Breskur lögfræðingur mun aðstoða við málflutning Íslands hjá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu sem verður tekið fyrir þann 5. febrúar.  Ríkisútvarpið greinir frá. Timothy  Otty er  fulltrúi í Feneyjanefndinni, nefnd Evrópuráðsins um lýðræði  með lögum.

,,Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður staðfesti í samtali við fréttastofu að breskur lögmaður muni aðstoða við málflutninginn, en vildi annars ekkert tjá sig um málið. Heimildir fréttastofu innan úr dómsmálaráðuneytinu staðfesta það einnig. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að um væri að ræða lögfræðinginn Timothy Otty frá bresku lögmannsstofunni Blackstone Chambers.

Mannréttindadómstóllinn dæmdi gegn íslenska ríkinu í mars. Málið snerist um það hvort löglega hefði verið staðið að skipun dómara við Landsrétt þegar Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, vék frá niðurstöðum matsnefndar sem mat hæfi umsækjenda um dómarastöðurnar. Sigríður Andersen sagði af sér embætti eftir að dómur Mannréttindadómstólsins var kveðinn upp.

Í apríl var ákveðið að áfrýja dómnum til yfirdeildar MDE eftir samráð við ríkislögmann og Thomas Horn, norskan sérfræðing í mannréttindum og réttarfari. Yfirdeild MDE ákvað í september að taka málið upp og þurftu málsaðilar að skila inn greinargerð fyrir 11. nóvember.

Í frétt Fréttablaðsins kemur einnig fram að dómstóllinn hafi fyrir jól farið fram á ítarlegri upplýsingar sem óskað er eftir að verði svarað við málflutninginn þann 5. febrúar.”