páfinn unjust economic structuresÞegar núverandi páfi tók við embætti vorið 2013 líkti hann kaþólsku kirkjunni við sjúkrahús á vígvelli. Fyrirrennari hans, hinn þýski Benedikt XVI var fyrsti páfinn í sex aldir sem sagði af sér. Hann orkaði ekki að berjast áfram gegn spillingu, yfirhylmingu og kynferðisglæpum sem höfðu brennimerkt kaþólsku kirkjuna.

“Holdsveiki páfadómsins”

Þá kom þessi maður; fyrsti páfinn sem kemur frá Suður-Ameríku og er úr reglu Jesúíta, með próf í efnafræði, heimspeki og guðfræði og vann sem ungur maður sem dyravörður í næturklúbbi; hann tók sér nafnið Frans og sendi þar með þau skilaboð til umheimsins að hann væri að taka Frans frá Assisi sér til fyrirmyndar. Hann vildi hvorki gullhring né rauða páfaskó, var vanur að ferðast í strætó og vildi opna kirkjuna fyrir þeim hrjáðu og smáðu.

Frans frá Assisi sem uppi var á árunum 1181-1226 er verndardýrlingur dýranna og sá dýrlingur innan kaþólsku kirkjunnar sem þykir hafa komist næst Jesú Kristi í líferni sínu; vegna samsömunar og samúðar með þeim fátæku og útskúfuðu, en hann er einhver dáðasta persóna í allri trúarsögunni.

Þau vandamál sem blöstu við á tíma Frans frá Assisi eru enn við lýði: stríð, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil á milli þeirra sem búa við allsnægtir og hinna sem búa við örbirgð. Frans frá Assisi, sonur auðugs silkikaupmans, fékk vitrun rúmlega tvítugur og helgaði líf sitt hinum fátæku. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga. Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum. Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum. Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega. Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið upplifði hann spillinguna, græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að finnast slíkt ríkidæmi vera í andstöðu við kristnina.

Páfinn sagðist fá kraft og hugljómun frá Frans frá Assisi enda ætti boðskapur hans erindi í nútímanum. Sagt er að Frans frá Assisi hafi orðið fyrir vitrun árið 1204 þá rúmlega tvítugur. Kristur á að hafa birst honum og sagt: Frans, Frans farðu og gerðu við hús mitt sem þú sérð að er að hruni komið – alveg eins og kaþólska kirkjan sem þessi nýi páfi var að taka við. Hann sá Vatíkanið sem sjálf-miðað og laust úr tengslum við umheiminn og öll hans stóru vandamál. Hann talaði um “holdsveiki páfadómsins”.

Þegar hann var settur inn í embætti bað hann fólkið að biðja fyrir sér. Vandamálin voru risavaxin, gegnumspillt kirkja sem var orðin veraldleg og volg í afstöðunni. Á einu og hálfu ári hefur þessum páfa tekist að vekja athygli út um allan heim fyrir að þora að tala um stórfelld pólitísk og efnahagsleg vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Rödd hans hljómar um heimsbyggðina og veitir innblástur stjórnmálamönnum og forystumönnum alþjóðastofnana sem hafa verið smeykir við að tjá sig um nákvæmlega þessi sömu vandamál.

Með því að gera þennan páfa að umtalsefni hér í íslensku þjóðkirkjunni á aðventunni er ég ekki að taka undir sjónarmið kaþólskunnar heldur að vekja athygli á tvennu; að það þarf að opna kirkjuna fyrir nákvæmlega þessari umræðu og að kirkjan á ekki að vera hrædd við að vera slíkur vettvangur. Hún á að vera skjól þeim röddum sem eru annars þaggaðar.

 

Gagnrýni á þjóðkirkjuna

Einn þekktasti, núlifandi rithöfundur Íslendinga sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrsta sunnudaginn í aðventu að kirkjan höfðaði ekki til almennings af því að þar væru engar lífrænar hugmyndir. Guðbergur Bergsson sagði að það væri ekki nóg að kalla inn konur í prestastétt ef þær fengju bara fólk til að koma í kirkju til að syngja við kertaljós. Það sem felst í þessum orðum er að ef að kirkjan á að gegna veigamiklu hlutverki í samfélaginu, ef hún á að vera vegurinn, sannleikurinn og lífið þá þarf hún að vera vörn hinum kúgaða og vígi á neyðartímum, eins og segir í Biblíunni.

