til að fara með völdin og helstu stofnana samfélagsins. Ríkið á hvort tveggja að gæta þess að skerða ekki mannréttindi og jafnframt að tryggja öllum réttinn til að njóta þeirra. Nú eru stjórnvöld víða komin í þá aðstöðu að vera óbeinn þátttakandi í skerðingu með því annað tveggja að ýta undir aðstöðu þriðja aðila til að skerða þau eða koma ekki í veg fyrir slíkt með því að grípa til aðgerða.
Fjölmiðlasamsteypur nútímans eru ágætt dæmi um þetta vandamál. Hnattvæðingin er óhugsandi án þeirra samtímis sem þeir sem þar ráða för eru komnir með yfirþjóðleg áhrif og vald til skoðanamótunar vegna stýringar á upplýsingastreymi, sem vart nokkur máttur innan ríkis fær rönd við reist. Drittwirkung eða áhrif stjórnarskrárbundinna mannréttinda í samskiptum einkaaðila er vart álitamál lengur heldur frekar spurning um hve langt sú réttarvernd nær.
Mannréttindi eru ekki aðeins hástemmd og draumkennd markmið heldur niðurnjörvuð lagaákvæði þar sem auknar kröfur eru um athafnaskyldu ríkisvalds til að tryggja jafnræði borgara og forsendur þess að þeir geti notið grunnréttinda. Þegar Ísland sem fleiri Evrópuríki gerðist aðili að Evrópuráðinu og skuldbatt sig að þjóðarrétti til að framfylgja ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu var almennt álitið að sú réttarvernd sem þar væri snerist um að vernda einstaklinga gegn íhlutun ríkisvaldsins – enda meginregla að íslenskum rétti að einstaklingar búi við athafnafrelsi og slíku frelsi mætti aðeins setja skorður með lögum innan þess ramma sem stjórnarskrá setur. Hins vegar leggur Mannréttindasáttmáli Evrópu (1. gr.) sem og EES-samningurinn (3. gr) þá athafnaskyldu á íslenska ríkið að það geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að staðið sé við þær skuldbindingar sem samningarnir kveða á um. Frá því að þessir samningar voru lögfestir hér má segja að vendipunktur hafi orðið í afstöðunni til athafnaskyldu stjórnvalda, sem kallar ekki aðeins á stefnumarkandi dómaframkvæmd heldur einnig löggjöf með áherslu á efnisleg viðmið en ekki eingöngu formlega staðfestingu á þjóðaréttarlegum skuldbindingum.
Alþjóðlegir mannréttindasamningar sem upphaflega taka mið af þeim meginreglum stjórnskipunar sem eru ríkjandi í þeim ríkjum, sem lengst eru komin í átt til lýðræðis og frjálsræðis (eins og það viðmið var túlkað í upphafi kalda stríðsins) hafa síðan víxlverkandi áhrif í stjórnskipun innan ríkja. Endurbætur á stjórnarskrám og önnur lögskipan sem tekur mið af þjóðréttarlegum skuldbindingum veitir ríkisvaldinu aðhald en er einnig í auknum mæli álitið tæki stjórnvalda til að stuðla að ákveðinni samfélagsþróun, t.d. velferðarríki eða auknum jöfnuði.
Aðeins ein mannréttindi virk?
Philip Allot, lagaprófessor í Cambridge, talar um “lýðræðis-kapítalisma” þar sem hinn Almenni Vilji og Markaðurinn eru komnir í stað Guðs og Konungs; alvitrir og almáttugir og þess umkomnir að stuðla bæði að hinu besta og versta í samfélaginu þar með ójöfnuði í setningu laga og dómaframkvæmd. Allot segir aðeins ein mannréttindi virk um þessar mundir og það sé réttur hinna ríku til að verða ríkari. Bæði Hæstiréttur Bandaríkjanna og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa þurft að kljást við spurninguna um samþjöppun valds og möguleikana á öflugum skoðanaskiptum þegar fámennur hópur ræður í raun hvaða raddir fá að heyrast í samfélaginu. En í dómaframkvæmd kemur berlega í ljós mismunandi afstaða til hlutverks stjórnvalda í réttarríki og athafnaskyldu þeirra þegar eignarhald virðist fremur orðin spurning um samfélagslegt vald en eignarrétt og hvar draga eigi mörkin á milli einstaklingsréttinda og samfélagslegra hagsmuna.
Slík mál varpa skýrara ljósi en margt á togstreituna milli markaðssjónarmiða og réttarríkis. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sumarið 2002 í máli nokkurra verkalýðsfélaga gegn Bretlandi var það talið brot á félagafrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans að bresk lög heimiluðu atvinnurekendum að sniðganga verkalýðsfélög með því að bjóða starfsmönnum sérsamninga og hærri laun ef þeir tækju ekki þátt í almennum kjarasamningum og þannig væri réttur starfsmanna til að vera í stéttarfélögum, til verndar hagsmunum sínum, ekki tryggður. Gaukur heitinn Jörundsson dómari var sammála niðurstöðu dómenda en skilaði séráliti til að hnykkja á mikilvægi þess að stjórnvöld tryggðu það að vinnuveitendur gætu ekki í skjóli laganna notað fjárhagslegar tálbeitur á starfsmenn til að þeir afsöluðu sér mikilvægum réttindum. Með því móti væri ríkið að bregðast þeirri skyldu sinni að tryggja rétt manna til að ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.
(Höfundur er prófessor við lagadeild Viðskiptaháskólans á Bifröst.)