Vigdís Grímsdóttir um framboð Herdísar

Vigdís Grímsdóttir um framboð Herdísar

Grein eftir Vigdísi Grímsdóttur rithöfund til stuðnings framboði Herdísar Þorgeirsdóttur til forseta. 

Og þá er best að koma sér beint að efninu en vera ekkert að læðast í kringum hlutina með alls konar dæmisögum og hinu og þessu sem hugsanlega er fyndið og skemmtilegt.

Ég segi bara stutt og laggott frá því sem stendur hjarta mínu næst og það hljómar svona:

Ég kýs Herdísi vegna þess að hún er glöð og sönn og einlæg og af því að hún segir alltaf það sem henni finnst. Og ég kýs hana vegna þess að hún er ástríðufull og heil og gerir alltaf það sem hún segist ætla að gera. Og svo kýs ég Herdísi vegna þess að það mun enginn maður eiga neitt inni hjá henni verði hún kjörin.

Ég kýs konu sem veit hvað raunverulegt jafnrétti er.

Ég kýs Herdísi vegna þess að hún á engin leyndarmál, getur verið hún sjálf og lætur aldrei einsog hún sé fullkomin. Ég kýs konu sem veit að lýðræðið er það sem við verðum að berjast fyrir og hún mun standa og falla með því. Og ég kýs Herdísi vegna þess að það mun enginn maður eiga neitt inni hjá henni verði hún kjörin.

Ég kýs konu sem snýr aldrei baki við sannleikanum.

Ég kýs Herdísi vegna þess að mig langar ekki í neitt næstum því, mig langar ekki til að forsetinn geti næstum því sagt hvað honum finnst, geti næstum því lagt heiður sinn að veði, geti næstum því kinnroðalaust borið höfuðið hátt. Og ég er viss um að það mun enginn eiga neitt inni hjá Herdísi verði hún kjörin.

Ég kýs konu sem stendur keik og afneitar peningavaldinu.

Ég kýs Herdísi vegna þess að hún treystir hvorki á klíkur né kónga og mun aldrei gera það, hún styður mannréttindi allra en ekki sumra, gerir sér grein fyrir hættum fátæktar og annarra hlekkja og vill leggja sitt að veði til að breyta óréttlætinu. Og svo er ég viss um að það mun enginn eiga neitt inni hjá Herdísi verði hún kjörin.

Ég kýs konu sem er réttsýn og vill stuðla að raunverulegu jafnræði allra Íslendinga.

Ég kýs Herdísi vegna þess að hún “vill öllum í húsinu vel” og ég þekki hana af því að standa við orð sín og leika aldrei aðra manneskju en hún er. Og svo er ég viss um að það mun enginn eiga neitt inni hjá henni verði hún kjörin.

Ég kýs konu sem mun sitja stolt, sjálfstæð á Bessastöðum.

Ég kýs Herdísi Þorgeirsdóttur sem virðir fólkið í landinu – og vill vinna okkur vel.

Opið bókhald (fyrst birt 18. júní 2012)

Opið bókhald (fyrst birt 18. júní 2012)

 (Velkomin þið sem viljið líta við í kaffi í hádeginu í dag – 25. júní – að Laugavegi 87. Verð þar milli kl. 12 og 13)

Í kosningabaráttunni hef ég lagt áherslu á að ég er óháð peningaöflum og hagsmunahópum. Gagnsæi í fjárframlögum í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti treyst því að frambjóðandi gangi ekki “erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins,” eins og segir í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Ég rak fyrirtæki í tæpan áratug,  hef skilning á lögmálum atvinnulífsins og finnst eðilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningaöfl eiga hins vegar ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi. Það er ekki unnt að kalla peningaöfl til ábyrgðar. Ég hef  því ákveðið að þiggja ekki styrki frá fyrirtækjum.

Lög um fjármál frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra (nr. 162/2006) tryggja ekki nægilegt gagnsæi framboða þar eð frambjóðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa upp framlög frá einstaklingum sem eru undir 200.000 krónum. Þessi lög voru sett fyrir hrun.

