Forseti Bandaríkjanna er ekki bara þjóðhöfðingi og æðsti maður framkvæmdavaldsins heldur einnig yfirmaður alls heraflans, sem er sá stærsti í veröldinni. Kosningar í embætti forseta Bandaríkjanna skipta umheiminn því miklu máli.
Sú sérkennilega staða er komin upp í bandarísku forsetakosningunum að tveir utangarðsmenn eru að skjóta hefðbundum pólitíkusum ref fyrir rass með andstöðu við ítök fjármálaafla í stjórnkerfi og samfélagi og andúð á pólitískri spillingu. Nýlegar skoðanakannanir sýna að 69% almennings í Bandaríkjunum er uppsiga við það hvernig stjórnkerfið virðist sniðið að þörfum þeirra sem njóta fyrirgreiðslu þess vegna auðs og valda, bæði á Wall Street og Washington D.C. Bernie Sanders, sem keppir eftir útnefningu Demókrata lofar ungu fólki framtíð sem það getur trúað á – en vonleysi ríkir meðal þeirrar kynslóðar sem eygir ekki sömu tækifæri í lífinu og fyrri kynslóðir. Donald Trump sem fer fram í krafti eigin auðæfa í flokki repúblikana lofar nýjum atvinnutækifærum og að losa landið undan spillingarítökum kerfisafla í bandalagi við risafyrirtæki.
Stóra málið í baráttunni um forsetaembættið í Bandaríkjunum nú eru peningar í pólítík; stórfyrirtæki hafa náð töglum og högldum á hinu pólitíska sviði og í gegnum fjölmiðla. Í dag ráða sex stórfyrirtæki um 90% af bandarískum fjölmiðlamarkaði. Af 100 stærstu hagkerfum heims eru 51 stórfyrirtæki, 49 þjóðríki. Um 200 risafyrirtæki stjórna nú um fjórðungi af efnahagslífi heimsins. Frumkvöðlarnir að stjórnskipun Bandaríkjanna guldu varhug við valdamiklum bönkum og fyrirtækjum. Abraham Lincoln forseti Bandaríkjanna frá 1861 – 1865 sagði um fjármálastofnanir að þær væru með meiri einræðistilburði en konungsveldi, væru harðsvíraðri en verstu einræðisherrar og sjálfselskari heldur en öll önnur bákn; þær fordæmdu þá sem leyfðu sér að gagnrýna aðferðir þeirra og sýna svik þeirra í réttu ljósi.
Hinn umdeildi dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Citizens United árið 2010 opnaði flóðgáttir fyrir fyrirtæki til að hafa áhrif á kosningakerfið með ótakmörkuðu fjármagni í gegnum risastórar pólitískar aðgerðanefndir (Super Pacs) sem að nafninu til áttu ekki að tilheyra einstökum frambjóðendum. Alger leynd hvílir yfir upphæðunum, hve háar þær eru og hvaðan þær koma. Engin lög gilda um hámarksframlög til ofurnefndanna og um gagnsæi í tengslum við framlögin. Í kosningunum 2012 stóðu 32 einstaklingar að baki sama fjármagni og söfnuðust frá tæpum 4 milljónum einstaklinga. Dómur þessi er almennt álitinn mikil ógn fyrir lýðræðið ef það er þá fyrir hendi. Aldrei fyrr hefur viðlíka samþjöppun valds og peninga átt sér stað.
Hillary Clinton, sem lengi var álitin óumdeildur fyrirliði demókrata í sókninni eftir útnefningu flokks síns hefur að baki sér svokallaðan Clinton-sjóð með himinháum framlögum frá stórfyrirtækjum. Auk þess hefur hún þegið risa fjárhæðir fyrir að flytja fyrirlestra frá þessum sömu aðilum. Aðspurð hvers vegna hún hefði þegið svona háar fjárhæðir svaraði hún einfaldlega “af því þeir buðu þær”. Eftir að Bernie Sanders náði hljómgrunni hjá almenningi í stríðinu við auðmagn í pólitík er eins og Clinton hafi áttað sig á því að hún gæti ekki látið hjá líða að taka afstöðu til þessarar ógnar sem lýðræðinu stafar af því að fjársterkir aðilar, nokkrir milljarðamæringar, eins og Sanders kallar þá ráði samfélaginu með þessum hætti. Af hverju fær hann hljómgrunn, ekki síst hjá ungu fólki? Það er vegna þess að almenn örvænting hefur gripið um sig. Börn og aldraðir eru mörg undir fátækramörkum (fimmta hvert barn) og í hópi fátækra barna sem nema milljónum býr um helmingur við sára neyð.
