Screen Shot 2017-01-14 at 15.01.27

 

KONUR lifa og starfa í auknum mæli í heimi stórfyrirtækja, sem breytir þeim en þær hafa sjálfar engin áhrif á. Þetta segir kvenréttindakonan heimsþekkta, Germaine Greer, en hún kom hingað til lands í gær. Hún segir að spyrja þurfi konur hvort þær séu sáttar við að laga sig að þessum heimi. Þar ríki hörð samkeppni og samruni fyrirtækja sé daglegt brauð. Raunar tapi karlar líka á þessu fyrirkomulagi. Greer, sem er áströlsk, verður að- alfyrirlesari á ráðstefnunni Tengslanet – Völd til kvenna, sem haldin verður á Bifröst á fimmtudag og föstudag og dr. Herdís Þorgeirsdóttir skipuleggur. Meginþemað á ráðstefnunni í ár er staðalímynd kvenna, kynbundinn frami, fyrirtækjamenning og samskipti kvenna. Greer er ein af þekktari baráttukonum kvenfrelsishreyfingarinnar á 20. öld, en frægasta bók hennar, The Female Eunuch, sem út kom 1969, hafði mikil áhrif á kvenfrelsishreyfinguna upp úr 1970. „Staðan er svipuð á Englandi og hún er hérna á Íslandi,“ segir Greer. „Þar eru margar einstæðar mæður, sem eiga í miklu sálarstríði, því þær hafa áhyggjur af því að standa sig ekki í vinnunni og einnig af því að þær hugsi ekki nægilega vel um börnin sín. Hins vegar eru þær of útkeyrðar til þess að hafa tíma til þess að takast á við uppeldi barnanna. Þær hafa fleygt eiginmanninum á dyr, því hann tók of mikla orku. Og þær eru líka einmana,“ segir Greer. Hún segir baráttukonur fyrir auknum réttindum kvenna ekki hafa ætlast til þess að þróunin yrði þessi. Spurð um hvort konur séu langt frá því að hafa náð þeim markmiðum sem kvenréttindasinnar 20. aldarinnar settu sér, segir Greer, að það fari eftir því hvernig þessi markmið séu skilgreind. „Ef markmiðið var að konur kæmust í stjórnir fjölþjóðlegra stórfyrirtækja, hafa nokkrar konur náð því marki,“ segir Greer. „Þetta var hins vegar aldrei það sem ég barðist fyrir,“ bætir hún við. „Við vildum að konur fengju tækifæri til þess að auðga líf sitt,“ segir hún.