Boðskapur Frans frá Assisi á erindi við nútímann. Hann beindi sjónum að þeim fátæku og kallaði eftir félagslegu réttlæti. Þau vandamál sem við blöstu á hans tíma eru enn við lýði: styrjaldir, fátækt, spilling valdastétta, félagsleg útskúfun og aukið bil milli allsnægta og örbirgðar.
Frans frá Assisi tilheyrði þeim fátækustu. Hann vann sem daglaunamaður. Hann bað engan um fé og lét aldrei söfnunarbauk ganga.
Boðskapur hans var einfaldur: Græðgi veldur þjáningu bæði hjá fórnarlömbum sem sökudólgum.
Sinnuleysi þeirra sem stöðugt sanka að sér kemur í bakið á þeim sjálfum.
Græðgi er tortímandi afl; siðferðilega, félagslega og andlega.
Frans frá Assisi leit ekki upp til valdamanna. Hann fór fótgangandi til Rómar. Þegar hann kom í Vatíkanið og upplifði spillinguna þar með eigin augum var hann hávær í gagnrýni sinni á græðgina, auðsöfnunina, valdafíknina og innantóma tilvist. Páfinn, Innocensíus III., varð hneykslaður á því hvernig þetta fátæka, auma mannkerti leyfði sér að segja að kirkjan væri í andstöðu við kristnina.
Það eru ýmsir tortryggnir í garð núverandi páfa sem hefur tekið Frans frá Assisi sér til fyririrmyndar og segja hann lýðskrumara. Enginn forvera hans á páfastóli hefur þorað að taka upp nafnið Frans. Páfinn veit að með því að taka upp nafn Frans frá Assisi, sem var félagslegt “drop-out” á 13. öld, er hann að kalla eftir pólitískum áherslum á aukið réttlæti. Frans frá Assisi var sonur auðugs silkikaupmanns sem lifði í vellystingum praktuglega uns hann venti sínu kvæði í kross, 24 ára gamall, yfirgaf fjölskyldu, auð og frama.
Páfinn í Róm hefur hent á haugana sérsmíðuðu rauðu páfaskónum, gylltu skikkjunum og bróderaða fatnaðinum. Hann er að reyna að vekja athygli á því sem skiptir máli.
Datt þetta í hug nú í innantómu fjargviðri í aðdraganda kosninga. Það er óneitanlega svolítið skondið þegar Páfinn í Róm er orðinn eftirtektarverðari fyrir skoðanir en flestir frambjóðendur og fylgismenn þeirra.