by Herdís Þorgeirsdóttir | 21.06.2012 | Mannréttindi & pólitík
Klukkan er sjö og Eyjafjörðurinn skartar sínu fegursta. Er á leið til Húsavíkur og ætla að byrja daginn í lauginni þar.
Ég hef síðustu þrjá daga verið á hringferð um landið. Á leið minni til Patreksfjarðar kom ég við í sveitahótelinu á Bjarkalundi sem Kolbrún Pálsdóttir rekur. Hún segir það elsta sveitahótel landsins en þau munu fagna 65 ára afmæli þess um kosningahelgina. Brosmild benti hún á tíguleg Vaðalfjöllin með hinum sérkennilegu tindum en þeir ku vera hulduvættir sem haldi vernd yfir staðnum.
Kom til Patreksfjarðar að kvöldi dags 17. Júní eftir að hafa heilsað upp á Kleifabúann á Kleifaheiðinni í kvöldsólinni. Þetta er varða sem vegavinnumenn reistu 1947 og stendur á vesturbrún heiðarinnar á fjallveginum. Engan skyldi undra að einn helsti frumkvöðull nýstefnu módernismans, Jón úr Vör Jónsson, skuli hafa fengið innblástur af fjallasýninni umhverfis fjörðinn en þarna fæddist hann 1917.
Rafn sem rekur bakaríið og verslunina Albínu sagði mér að íbúum Patreksfjarðar hefði fækkað frá því að vera um 1100 fyrir nokkrum árum og væru nú um 600. Það voru brosmild andlit sem ég mætti alls staðar; á höfninni, í Fjölvali og hjá Víkingi og Hörpu sem reka Besta bitann á bensínstöðinni. Þau tóku nýverið við þeim rekstri og eru bjartsýn. Rúta full af ferðamönnum renndi í hlað og búðin fylltist á hálfri mínútu þegar ég kvaddi þau.
Í Þórsbergi á Tálknafirði hitti ég hóp af skemmtilegu fólki og ræddi við þau um heima og geima. Samgöngumálin brenna á þeim eins og vel flestum sem ég hitti á ferð minni um um Vestfirðina. Samgönguerfiðleikar bitna á heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu, segir þetta dugnaðarfólk.
Á Bíldudal er mikil veðursæld. Þar stendur minnismerki um skáldið Mugg, sem er höfundur barnasögunnar um Dimmalimm en mikil umsvif voru í Bíldudal í tíð föður hans, Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar konu hans um 1900. Ég heimsótti íslenka kalkþörungarfélagið við höfnina á Bíldudal þar sem er fagurt útsýni yfir Arnarfjörðinn. Hitti marga starfsmenn verksmiðjunnar í hádeginu á veitingahúsinu Vegamótum og kíkti inn á Eaglafjord ferðaskrifstofuna. Friðbjörn Bjarnason á Litlu-Eyri tók vel á móti mér eftir hádegi. Hann sagði að Vigdís forseti hefði komið í sérstaka heimsókn til móður hans á Litlu-Eyri en hún ku vera eina alnafna Vigdísar Finnbogadóttur.
Á Hrafnseyri við Arnarfjörð var mikið um erlenda ferðamenn og ilmurinn af heimabakstrinum á veitingahúsinu sem er rekið í burstabænum barst langt út grasigróna brekkuna alþakkta sóleyjum þar sem minnismerkið um Jón forseta Sigurðsson stendur.
Ég kom við í Mjólkurárvirkjun í Arnarfirði og þáði kaffi hjá Steinari stöðvarstjóra og konu hans Nönnu en gestkomandi á staðnum var Bjarndís málari frá Ísafirði og Davíð. Aftur bar samgöngumálin á góma og ítrekuðu þau mikilvægi þess að gerð yrðu göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Á Þingeyri heimsótti ég m.a. leiksskólann og ræddi við starfsfólk. Simbakaffi er notalegt kaffihús í fallega uppgerðu húsi. Kom við fólk á Flateyri, Suðureyri og í Bolungarvík áður en ég kom til Ísafjarðar þar sem ég hitti gesti á Edinborgarkaffi og var síðar um kvöldið á ferð um bæinn.