Ég hef opnað bókhald mitt sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu minni herdis.is og skora  á aðra frambjóðendur til embættis forseta Íslands að sýna íslensku þjóðinni þá virðingu að opna bókhald sitt strax svo að kjósendur séu upplýstir um það hvaðan peningar að baki framboðunum koma áður en þeir ganga að kjörborðinu þann 30. júní næstkomandi.

Það er forsenda þess að við getum unnið okkur út úr þeirri spillingu sem sett hefur mark sitt á íslenskt samfélag að hafa opið bókhald. Algert gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvern þeir vilja kjósa til æðsta embættis þjóðarinnar.

Skoða bókhald

Skoða bókhald

Opið bókhald Herdísar í fréttum

Mbl.

RÚV

Smugan

Saga

DV

 

Lok hringferðar

Er að nálgast Skaftafell í glampandi kvöldsólinni og mistur yfir fjöllunum. Ferðin hringinn um landið hefur verið mjög áhugaverð. Á Akureyri hófst miðvikudagurinn í heita pottinum þar sem ég spjallaði við sundlaugargesti. Heimsótti ég nokkur fyrirtæki, m.a. Slippinn og Samherja, stofnanir í Gamla Alþýðuhúsinu og átti góðan fund með stuðningsmönnum.  Um kvöldið var ég boðin á Möðruvellil til að samfagna með nýkjörnum vígslubiskupi á Hólum, Solveigu Láru Guðmundsdóttur. Á Húsavík fór ég í sund í glampandi sól, hitti margt hresst fólk sem var að fá sér morgunmat í bakaríinu, átti sérlega skemmtilegt spjall við starfsmenn Víkurrafs, heimsótti ritstjóra Skerpis auk þess sem ég ávarpaði eldri borgara i Hvammi.

Á Seyðisfirði hitti ég starfsmenn Síldarvinnslunnar og átti gott spjall við þá á kaffistofunni. Skiptar skoðanir voru um ýmis mál í þeirra hópi. Kaffistofan þeirra er með gamaldags sniði en allt rusl vandlega flokkað sem gerir hana nútímalegri en mörg önnur fyrirtæki. Þeir leystu mig út með kaffi sem er kennt við Sólardaginn á Seyðisfirði,  18. febrúar. Kíkti við á bensínstöðinni, Samkaupum og hjá handverkstæði Láru. Á Eskifirði varð ég fyrir skemmtilegri reynslu þegar ég spurði ungling til vegar. Hann stökk af reiðhjólinu sínu og sagði strax: „Ég stend með þér!“ Pilturinn heitir Esjar og fljótlega bar að fleiri félaga hans, sem gaman var að spjalla við. Í Neskaupsstað heimsótti ég Síldarvinnsluna og var leidd um þetta myndarlega fyrirtæki af Hákoni og Margréti.

Á Egilstöðum átti ég fund með frændfólki og nokkrumn vinum á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Hóf föstudaginn á ferð í sund eins og annars staðar, heimsótti síðan Kleinuna sem hýsir ýmsir stofnanir og skrifstofur, heimsótti fyrirtækið Brúnás sem framleiðir glæsilegar innréttingar og spjallaði við starfsmenn og fór í leiksskólann Skógarland þar sem eru 130 börn. Svo lá leiðin yfir Fagradal til Reyðarfjarðar þar sem ég heimsótti aðra af tveimur starfsstöðvum Vélsmiðju Hjalta Einarssonar (VHE) áður en ég átti fund með nokkur hundruð starfsmönnum Fjarðaráls og fékk nokkrar áhugaverðar fyrirspurnir þar. Fór síðan í Molann og heimsótti bæjarskrifstofur og Íslandsbanka.

