Forseti hæstaréttar Bandaríkjanna, John G. Roberts, sló skjaldborg um sjálfstæði dómstóla nú í vikunni á opnum fundi í New York. Þar lýsti hann vanþóknun á tilraunum stjórnvalda að kæra dómara fyrir valdníðslu. Það er ekki í lagi að stjórnvöld sem eru ósammála niðurstöðu dómstóla ráðist að dómurum með þessum hætti sagði Roberts í óvenju opinskáu samtali á fundinum. Hann hafði áður í skriflegri yfirlýsingu í mars sl. svarað hótunum Donald Trumps forseta um að kæra alríkisdómara vegna úrskurða sem fara gegn stefnu stjórnvalda. Roberts dómari nefndi ekki forsetann á nafn á fundinum en yfirlýsingar hans vöktu verulega athygli þar sem óvenjulegt er að dómarar tjái sig um stjórnmál með þessum hætti.

Aðrir dómarar hafa tjáð sig undanfarið um ,,aðför“ stjórnvalda gegn dómurum sem vegi að grunnstoðum stjórnskipunar og bandarísku stjórnarskrárinnar. Það er verið að hegna dómurum fyrir að sinna starfi sínu, sagði dómarinn Ketanji Brown Jackson á opnum fundi nýlega. Dómarar óttast ofbeldi og það sé vegið að starfsheiðri þeirra.

Roberts dómari ítrekaði á fundinum í New York í vikunni mikilvægi sjálfstæði dómstóla þegar þeir úrskurðuðu um valdmörk þings eða framkvæmdavalds.

Um miðjan mars sl. kallaði Trump forseti eftir úrsögn alríkisdómara úr embætti sem hafði tímabundið stöðvað brottvísun farandverkamanna frá Venesúela til El Salvardor, hann kallaði dómarann ,,róttækan vinstri brjálæðing“. Það var í kjölfar þess sem Roberts forseti hæstaréttar sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að fyrir því væri meira en tveggja alda hefð í bandarísku réttarríki að vega ekki að dómurum vegna ágreinings um niðurstöðu í dómsmáldi – heldur ætti aðð styðjast við hefðbundnar áfrýjunarleiðir.

Á fyrra kjörtímabili sínu uppnefndi Trump dómara sem hafði dæmt gegn stefnu stjórnvalda í hælisleitandamálum og kallaði hann ,,Obamadómara”.  Forseti Hæstaréttar BNA ítrekaðií vikunni að það væru engir Obama-dómarar, Clinton-dómarar eða Trump-dómarar. Við erum með dómstóla skipaða dómurum  sem helga sig lögmálum réttarríkis og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sýna þeim sem standa frammi fyrir dómstólum að þeir eru allir jafnir fyrir lögum.