 Eru slíkir tímar?  Spyrjið páfann í Róm. Hann er 77 ára, með eitt lunga og hikar ekki við að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Hann er kominn með viðurnefnið Páfi fólksins langt út fyrir raðir kaþólikka vegna þess að hann tekur á raunverulegum vandamálum samtímans. Hann felur sig ekki á bak við fíkjublöð einstakra vinsælla málaflokka. Hann skreytir sig ekki með slagorðum sem þegar eru viðtekin. Hann bendir á ógnirnar sem öllum samfélögum stafa af vaxandi ójöfnuði, ítökum fjármálaafla og yfirþjóðlegra stórfyrirtækja, sem er löngu vaxin flestum þjóðríkjum yfir höfuð.

 Kirkjan getur ekki staðið þegjandi álengdar ef mannréttindi eru fyrir borð borin, ef sannleikurinn er traðkaður í svaðið og óréttið fær að grassera óáreitt. Fór ekki Jesú inn í musterið og rak út peningamennina.

í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar var lúterstrúarpresturinn Martin Niemüller öflugur í andstöðu sinni við Hitler og uppgang nasismans. Hann var handtekinn og var í fanga- og þrælkunarbúðum í sjö ár. Niemüller sagði þýsku mótmælendakirkjuna hafa átt þátt í uppgangi nasmismans og verið samseka í ofsóknum og fjöldamorðum með því að standa hjá aðgerðarlaus . . .  Hann sagði þessi fleygu orð sem síðan er oft vitnað í til að undirstrika mikilvægi þess að þegja ekki yfir óréttlæti.

  • Fyrst handtóku þeir sósíalista; ég var ekki sósíalisti og mótmælti því ekki.
  • Næst réðust þeir að verkalýðshreyfingunni; ég tilheyrði henni ekki og gerði því ekkert.
  • Þá réðust þeir gegn Gyðingunum; ég aðhafðist ekki af því að ég var ekki Gyðingur.
  • Síðan komu þeir og tóku mig; þá var enginn eftir til að koma mér til hjálpar.

 

 Þöggun

Eins og sagan af Martin Niemüller sýnir þá þarf mikið hugrekki til að fara gegn ríkjandi öflum. Aðhald er öllum valdhöfum nauðsynlegt.  Leiðarljós okkar stjórnskipunar eru lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Undirstaða allra annarra mannréttinda er tjáningarfrelsið, rétturinn til að segja skoðun sína.

Í aldanna rás hafa stjórnmálaheimspekingar varað við því að því meira sem valdið er því meiri er hættan á valdníðslu. Og ef enginn fer gegn valdníðslunni þá heldur hún óhindruð áfram. Þögnin er nánasti vinur alræðisins, harðstjórnarinnar og kúgunarinnar. Sá sem fer með mikið vald vill eðli máls samkvæmt útiloka andóf. Það breytir engu hvaða merkimiða pólitískir valdhafar skreyta sig með. Í  kommúnismanum var allt andóf barið niður og eftir hrun hans, þar sem nýtt alræði byggir á samþættingu hins pólitíska valds og fjármálaafla, hafa stjórnvöld á þessum sömu slóðum vakið athygli heimsbyggðar með framgöngu sinni gagnvart gagnrýnisröddum.

Fjölmiðlar sem eiga að vera varðhundar almennings eru víðast hvar undir sömu sök seldir.  Þeir eru í eigu fjársterkra aðila sem hafa tögl og hagldir – og sterk ítök í stjórnmálum. Út um allt kerfið og í flestum ríkjum heims eru menn og konur að ritskoða sig. Það að vera opinskátt gagnrýninn kallar á að vera settur út á jaðarinn,  a.m.k. úr kerfi valdhafanna sem gjarnan réttlæta skoðanakúgun með því að ákveðnar skoðanir séu ógn við þjóðarhagsmuni.

Fólk þarf ekki að verða mjög fullorðið til að átta sig á því að beina brautin er mun þægilegri en vegurinn sem Jesú talaði um. Þegar Jesú sagði “ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið”  áttuðu lærisveinarnir sig ekki á því hvaða veg hann var að tala um. Símon Pétur spurði hann hvert hann væri að fara af því að hann vildi fylgja honum og leggja líf sitt í sölurnar fyrir hann. Jesús svaraði: Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig. Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar.

