Axel Jóhann Axelsson skrifar: Herdís Þorgeirsdóttir verður sífellt álitlegra forsetaefni, því nær sem dregur kosningum, enda loksins farið að gefa henni gaum í fjölmiðlum og þar með hefur henni gefist kostur á að sýna hvað hún hefur fram að færa, án þess að hengja sjálfa sig á ævilangan skuldaklafa vegna auglýsinga og annars kostnaðar sem kosningamaskínur stjórnmálaflokka virðast greiða fyrir einstaka frambjóðanda.
Herdís virðist vera hrein og bein, kemur vel fyrir og er vel menntuð og með mikla og góða starfsreynslu, innanlands og utan og ekki annað að sjá en að hún hafi allt til að bera til að geta orðið góður forseti til næstu tólf til sextán ára.
Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hefur verið á fremur rólegum nótum fram að þessu, en hefur þó verið að harðna síðustu dagana og mun sjálfsagt verða þeim mun óvægnari eftir því sem nær dregur kjördegi og línur fara að skýrast milli frambjóðenda, en vafalaust á fylgi Herdísar eftir að vaxa mikið á þeim tveim vikum sem eftir lifa fram að kosningunum.
Persónulegt skítkast er farið að vera talsvert áberandi og virðist helst mega rekja til herbúða Þóru Arnórsdóttur og verður að láta þá von í ljósi að slíku linni og baráttan síðustu dagana verði málefnaleg og heiðarleg.
Því verður ekki trúað að persónulegt skítkast verði nokkrum frambjóðanda til framdráttar og hvað þá að nokkur kjósandi byggi afstöðu sína á slíkum óþverra.