Á þriðjudeginum fór ég til Súðavíkur og síðar Hólmavíkur þar sem ég leit m.a. við í Galdrasetrinu á Hólmavík sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og ræddi við starfsmenn í Rækjuvinnslu Hólmatinds auk fleiri. Síðan lá leiðin til Hvammstanga þar sem ég átti fund með starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs en á Skagaströnd heimsótti ég starfsmenn Vinnumálastofnunar og marga fleiri. Því miður var þekktasti íbúi staðarins, Hallbjörn fjarverandi í Kántríbæ. Á Sauðárkróki kom ég við í aðal verslunarmiðstöðinni og ræddi við marga.
Á Siglufirði er iðandi líf og uppgangur við höfnina. Þar eru nokkur veitingahús og leit ég við í Hafnarkaffi við sem er rekið af Kristínu Sigurjónsdóttur og Birnu Lárusdóttur. Þar fékk ég ljúffenga fiskisúpu og rabbaði við konurnar sem sátu og drukku kvöldkaffið sitt á staðnum. Þar heita Ásdís Gunnlaugsdóttir, Vilborg Jóhannsdóttir og Helga Þórisdóttir. Ásdís sagði mér að hún væri móðir Kristínar, sem rekur staðinn og Herdísar Sigurjónsdóttur, bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ en sú bæri sama Herdísarnafn og ég. Sigurjón faðir Herdísar og Kristínar er afkomandi Þorsteins Þorleifssonar og Herdísar Jónsdóttur frá Kjörvogi á Ströndum (langalangafa og langalangömmu minnar) en þar var Þorsteinn Þorleifsson kunnur maður á sínum tíma. Hann smíðaði fyrstu fæðingartangirnar og var draumspakur mjög. Móðir Þorsteins Þorleifssonar var Hjallalands-Helga og þar af leiðandi formóðir mín en hún var mikill hagyrðingur og samdi m.a.
„Litla jörp með lipran fót, labbar götu þvera, hún mun seinna á mannamót mig í söðli bera“.
(Segi frá ferðinni á fésbókarsíðu minni og þar birtast myndir).
by Herdís Þorgeirsdóttir | 18.06.2012 | Mannréttindi & pólitík

Herdís Þorgeirsdóttir opnaði formlega kosningaskrifstofu sína að Laugavegi 87 í dag.
Í kosningabaráttunni hef ég lagt áherslu á að ég er óháð peningaöflum og hagsmunahópum. Gagnsæi í fjárframlögum í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti treyst því að frambjóðandi gangi ekki “erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins,” eins og segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Ég rak fyrirtæki í tæpan áratug, hef skilning á lögmálum atvinnulífsins og finnst eðilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningar og pólitík eru hins vegar eitruð blanda. Peningaöfl eiga ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi. Það er ekki unnt að kalla peningaöfl til ábyrgðar. Ég hef því ákveðið að þiggja ekki styrki frá fyrirtækjum.
Lög um fjármál frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra (nr. 162/2006) tryggja ekki nægilegt gagnsæi framboða þar eð frambjóðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa upp framlög frá einstaklingum sem eru undir 200.000 krónum. Þessi lög voru sett fyrir hrun.
Ég hef opnað bókhald mitt sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu minni herdis.is og skora á aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að sýna íslensku þjóðinni þá virðingu að opna bókhald sitt strax svo að kjósendur séu upplýstir um það hvaðan peningar að baki framboðunum koma áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 30. júní næstkomandi.
Það er forsenda þess að við getum unnið okkur út úr þeirri spillingu sem sett hefur mark sitt á íslenskt samfélag að hafa opið bókhald. Algert gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvern þeir vilja kjósa til æðsta embættis þjóðarinnar.
Skoða bókhald
by Herdís Þorgeirsdóttir | 17.06.2012 | Mannréttindi & pólitík
Gleði á kosningamiðstöð og hringur í kringum landið.
Við fylgdumst með skrúðgöngunni fara niður Laugaveginn í dag. Skátarnir og lúðrasveitin standa alltaf fyrir sínu. Katla Margrét, Magnús Diðrik og Ævar ( hljómsveitin Rjómar) tóku nokkur vel valin lög fyrir utan kosningamiðstöðina í dag. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona flutti ræðu og minntist þeirra tveggja forseta sem hún átti þátt í að aðstoða þegar á þeirra baráttu stóð: Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. Guðrún rifjaði upp hvernig stuðningsmenn Kristjáns fylltust eldmóði þegar einn þeirra sagði þeim frá draumi sínum nokkru fyrir kosningar en sá draumur sýndi Kristján fara niður skíðabrekku og bruna upp aftur. Hún rifjaði einnig upp framboð Vigdísar sem var dáður leikhússtjóri og leikararnir fylgdu henni flestir og urðu afar glaðir þegar hún var kosin.
