Stórblaðið New York Times segir frá því að tyrknesk stjórnvöld hafi samþykkti umdeilt ný hegningarlagaákvæði þar sem dreifing ,,falsfrétta” geti varðað allt að þriggja ára fangelsi og helmingi lengri tíma sé miðlunin nafnlaus. Blaðið vísar í álit Feneyjanefndar sem Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir er einn þriggja höfunda að. Nefndin varaði við setningu þessa lagaákvæðis sem stenst ekki tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Skilgreining á hugtökum er bæði ruglingsleg og óljós. Stjórnvöld gætu metið greinar og pósta um spillingu eða fátækt falsfréttir. Það ber enga brýna nauðsyn til í lýðræðislegu samfélagi að gera dreifingu upplýsinga sem gætu verið dregnar í efa – refsiverðar. Feneyjanefnd bendir á að vægari úrræði eru til staðar til að stemma við miðlun efnis sem getur varðað þjóðaröryggi, almenna velferð o.s.frv. Álitið vísar á bug réttlætingu tyrkneskra stjórnvalda fyrir þessum lögum en þau vísa í lög í Þýskalandi varðandi framkvæmd laga á samfélagsmiðlum, frönsk lög um hagræðingu staðreynda í meðferð upplýsinga á netinu, bresk lög um öryggi á netinu og lög um stafræna þjónustu á vettvangi Evrópusambandsins. Engin þessara laga gera dreifingu falsfrétta refsiverða. Að auki bendir nefndin á að hugtakið “falsfréttir” fellur ekki undir ólöglegt efni í lögum Evrópusambandsins. Samanburður tyrkneskra stjórnvalda  á sér ekki stoð í þessum lögum. Þá er það áhyggjuefni að lögin eru sett í aðdraganda þing- og forsetakosninga í Tyrklandi sumarið 2023 en Feneyjanefnd bendir á fælingarmátt laganna og að sjálfs-ritskoðun muni aukast að mun en hert hefur verið stöðugt að tjáningarfrelsi í landinu undanfarin ár. Opin, kröftug, pólitísk umræða gegnir lykilhlutverki í lýðræðisríkjum og nýtur sérstakrar verndar undir 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu.