Í fyrsta sinn í sögu kaþólsku kirkjunnar er nýr páfi Ameríkani. Það tók kjörfundinn aðeins tvo daga að velja kardínálann Robert Prevost sem eftirmann Frans páfa. Prevost tekur upp nafnið Leó XIV (næstum eins og Lúðvík fjórtándi). Hann er fæddur í Chicago í september 1955. Faðir hans var kennari og móðirin vann á bókasafni. Hann á tvo bræður.

Prevost sem hefur starfað og búið undanfarin ár í Perú er virkur notandi samfélagsmiðla og hefur notað X (áður Twitter) frá 2011. Þar hefur hann póstað gagnrýni á harða afstöðu núverandi Bandaríkjaforseta gegn innflytjendum. Í febrúar sl. gagnrýndi hann varaforsetann, J.D. Vance en sá snerist til kaþólskrar trúar á fullorðinsárum. Sagði hann viðleitni varaforsetans, til að finna guðfræðilega réttlætingu fyrir stefnu stjórnvalda gagnvart innflytjendum, ranga – því Jesús leyfir ekki að við forgangsröðum kærleika okkar til fólks.

Í Bandaríkjunum eru um 52 milljónir kaþólikka eða um 20 prósent þjóðarinnar. Sá hópur mun örugglega verða bakland fyrir páfann og veita forsetanum aðhald ef afstaða hans verður á skjön við kristilegan kærleiksboðskap Leós XIV.