Eiríkur Guðmundsson leit á David Bowie, einn mesta tónlistarsnilling 20. aldarinnar, sem eins konar sálufélaga. Bowie var engin venjuleg poppstjarna heldur fjölhæfur listamaður, eiginlega náttúruafl sem mótaði tíðarandann með víðtækum áhrifum sínum, langt út fyrir svið tónlistarinnar. Hann var innblástur fyrir fólk á sviði lista, fræðimennsku, tísku og pólitíkur og fyrir hina jaðarsettu með „androgynous“ útliti sínu og öllum þeim öðrum sjálfum sem hann notaði í listsköpun sinni. Skáld, hugsuður og andlega leitandi. Eiríkur, útvarpsmaður, fræðimaður, rithöfundur, næmur á fólk og skarpgreindur, tengdi við þessa afburðasnjöllu veröld Bowies vitsmunalega og tilfinningalega.
Árið sem Eiríkur fæddist var tímamótaverk Bowies, Space Oddity, frumflutt á sama tíma og fyrsta geimfarið landaði mönnum á tunglinu. BBC bannaði spilun lagsins vegna textans um geimfarann Major Tom, sem missti jarðsamband og hvarf út í geiminn – en það var spilað samt! Annað sjálf Bowies sem heillaði Eirík var Ziggy Stardust, geimveran sem notaði útvarp til að koma boðskap um von til mannkyns andspænis miklum hamförum.
Eiríkur var ekki passívur aðdáandi Bowies, sem lýsti tónsmíðum við leitina að Guði. Held að leitin að hinu andlega og þráin eftir æðra réttlæti hafi verið sá kjarni í listsköpuninni sem gerði það að verkum að Bowie, með öllum sínum öðrum sjálfum, varð eins konar annað sjálf Eiríks – sem útvarps- og fjölmiðlamanns.
Með pistlum sínum í útvarpi kom hann við kaunin á valdhöfum og áhrifafólki. Afleiðingar þess taka sinn toll. Eiríkur var ekki vellauðug og heimsfræg rokkstjarna sem gat ögrað samtímanum – heldur starfsmaður á ríkisstofnun sem er hugsanlega á köflum hallari undir kerfishugsun en þau háleitu markmið að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og mismunandi skoðana.
Það vakti ekkert annað fyrir Eiríki en að kalla eftir betra samfélagi – þannig dró hann upp einfalda mynd af Bolungarvík æsku sinnar, þar sem pabbi hans var kennari, móðir hans ljósmóðir, útgerðarmaðurinn í plássinu vel liðinn og bræður hans „allt góðir menn“.
Man fyrst eftir Eiríki haustið 1993 á ritstjórn Heimsmyndar í Aðalstræti 4 þar sem hann stóð álengdar, dökkhærður, fallegur, feiminn og athugull. Í júní 2012 sendi hann mér skilaboð um að hann og mamma hans myndu koma á kosningaskrifstofuna á kjördag. Engin von um sigur en Eiríkur áttaði sig á inntaki framboðsins.
Viðbrögðin við ótímabærum dauða Eiríks sýna hvað hann snerti marga persónulega með velvilja sínum og að það munaði um rödd hans á hinum opinbera vettvangi. Eiríkur gaf og gaf af sjálfum sér.
Í lagi Bowies Soul Love er fjallað um móður sem syrgir son er féll í stríði. Við móður Eiríks langar mig að segja: Sonur þinn var hugrakkur og færði persónulegar fórnir fyrir hugsjón sína um betri heim – en kveikurinn sem stjórnaði brunanum í lífskertinu hans var á margföldum hraða.
Við Kolbein Orfeus langar mig að segja: Nafnið sem hann gaf þér felur í sér þá von að framferði þitt í lífinu verði svo fagurt að þú hrífir aðra með þér.
Við Vöku, bræður hans og þau sem elskuðu hann vitna ég í nýleg skilaboð frá Eiríki með ljóðlínu Jónasar Hallgrímssonar: Andi Guðs á mig andi, ugglaust mun ég þá huggast.
Kveð Eirík, vin minn, með orðum Bowies til Major Tom áður en geimferðin hefst: Megi kærleikur Guðs umvefja þig.