Næst lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, Breiðdalsvíkur og Djúpavogs. Í einu plássi hitti ég mann sem var að mála niður við höfn. Sólin glampaði á spegilsléttan sjóinn og ég dáðist að fjallasýninni. „Þeir gátu ekki tekið fjöllin“, sagði þessi maður og var reiður þeim sem fóru með kvótann úr byggðalaginu.

Þegar ég kom til Hafnar í Hornafirði stóð þar yfir Humarhátíð og  var þar múgur og margmenni.  Á Kirkjubæjarklaustri ræddi ég við gesti og gangandi, m.a. lögregluþjóna staðarins.

Tek ekki við styrkjum frá fyrirtækjum

Ég hef lengi varað við ítökum peningaafla í stjórnmálum. Ef þau ráða úrslitum um það hverjir eru kjörnir til áhrifa kunnum við að sitja uppi með handbendi þeirra.

Áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 segir: „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Meðal lærdóma sem í skýrslunni er sagt að draga þurfi er að:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.”

Ég hef opnað bókhald framboðs míns og skorað á aðra frambjóðendur að gera slíkt hið sama, enda hvatt til gagnsæis í bókhaldi í skýrslunni, en lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda eru frá því fyrir hrun.

Til að tryggja það að ég verði engum háð, hljóti ég kosningu í embætti forseta Íslands, hef ég ákveðið að framboð mitt taki ekki við styrkjum frá fyrirtækjum.

Ég skora á aðra frambjóðendur að opna bókhald sitt strax til þess að kjósendur geti séð hvaðan peningarnir að baki framboðinu koma – áður en þeir ganga að kjörborðinu.

Herdís Þorgeirsdóttir

Reynt að smyrja snobbi og rasisma á frambjóðanda

Reynt að smyrja snobbi og rasisma á frambjóðanda

Er Herdís snobbuð

Sumir segja að Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi sé snobbuð og þess vegna eigi hún ekkert erindi á Bessastaði. Ef spurt er nánar út í hvernig meint snobb Herdísar lýsi sér, verður samt fátt um svör.

Þetta virðist vera einhver tilfinning sem fólk fær sem séð hefur hana í sjónvarpi eða jafnvel aðeins á mynd og aldrei hitt hana í eigin persónu. –

Nú er kannski ekki auðvelt að skilgreina snobb í fljótu bragði en við getum öll verið því sammála að það felur í sér mismunun og óheilbrigt verðmætamat. – ´

Það skýtur því afar skökku við að manneskja sem sækist eftir forsetaembættinu á grundvelli þess að hún hyggist tala fyrir mannréttindum og lýðræði og er einkum kunn fyrir störf sín í þágu slíkra gilda, skuli af einhverjum vera talin endurspegla andstæðu þeirra.

Hvað sér þá fólk í fari Herdísar sem fær það til að halda að hún sé snobbuð. Einhverjir nefndu sem dæmi að hún klæddi sig bara í merkjavöru og talaði ekki við hvern sem er í samkvæmum og á mannafundum.

Herdís er vel menntuð og kann að koma fyrir sig orði. Hún er fræðimaður og á það til að grípa til hugtaka og orðfæra sem heyra til  þeim fræðigreinum sem hún hefur numið. Hún er háttvís og hefur afar fágaða framkomu. Sem kennari og fyrirlesari hefur hún  tileinkað sér fas sem virkar stundum ekki eins hversdagslegt og við flest erum vön.

Allt þetta kann að koma fólki fyrir sjónir sem snobb en er það alls ekki.

Þvert á móti vitna vinir hennar og kunningjar ætíð um hlýleika nærveru hennar, einlæga samúð hennar og alþýðleika þegar kemur að daglegu amstri.

Herdís er nú á ferð um landið þar sem hún gerir sér far um að hitta fólk og kynna áherslur sínar fyrir löndum sínum. – Ég hvet alla til að nýta sér þetta tækifæri til að kynnast Herdísi persónulega og sannfærst um, hvaða álit þeir kunna að hafa á málflutningi hennar, að snobbuð er hún ekki.

https://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1246002/