6. október 2012
Í Fréttablaðinu í dag er viðtal Bergsteins Sigurðssonar við ástralska rithöfundinn, Önnu Funder, höfund bókarinnar Stasiland. Í bókinni segir hún sögu fjögurra andófsmanna í Austur-Þýskalandi og fjallar um hugrakka uppljóstrara og starfsmenn austur-þýsku öryggislögreglunnar, Stasi. Í viðtalinu segir Anna Funder að hún hafi mikinn áhuga á hugrekki og að skoða hvers konar kjark þurfi til þess að neita að starfa með ógnarstjórn, vitandi að maður verði látinn gjalda þess á einn eða annan hátt.
“Í upphafi drap Stasi fólk óhikað en þegar á leið dró úr því og við tóku aðferðir sem miðuðu að því að taka fólk á taugum, til dæmis áreitni og hagnýting illa fenginna upplýsingar um hagi þess“.
Í fyrradag lést samstarfsfélagi, Vojin Dimitrijevic, serbneskur prófessor, dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag, forstöðumaður Mannréttindastofnunarinnar í Belgrad, mikilsvirtur fræðimaður á alþjóðavettangi og baráttumaður gegn hvers konar spillingu, alræðistilburðum og mannréttindabrotum; heiðraður af frönskum stjórnvöldum og prófessor við háskóla beggja meginn Atlantsála. Hann var áttræður þegar hann lést og hafði mikla reynslu af spilltum stjórnvöldum og skoðanakúgun. Hann hafði verið skipaður prófessor við lagadeild háskólans í Belgrad en var vikið úr starfi vegna andúðar sinnar og gagnrýni á stjórnarhætti hins forherta, þáverandi forseta landsins, Slobodan Milosevic. Prófessor Dimitrijevic hafði hugrekki til þess að fara gegn straumnum.
Miloslevic var mannréttindaníðingur og hafði lítið dálæti á pólitískum réttindum eins og tjáningarfrelsi og auðvitað var borgaralegt hugrekki manna eins og prófessors Diemitrijevic, sem hafði engan áhuga á að vera kjölturakki spilltra stjórnmálamanna – eitur í beinum Slobodans Milosevic. Enda galt Vojin Dimitrijevic fyrir með stöðu sinni við háskólann í Belgrad þar sem prófessorar eru skipaðir til æviloka. En hann átti eftir að ná frama sem fræðimaður á alþjóðavettvangi og komst í þá stöðu að vera skipaður dómari við stríðsglæpadómstólinn í Haag – þangað sem Slobodan Milosevic var dreginn síðar (en hann dó í fangaklefa í Haag 2006). Meðan Sloba, eins og gælunafn hans var, var forseti Serbíu og síðar Júgóslavíu, voru ítök stjórnvalda í fjölmiðlum álitin ein kjölfesta valdsins – að vanda – og þannig var umræðunni í samfélaginu stjórnað. Blaðamenn og fleiri voru sóttir til saka fyrir að gagnrýna stjórnvöld – en þegar óttinn er orðinn víðtækur þarf ekki ekki sinni að ákæra fólk. Sjálfs-ritskoðunin tekur völdin og fólk þegir – nema þessir fáu hugrökku sem eru tilbúnir að færa persónulegar fórnir. Enginn skyldi halda að þessi lýsing eigi bara við Serbíu – eða að hún eigi bara við síðasta áratug síðustu aldar.
Serbía varð 45 aðildarríki að Evrópuráðinu 2003 og hefur því undirgengist þær skuldbindingar sem Mannréttindasáttmáli Evrópu leggur á ríki að standa vörð um tjáningarfrelsi; og ekki eingöngu það heldur ber stjórnvöldum skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að þetta grundvallarfrelsi í lýðræðisríkjum sé virkt. Í dómaframkvæmd og túlkun á 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu er vernd tjáningarfrelsis meðal annars fólgin í því að vernda uppljóstrara; stuðla að öflugri pólitískri umræðu, sjálfstæðu, óháðu ríkisútvarpi, fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og umfram allt óttaleysi blaðamanna, bloggara og almennings í að tjá sig.
Árið 1927 skrifaði Louis Brandeis dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna rökstuðning fyrir niðurstöðu í dómi í máli Whitney gegn Kalíforníu – þar sem hann sagði m.a. að þátttaka í opinberri umræðu væri pólitísk skylda og að þeir sem hefðu lagt grunninn að bandarískri stjórnskipun hefðu gert sér grein fyrir því að stofnanir samfélagsins væru ekki öruggar andspænis kúgunartilburðum —- (t.d. skoðanakúgun í stjórnsýslu, í háskólum o.s.frv.) – en óttinn elur af sér kúgun; kúgun leiðir til haturs og hatur er ógn við stöðugleika stjórnkerfa – leiðin til farsældar er fólgin í opinskárri umræðu, í heilbrigðri gagnrýni.
Á öðrum stað sagði þessi merki hæstaréttardómari: – hugrekki er forsenda frelsis. Enn fremur sagði hann:
Við getum búið við lýðræði, eða að við búum við það að auðurinn er í höndum örfárra – en við getum ekki búið við hvort tveggja.
(We may have democracy, or we may have wealth concentrated in the hands of a few, but we can’t have both.)
Þannig hugsaði dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrir næstum einni öld.
Þeir sem eru hugrakkir í dag geta endurtekið: Við getum búið við lýðræði eða auðræði en við getum ekki búið við hvort tveggja.
Verum hugrökk!