Sumir segja að Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi sé snobbuð og þess vegna eigi hún ekkert erindi á Bessastaði. Ef spurt er nánar út í hvernig meint snobb Herdísar lýsi sér, verður samt fátt um svör.
Þetta virðist vera einhver tilfinning sem fólk fær sem séð hefur hana í sjónvarpi eða jafnvel aðeins á mynd og aldrei hitt hana í eigin persónu. –
Nú er kannski ekki auðvelt að skilgreina snobb í fljótu bragði en við getum öll verið því sammála að það felur í sér mismunun og óheilbrigt verðmætamat. – ´
Það skýtur því afar skökku við að manneskja sem sækist eftir forsetaembættinu á grundvelli þess að hún hyggist tala fyrir mannréttindum og lýðræði og er einkum kunn fyrir störf sín í þágu slíkra gilda, skuli af einhverjum vera talin endurspegla andstæðu þeirra.
Hvað sér þá fólk í fari Herdísar sem fær það til að halda að hún sé snobbuð. Einhverjir nefndu sem dæmi að hún klæddi sig bara í merkjavöru og talaði ekki við hvern sem er í samkvæmum og á mannafundum.
Herdís er vel menntuð og kann að koma fyrir sig orði. Hún er fræðimaður og á það til að grípa til hugtaka og orðfæra sem heyra til þeim fræðigreinum sem hún hefur numið. Hún er háttvís og hefur afar fágaða framkomu. Sem kennari og fyrirlesari hefur hún tileinkað sér fas sem virkar stundum ekki eins hversdagslegt og við flest erum vön.
Allt þetta kann að koma fólki fyrir sjónir sem snobb en er það alls ekki.
Þvert á móti vitna vinir hennar og kunningjar ætíð um hlýleika nærveru hennar, einlæga samúð hennar og alþýðleika þegar kemur að daglegu amstri.
Herdís er nú á ferð um landið þar sem hún gerir sér far um að hitta fólk og kynna áherslur sínar fyrir löndum sínum. – Ég hvet alla til að nýta sér þetta tækifæri til að kynnast Herdísi persónulega og sannfærst um, hvaða álit þeir kunna að hafa á málflutningi hennar, að snobbuð er hún ekki.