oliver moriceNefnd fimm dómara yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) ákvað að  vísa dómi  til yfirdeildar dómstólsins en dómur hennar skal vera endanlegur. Þetta var eina málið sem nefndin féllst á að vísa til yfirdeildarinnar af tuttugu, á fundi sínum 9. desember s.l.

Málið Morice gegn Frakklandi snýst um sakfellingu lögmannsins, Oliver Morice, sem ákærður var fyrir ærumeiðingar vegna ummæla sinna í grein í blaðinu Le Monde í garð dómara sem voru að rannsaka lát dómarans, Bernhard Borrel. Lík Borrel fannst í nálægð við borgina Djibouti árið 1995 og var það að hluta til brunnið. Lögreglurannsókn leiddi til þess að litið var á dauða dómarans sem sjálfsmorð. Hann hefði sjálfur borið eld að líkama sínum. Ekkja hans, Elisabet Borrel, vefengdi niðurstöðuna og taldi að hann hefði verið myrtur. Málið var opnað aftur og dómarar hófu að rannsaka málið á nýjan leik. Lögmaður ekkjunnar vefengdi hlutleysi rannsóknardómaranna í blaðagreininni í Le Monde eftir að áfrýjunardómstóll í París hafði tekið málið úr höndum þeirra, sem höfðu verið skipaðir til að rannsaka málið. Dómararnir kvörtuðu undan meiðyrðum og í  kjölfarið var gefin út ákæra á hendur lögmanninum og hann síðan fundinn sekur um ærumeiðingar.

Lögmaðurinn taldi að  brotið hefði verið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð málsins fyrir dómi í Frakklandi, þar sem einn dómaranna hefði þegar lýst yfir stuðningi við dómarann, sem lögmaðurinn gagnrýndi. Hann taldi jafnframt að tjáningarfrelsi sitt hefði verið skert með ólögmætum hætti. Deild Mannréttindadómstóls Evrópu komst einróma að þeirri niðurstöðu í júlí 2013 að réttur lögmannsins til réttlátrar málsmeðferðar hefði verið brotinn en  frönsk stjórnvöld hefðu hins vegar ekki brotið á rétti hans til tjáningar. Ummæli lögmannsins í garð dómaranna í greininni í Le Monde hefðu verið móðgandi og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á dómskerfinu. Frönsk stjórnvöld hefðu því ekki farið á skjön við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að sakfella lögmanninn fyrir ærumeiðingar.