Bæði Bernie Sanders og Hillary Clinton lýst því yfir að það verði að snúa Citizens United dómnum til baka. Jeb Bush, frambjóðandi í röðum repúblíkna, hefur einnig lýst yfir andstöðu við áhrif Citizens United dómsins þótt hann hafi þegar þegið óhemju fjármagn í gegnum ofurnefndirnar. Segja má að Donald Trump, sem er sjálfur milljarðamæringur hafi náð forskoti strax í fyrstu kappræðum repúblíkana þar sem hann talaði gegn þeirri spillingu sem fylgir fjárframlögum í pólitík.
En er hægt að vinda ofan af auðræði risafyrirtækja?
Fyrir nokkrum vikum lýstu bæði Clinton og Sanders því yfir að næsti dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna sem tilnefndur yrði af annað hvort núverandi forseta eða þeim næsta (yrði sá úr þeirra röðum) myndi þurfa að ganga undir svokallað Litmus-próf (í efnafræðinni er litmus litarefni sem er rautt í sýru en blátt í basa). Litmus-próf fyrir dómaraefnin þýðir að afstaða þeirra til auðræðis í pólitík verði könnuð sem liður af hæfismati þeirra til að gegna stöðu í æðsta dómstól landsins.
Dauði Antonin Scalia hins íhaldsama dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna hinn 13. febrúar kemur eins og reiðarslag inn í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Scalia hefur verið fimmta atkvæðið í íhaldssömum meirihluta hæstaréttar frá því að hann var skipaður af Ronald Reagan 1986 þegar nýfrjálshyggjan fór með himinskautum. Nú myndast tóm og hætta á því að dómurinn verði klofinn í tvo jafna hluta í lykilmálum sem bíða úrskurðar; mál varðandi fóstureyðingar, jákvæða mismunun (affirmative action), loftslagsbreytingar, innflytjendur, rétt verkalýðsfélaga og Affordable Care Act (lög um heilsugæslu).
Repúblíkanar óttast að valdahlutföllum innan Hæstaréttar verði snúið við takist demókrötum að skipa dómara. Þeir vilja fá dómara sem setur sig upp á móti Affordable Care Act/ lögum Obama um heilsugæslu. Repúblíkanar eru í meirihluta í öldungardeild Bandaríkjaþing og leiðtogi þeirra Mitch McConnell lýsti því strax yfir eftir lát Scalia að enginn skyldi skipaður í hæstarétt fyrr en nýr forseti hefði tekið við.
Forseti Bandaríkjanna ber stjórnskipulega ábyrgð á því að tilnefna nýjan dómara við Hæstarétt. Það ber honum að gera í samráði og með samþykki öldungadeildarinnar. Öldungardeildarþingmenn geta vart hummað það verkefni fram af sér í 11 mánuði en Obama lætur ekki af embætti fyrr en í janúar 2017. Lengsti tími sem hefur liðið frá því að sæti losnaði í réttinum og þar til nýr dómari var skipaður eru 125 dagar. Haft er að orði að Obama sé nú “lame duck”, forseti á útleið sem eigi ekki að geta ráðstafað svona mikilvægu embætti á þessum tímapunkti. Anthony Kennedy sem var í forsæti í Citizens United dómnum 2010 var tilnefndur af Ronald Reagan 1987 og skipaður með samþykki þingsins 1988, á síðasta ári Reagans í embætti.
Ef meirihlutinn í öldungardeildinni stendur í vegi fyrir því að forsetinn framfylgi stjórnarskránni þá eru þeir að brjóta æðstu lög landsins sem þeir hafa svarið eið fylgja. Slíkt athæfi þótt pólitískt skiljanlegt sé af hálfu repúblíkana fer engu að síður gegn þeirri grundvallarafstöðu Antonin Scalia að virða réttarríkið og lagatextann í sinni einföldu og skýru mynd.
Líklegt er að demókratar muni nú sleppa því að láta dómaraefni taka “litmus-prófið” til að reyna að ná málamiðlun við meirihlutann í öldungadeildinni. Nafn mikils metins lögfræðings hefur verið nefnt í þessu sambandi, einn af mörgum. Sá er Sri Srinivasan en hann flutti málið um rétt samkynhneigðra til að ganga í hjónaband fyrir Hæstarétti á þeirri forsendu að hjúskaparlög í ákveðnum fylkjum stæðust ekki stjórnarskrána. Hann varði líka forstjóra Enron í miklu spillingarmáli. Hann er fremur hófsamur og þykir ekki líklegur til að vilja snúa við áhrifum Citizens United dómsins. Ef Sri verður skipaður þá yrði um málamiðlun að ræða þar sem repúblíkanar myndu sætta sig við aðeins meiri slagsíðu í frjálslyndari átt í málum samkynhneigðra og varðandi fóstureyðingar en ekki yrði hróflað við Citizens United og þeirri vá sem samfélaginu stafar af áframhaldandi auðræði í veldisvexti.