Pétur var mannlegur. Hann var hræddur. Eftir að Jesú var handtekinn flýðu allir lærisveinarnir (Markús 14:50) en Pétur fylgdi honum álengdar. Hann horfði upp á mennina hrækja á Jesú og slá hann eftir að hafa dæmt hann sekan. Pétur óttaðist um líf sitt; hann var ekki tilbúinn á þessari stundu að verða fyrir sömu ofsóknum og Jesú. En Jesús hafði áður aðvarað lærisveina sína að menn yrðu framseldir og teknir af lífi vegna hans nafns og þeir myndu framselja hver annan og hata. Þetta er saga mannkyns, óttinn verður oft sannleikanum yfirsterkari. Oftast þurfa valdhafar ekki að þagga niður í fólki, það sér um það sjálft. Að standa einn, hæddur, spottaður, ofsóttur er flestum um megn eins og Pétri forðum. Það er einn skiljanlegasti þáttur mannlegs eðlis að vera varkár andspænis ógn. Þetta vissi Jesú og hann bað fyrir Pétri; að trú hans myndi ekki þrjóta og að hann myndi styrkja aðra þegar hann væri snúinn við. Veikleiki Símons Péturs Jónassonar og mistök voru einn þáttur í því að styrkja hann. Jesú sagði við hann: Þú ert Pétur, kletturinn og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. (Mattheus 16:17).

 

Kirkjan sem klettur sameini rödd sína þeirra sem enga hafa

Við notum orðið klettur um einhvern sem aldrei bregst. Það eru ekki freskurnar í loftinu, gullið og hinn mikilfenglegi arkitektúr sem gerir kirkju að kletti – það er hlutverkið sem hún gegnir eða á að gegna . . .  að þjóna sannleikanum; vera farvegur fyrir réttlæti og raddir þeirra sem minna mega sín.

Hér er ekki verið að gera lítið úr starfi kirkjunnar. Hins vegar er hægt að sjá fyrir sér hvernig kirkjan á víðsjárverðum tímum þar sem viðurkennt er að trúnaðarbrestur hefur orðið milli almennings annars vegar og kjörinna stjórnvalda, fjölmiðla og háskólasamfélags hins vegar, gæti  gengið í endurnýjun lífdaga. Þá er ekki átt við að markaðssetja eigi kirkjunam heldur að kirkjan nái sér á strik eins og Pétur eftir að hann afneitaði Jesú og verði öðrum styrkur – raunverulegur klettur fyrir trú, von og kærleika.

Íslenska þjóðkirkjan hefur haldið sig fyrir utan pólitísk deilumál . En  það vaknar sú spurning hvort kirkjan þurfi ekki að endurskoða þá afstöðu og þá bendi ég aftur á hvað páfinn er að gera til að ganga veginn nær Jesú Kristi, veginn í átt að sannleikanum og lífinu.

Áður en fundur G20 ríkjanna hófst í nóvember s.l. bað páfinn leiðtoga 20 stærstu hagkerfa heims um að gleyma ekki öllum þeim mannslífum sem pólitískar og tæknilegar ákvarðanir bitna á. Og hann talar ekki um fátækt eins og einhvern fjarlægjan ósóma heldur brýnir hann fyrir umheiminum að það þurfi að breyta innviðum samfélaganna til að draga úr fátæktinni og ójöfnuðinum. Hann bendir á flennifyrirsagnir fjölmiðla þegar hlutabréf lækka í verði en í flestum ríkjum Evrópu – og hvað þá annars staðar – deyr fólk á götum úti úr kulda, vosbúð og hungri án þess að það þyki fréttnæmt. Milljónir ungra kvenna, manna, stúlkna og drengja eru seld mansali í kynlífsþrælkun og þeir ríku hafa aldrei verið ríkari en þeir eru í dag á meðan eymd hinna fátæku vex.  Börnin í dag eiga ekki sömu tækifæri og við höfðum. Er það ekki hlutverk þjóðkirkjunnar okkar að opna umræðuna, gefa röddum byr sem fá ekki hljómgrunn út í þjóðfélaginu. Ef kirkjan kallar eftir þátttöku almennings í þessari umræðu gæti hún verið í betri aðstöðu til þess en nokkur önnur stofnun í samfélaginu.

Aftur vík ég að páfanum sem hefur gert þröngsýni lagahyggjunnar að umræðuefni. Jesú spurði faríseana hvort það væri leyfilegt að lækna veikan mann á hvíldardegi. Það var fátt um svör. “Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea þá komist þér aldrei í himnaríki”, sagði Jesú.

Ég vona að kirkjan hiki ekki heldur stígi fram og umvefji það samfélag sem hún vill þjóna, sameini sína rödd þeirra sem enga hafa. Kærleikur og réttlæti eiga að ráða för en ekki bókstafur og blind lagahyggja.

 

(Ræða Herdísar Þorgeirsdóttur í Áskirkju, annan sunnudag í aðventu, 7. desember 2014)