Margir litu við og þáðu kaffibolla og nýbakaðar vöfflur. Meðal þeirra sem kíktu við var Anna Einarsdóttir, dóttir Einars Ásmundssonar fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins og færði hún frambjóðandanum bókina Jón Forseti Allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andliti til samtíðar. Bókin er eftir Pál Björnsson sagnfræðing og kom út 2011. Frambjóðandinn ætlar að lesa bókina á leið sinni vestur á firði sem hefst síðdegis en þá hefst hringferð Herdísar um landið.
Við verðum í stöðugu sambandi við ykkur.
Gleðilega þjóðhátíð!
Það verður mikið um að vera á kosningamiðstöðinni á Laugavegi 87 í dag. Hljómsveit Kötlu Margrétar, Rjómar, verður með tónleika sem hefjast kl. 13.00. Okkar ástsæla leikkona, Guðrún Ásmundsdóttir verður með uppistand. Boðið verður upp á kaffi og nýbakaðar vöfflur með sultu og rjóma.
Allir stuðningsmenn velkomnir.
by Herdís Þorgeirsdóttir | 16.06.2012 | Mannréttindi & pólitík
Sigurbjörn Þorkelsson skrifar undir fyrirsögninni RÚV blekkti vísvitandi: Í viðtalsþætti RÚV um forsetakosningarnar, þar sem allir frambjóðendur mættu, var kynnt skoðanakönnun þar sem frekar mjótt var á mununum á milli þeirra Ólafs og Þóru. Ólafur með 45% og þóra 39%. Þóra tjáði sig um þessa könnun eins og sigurvegari. Hún var ánægð með niðurstöðuna. Það sem ekki var sagt, en skiptir höfuðmáli var að skoðanakönnunin var tekin að mestu fyrir þátt með Ólafi, Herdísi og Þóru á Stöð 2, þar sem Ólafur og Herdís stóðu sig mjög vel, en Þóra ekki. Skoðanakönnun eftir þann þátt sýndi að 57% áhorfenda töldu Ólaf hafa staðið sig best, en aðeins 19% töldu Þóru standa sig best. Með þessari framsetningu var reynt að koma Þóru aftur inn í leikinn. Það var ófaglegt og heimskulegt af starfsmönnum RÚV.
Þessi vinnubrögð starfsmanna RÚV er þeim mun gangrýniverðari, að einn frambjóðandana hefur Herdís Þorgeirsdóttir hefur hvatt RÚV til þess að láta utanaðkomandi stjórna umfjöllun RÚV um forsetakosningarnar, þar sem Þóra Arnórsdóttir var starfsmaður RÚV. Útvarpstjóri setti málið í aulafarveg, og einhverjar málpípur gáfu út að ekkert væri við framgögnu RÚV að athuga.
Niðurstaðan í skoðanakönnun nú segir að Ólafur Ragnar hafi 58% fylgi, Þóra hafi 28%, Ari Trausti hafi 8%, Herdís 4%, og þau Andréa og Hannes 1%.
Það er auðvitað ekki líklegt að margt gerist fram að kosningum. Jón Baldvin hefur skipað Jóhönnu að halda sér frá kosningabaráttunni, en bara tenging Þóru við Samfylkinguna hefur skaðað hana. Herdís hefur áunnið sér mikla virðingu, og það hefur Andréa einnig gert.
Ef það væri einhver töggur í Páli Magnússyni setti hann Margréti Marteinsdóttur slakan og mjög hlutdrægan þáttastjórnanda hjá RÚV í veikindaleyfi, til Kanarí ef annað dugar ekki, til þess að halda þá litlu virðingu sem RÚV heldur eftir framgöngu starfsmanna stofnunarinnar.
Flokkur: Bloggar | Breytt 16.6.2012 kl. 14:02 | Facebook
« Síðasta færsla | Næsta færsla »
by Herdís Þorgeirsdóttir | 13.06.2012 | Mannréttindi & pólitík
Jón Baldur Lorange skrifar: Herdís Þorgeirsdóttir kom vel fyrir í þætti Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Hér er glæsilegur forsetaframbjóðandi á ferð á allan hátt. Sjónarmið hennar til forsetaembættisins og annarra málefna eru heilbrigð og skynsöm. Hún veit hvað hún syngur. Menntun hennar og reynsla er afgerandi miðað við aðra frambjóðendur. Ef aðstæður væri aðrar hvað varðar forsetakosningarnar að þessu sinni hefði ég örugglega kosið Herdísi sem næsta forseta Íslands. Þeim aðstæðum hef ég lýst áður.
