Dr. Herdís Þorgeirsdóttir er lögmaður í Reykjavík. Hún hefur margþætta reynslu bæði hér heima og af störfum sínum á alþjóðavettvangi. Hún var skipuð prófessor við lagadeild háskólans á Bifröst 2004.
Hún hefur kennt við háskóla erlendis og er höfundur bóka og greina, sem hafa birst alþjóðlega. Hún hefur mikla reynslu úr atvinnulífinu; rak eigið útgáfufyrirtæki í tæpan áratug og var frumkvöðull á sviði tímaritaútgáfu. Þá hefur hún víðtæka reynslu af alþjóðlegu samstarfi sem forseti Evrópusamtaka kvenlögfræðinga, mannréttindalögfræðingur fyrir Evrópuráðið og fyrirlesari víða um heim. Árið 2012 var hún skipuð í stjórn evrópsku lagaakademíunnar í Trier. Hún átti hugmyndina og skipulagði hinar árlegu tengslanets-ráðstefnur sem voru fjölsóttustu ráðstefnur sem haldnar voru hér á landi um árabil. Herdís er með doktorspróf frá lagadeild háskólans í Lundi, með M.A.L.D prófi í þjóðarétti og alþjóðastjórnmálum frá Fletcher School of Law and Diplomacy í Boston, með próf í lögfræði og stjórnmálafræði og réttindi til að starfa sem héraðsdómslögmaður.