Dr. Ólafur Franz Mixa lést að morgni laugardagsins 8. janúar, í kjölfar sjúkdómslegu. Banamein hans var hjartabilun. Útför hans fer fram í dag frá Fossvogskirkju.
Ólafur var fæddur 16. október árið 1939, í Graz í Austurríki, en bjó mestan hluta ævi sinnar í Reykjavík. Hann stundaði nám við læknadeild Háskóla Íslands og Ludwig-Maximilians-Universität í München, Þýskalandi. Ennfremur lauk hann sérnámi í heimilislækningum frá háskólanum í Calgary í Kanada.
Ólafur varð fyrsti Íslendingurinn til að fá sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum, en það var árið 1971. Stundaði hann lækningar um áratugaskeið við afar góðan orðstír. Ólafur var frumkvöðull við stofnun og uppbyggingu heilsugæslu á Íslandi.
Ólafur var listhneigður maður og gaf sig mikið að leiklist. Hann sat í ritstjórn Leikhúsmála 1964-65 og lék nokkur hlutverk í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar, Grímu og í Herranótt M.R.
Ólafur sat í aðalstjórn Rauða kross Íslands frá 1973 og var formaður Rauða krossins 1977-82. Ólafur var einn af stofnendum Félags íslenskra heimilislækna 1978, varaformaður félagsins 1978-82 og formaður 1983-87.
Ólafur var yfirlæknir heilsugæslunnar í Álftamýri 1986-94 og heilsugæslunnar í Lágmúla 1997-99 og yfirlæknir Skjóls frá stofnun 1987. Einnig var hann trúnaðarlæknir Leikfélags Reykjavíkur, þýska sendiráðsins og kanadíska konsúlatsins.
Ólafur var tvígiftur en báðar eiginkonur hans eru látnar. Fyrri eiginkona hans var Ásthildur Gísladóttir Köningseder sem lést árið 2008. Eftirlifandi börn þeirra eru Már og Halla Mixa.
Síðara hjónaband Ólafs var með Kristínu Þorsteinsdóttur sem lést árið 2017. Þau eignuðust eina dóttur, Katrínu Mixa.
Minningarorð í Morgunblaðinu 1. febrúar 2022
Ólafur Mixa læknir var hugsjónamaður. Kannski þess vegna sem hann gekk til liðs við framboð mitt til opinbers embættis 2012 og birti í því skyni grein í Morgunblaðinu á kjördegi sem ég stend í þakkarskuld fyrir. Hann vildi vekja athygli á málstaðnum um að fjármálaöfl ættu ekki að vera ráðandi í lýðræðislegum kosningum. Honum fannst gaman að „þessu bralli“ eins og hann orðaði það hnyttilega enda sýnt að hann brann fyrir réttlátu og minna spilltu þjóðfélagi. Ólafur var ritfær eins og hann átti kyn til. Hann helgaði líf sitt læknastarfinu en ekki stjórnmálum og ritstörfum eins og afi hans Ólafur og langafi Björn Jónsson ritstjóri – engu að síður ljóst að hann hafði í sér þann neista. Það mætti fara meira fyrir fólki með veglyndi, fas og þau heilindi sem einkenndu Ólaf Mixa. Eðli máls samkvæmt einkenna slíkir kostir oft ekki þá fyrirferðarmeiri á opinberum vettvangi. Dóttir hans Katrín lýsir honum m.a. með orðunum „femínískur karlmaður“. Hann var drengur góður og það stafaði frá honum birta. Það er missir fyrir samfélagið þegar slíkt valmenni hverfur á braut. Börnum og fjölskyldu Ólafs votta ég einlæga samúð.
– Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir
Grein sem Dr. Ólafur Mixa birti til stuðnings framboði Herdísar Þorgeirsdóttur 2012 sem vísað er í hér að ofan (birtist á kjördegi í Morgunblaðinu).