Mannréttindadómstóll Evrópu komst í dag að þeirri niðurstöðu að pólsk yfirvöld hefðu brotið á rétti unglingsstúlku. Hún hefði sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð þegar hún reyndi að fara í fóstureyðingu en hún varð þunguð eftir nauðgun. Hún var 14 ára þegar henni var nauðgað.
Dómur þessi var kveðinn upp í deild og er því ekki endanlegur. Taldi dómstóllinn að brotið hefði verið á rétti stúlkunnar til friðhelgi einkalífs síns og fjölskyldu þar sem hún hefði sætt þrýstingi og ofsóknum þegar hún reyndi að fara í fóstureyðingu og í annan stað vegna þess að gerðar hefðu verið opinberar persónulegar upplýsingar um hana. Enn fremur taldi dómstóllinn að brotið hefði verið á rétti hennar til frelsis og mannhelgi og hún hefði sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð.
Málavextir eru þeir að stúlkan (f. 1993) hafði orðið ófrísk í kjölfar nauðgunar og lenti í erfiðleikum þegar hún reyndi að komast í fóstureyðingu; ekki síst vegna óskýrs lagaramma og þess að læknar og hjúkrunarfólk frestuðu ákvörðun og hún varð fyrir ofsóknum. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að stúlkunni hefðu verið gefnar misvísandi og villandi upplýsingar. Hún hefði ekki fengið hlutlæga, læknisfræðilega ráðgjöf. Sagði dómstóllinn að sú staðreynd að fóstureyðingar væru afar umdeildar í Póllandi leysti ekki starfsfólk sjúkrahúsa undan trúnaðarskyldu við þá sem leituðu til þeirra.
Stúlkan þurfti vottorð frá saksóknara um að henni hafi verið nauðgað til þess að hún ætti rétt á því að fá fóstrinu eytt. Í kjölfarið mætti hún margvíslegum hindrunum frá tveimur spítölum, sem hún leitaði til. Yfirlæknir annars spítalans sem er í Lúblin fór með stúlkuna til kaþólsks prests án þess að spyrja hana sjálfa hvort hún vildi hitta prestinn. Í ljós kom að presturinn hafði þegar fengið upplýsingar um ástand hennar og reyndi að fá hana ofan af því að fara í fóstureyðingu. Hann bað hana um farsímanúmerið hennar. Móðir hennar var síðan látin undirrita skjal þess efnis að hún væri þess meðvituð að aðgerðin gæti dregið dóttur hennar til dauða. Að endingu þvertók yfirlæknirinn fyrir að fóstureyðing yrði framkvæmd „á hans deild“ þar sem aðgerðin gengi gegn trúarsannfæringu hans. Gaf spítalinn í kjölfarið út fréttatilkynningu að um að unga stúlkan fengi ekki fóstureyðingu þar. Blaðamönnum sem höfðu samband við spítalann voru gefnar upp persónulegar upplýsingar um stúlkuna. Fjöldi frétta og greina um mál hennar birtust í fjölmiðlum og mál hennar varð tilefni mikilla umræðna á netinu. Í kjölfarið fór stúlkan með móður sinni til Varsjár þar sem hún komst inn á spítala 3. júní 2008. Var henni tjáð þar að hún fengi fóstureyðingu á grundvelli vottorðs saksóknara um að þungunin væri tilkomin vegna nauðgunar og á grundvelli læknisvottorðs en að hún þyrfti að bíða í nokkra daga.
Á meðan fjórtán ára stúlkan beið eftir aðgerðinni tjáði læknir henni að spítalinn sætti miklum utanaðkomandi þrýstingi, fjölda tölvupósta hefði borist þar sem fyrirhuguð fóstureyðing væri fordæmd. Stúlkan fékk einnig sms skeyti frá kaþólska prestinum sem hún hafði hitt í Lúblín og frá ókunnugu fólk sem reyndi að sannfæra hana um að láta ekki framkvæma fóstureyðingu.
Vegna þrýstings á spítalanum og vanmáttar yfirgaf unga stúlkan spítalann 5. júní 2008 í fylgd móður sinnar. Mættu þær þá ofsóknum af hálfu andstæðinga fóstureyðinga og var í kjölfarið fylgt á lögreglustöð þar sem þær sættu yfirheyrslum í margar klukkustundir. Þann sama dag var lögreglunni tilkynnt um ákvörðun fjölskyldudómstóls í Lúblin um að stúlkunni yrði komið fyrir á unglingaheimili sem væri tímabundið úrræði á meðan málaferli stæðu yfir þar sem svipta ætti móður hennar forsjá vegna þess að hún væri að þrýsta á dóttur sína að fara í fóstureyðingu sem hún væri gegn vilja hennar sjálfrar. Lögreglan fór með ungu stúlkuna á unglingaheimili í Lúblin strax eftir yfirheyrslurnar. Daginn eftir var hún flutt á spítala vegna sárra verkja þar sem henni var haldið í viku. Vegna kvörtunar móðurinnar til heilbrigðisráðherra var að endingu heimilað að stúlkan gæti fengið fóstureyðingu í Gdansk sem er í 500 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar í Lúblin og var henni komið þangað með leynd. Fóstureyðingin var framkvæmd 17. júní 2008. Réttarhöldum vegna kröfu um að móðirin yrði svipt forsjá var hætt í febrúar 2009 þegar stúlkan hafði borið vitni um að móðir hennar hefði ekki þvingað hana til að fara í fóstureyðinguna. Þá höfðu yfirvöld ákært stúlkuna fyrir samræði við pilt undir lögaldri en sú ákæra dregin til baka nokkrum mánuðum síðar. Saksókn gegn meintum nauðgara var einnig stöðvuð.
Mannréttindadómstóllinn rökstuddi niðurstöðu sína með því að læknisskoðun á stúlkunni, sem var aðeins fjórtán ára, hefði staðfest áverka sem renndu stoðum undir það að hún hefði sýnt líkamlegan mótþróa gegn ofbeldi; hún hefði verið flutt á spítala í viðkvæmu ástandi þar sem hún hefði sætt miklum þrýstingi af hálfu yfirlæknis sem hefði dregið hana á fund prests; bæði hún og móðir hennar hefðu sætt ofsóknum og verið lagðar í einelti; móður hennar hefði verið gert að undirrita samþykki þar sem hún varað var við því að aðgerðin gæti leitt til dauða dótturinnar án þess að nokkur rök væru leidd fyrir þeirri staðhæfingu að fóstureyðing í þessu tilviki væri lífshættuleg. Unga stúlkan hefði verið ofsótt og í stað þess að njóta verndar lögreglu hefði henni verið komið fyrir á unglingaheimili vegna ákvörðunar dómstóls. Þá taldi Mannréttindadómstóllinn það kornið sem fyllti mælinn að unga stúlkan skyldi hafa verið sótt til saka, ákærð um samræði við pilt undir lögaldri á sama tíma og vottorð saksóknara um að þungun hennar stafaði af nauðgun lá fyrir og hún sjálf var fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis. Yfirvöld í Póllandi hefðu brugðist og á heildina litið hefði stúlkan sætt ómannlegri og vanvirðandi meðferð.
Mannréttindadómstóllinn taldi það sanngjarnar bætur að pólska ríkið greidd stúlkunni 30 þúsund evrur og móður hennar 15 þúsund evrur í miskabætur og samtals 16 þúsund til beggja vegna málskostnaðar.
©herdis.is