En það koma forsetakosningar eftir þessar forsetakosningar og Herdís getur vel við unað.
ATHUGASEMDIR
by Herdís Þorgeirsdóttir | 12.06.2012 | Mannréttindi & pólitík
Axel Jóhann Axelsson skrifar: Herdís Þorgeirsdóttir verður sífellt álitlegra forsetaefni, því nær sem dregur kosningum, enda loksins farið að gefa henni gaum í fjölmiðlum og þar með hefur henni gefist kostur á að sýna hvað hún hefur fram að færa, án þess að hengja sjálfa sig á ævilangan skuldaklafa vegna auglýsinga og annars kostnaðar sem kosningamaskínur stjórnmálaflokka virðast greiða fyrir einstaka frambjóðanda.
Herdís virðist vera hrein og bein, kemur vel fyrir og er vel menntuð og með mikla og góða starfsreynslu, innanlands og utan og ekki annað að sjá en að hún hafi allt til að bera til að geta orðið góður forseti til næstu tólf til sextán ára.
Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hefur verið á fremur rólegum nótum fram að þessu, en hefur þó verið að harðna síðustu dagana og mun sjálfsagt verða þeim mun óvægnari eftir því sem nær dregur kjördegi og línur fara að skýrast milli frambjóðenda, en vafalaust á fylgi Herdísar eftir að vaxa mikið á þeim tveim vikum sem eftir lifa fram að kosningunum.
Persónulegt skítkast er farið að vera talsvert áberandi og virðist helst mega rekja til herbúða Þóru Arnórsdóttur og verður að láta þá von í ljósi að slíku linni og baráttan síðustu dagana verði málefnaleg og heiðarleg.
Því verður ekki trúað að persónulegt skítkast verði nokkrum frambjóðanda til framdráttar og hvað þá að nokkur kjósandi byggi afstöðu sína á slíkum óþverra.
Athugasemdir
1
Þetta er bagalegt og það ætti að gera opinbera kæru vegna þessa. Ég er ekki samt að skilja vel af hverju herdís kemur ekki betur út í könnunum. Hún er vinsælli en þóra manna á meðal. Spurning hvort það sé einhver maðkur í misunni þ.e. er könnun gerð meðan yngra fólksins en það er einhvað skrítið í kýrhausnum með þóru.
Valdimar Samúelsson, 15.6.2012 kl. 22:06
2
Valdimar ég held að það verði gerð krafa um uppstokkun á RÚV fyrr en seinna. Ríkisfjölmiðill sem veldur ekki að gæta jafnræðis missir stuðning.
Ég er sammála þér um góða frammistöðu Herdísar. Hún á eftir að bæta við sig. Þó hún sigri ekki, er hún þegar orðinn sigurvegari í þessarri baráttu.
Sigurður Þorsteinsson, 15.6.2012 kl. 22:28
3
Sæll Sigurður. Þetta er áhugaverður vinkill hjá ér og bara enn eitt sorglegt dæmið um það að þessari stofnun allra landsmanna er ekki treystandi.
Ný stjórnvöld þurfa að hreinsa ærlega til á þessari stofnun. Reka vanhæfan og hrokafullan útvarpsforstjórann og setja nýjar og strangar siða- og hlutleysisreglur um fréttaflutning og fréttamat stofnunarinnar. Þetta er algerlega óboðlegt.
Vanhæfi þeirra hefur berlega komið í ljós í aðalega þremur stórum málum.
1. Umfjöllun um ESB málefni og umsókn okkar þar.
2. ICESAVE málið.
3. Forsetakosningarnar.
Í öllum þessum þremur stóru málum hafa þeir brotið allar hlutleysisreglur gróflega.
Gunnlaugur I., 16.6.2012 kl. 17:12
4
Sæll Gunnlaugur, er alveg sammála þér með þessa þætti. Ríkisfjölmiðill eins og BBC leggur mikið upp úr því að áhorfendur virði hann fyrir fagmennsku. Innan RÚV virðist lítill sem enginn metanður lengur ríkjandi meðal starfsmanna. Nokkrir öfgasinnar halda að miðilinn eigi að verða áróðurstofnun eigin skoðana. Það þýðir uppstokkun, eða að stofnunin verði lögð niður.
Sigurður Þorsteinsson, 16.6.2012 kl. 18:05