Kennsla  í Georgíu á tíma þingkosninga

Kennsla í Georgíu á tíma þingkosninga

1.10.2012

Þingkosningar eru í Georgíu í dag. Ég kom heim í gær eftir að hafa verið í rúma viku að kenna mannréttindi við lagadeild Háskólans í Tbilisi, sem er ríkisháskóli og sá stærsti á Kákasussvæðinu. Við lagadeildina eru fimm þúsund nemendur. Deildarforsetinn, Irakli Burduli er sérfræðingur í félagarétti en hann stundaði doktorsnám í Salsburg í Austurríki. Kennslan fór fram á ensku og ég verð að segja að standardinn á nemendum er hár. Þau eru með góðan grunn í stjórnskipun eigin lands og hafa skilning á inntaki mannréttinda. Einn tími fór í  umræður um réttindi mótmælenda á grundvelli alþjóðlegara mannréttindaákvæða, þ.á m. fjölluðum við um Pussy Riot og þau voru hörð á því að rússnesk stjórnvöld hefðu með sakfellingu stúlknanna verið að berja niður pólitíska gagnrýni þótt þær hafi verið dæmdar fyrir óspektir á almannafæri. Enda hefði markmið þeirra ekki verið að ráðast að trúarbrögðum rétttrúnaðarkirkjunnar heldur að vekja athygli á pólitísku ástandi í Rússlandi. Eftir að Pútin var kjörin forseti í þriðja sinn í júní s.l. undirritaði hann ný lög um mótmæli á almannafæri með hertum viðurlögum þar sem hægt er að sekta fólk á grundvelli óskýrt orðaðra ákvæða um 300 þúsund rúblur (9300 bandaríkjadali).

Með nokkrum nemendum við lagadeildina í Tbilisi.

Ég fann strax þegar ég kom til Tbilisi að það er óróleiki í loftinu; spenna vegna kosninganna en einnig ótti við hvað kann að taka við. Einingarflokkur Saakashvilis, forseta, sem hefur verið við völd síðan 2003, á í höggi við kosningabandalag undir forystu milljarðamæringsins Bidzina Ivanishvili. Sá síðarnefndi er talinn hafa náin tengsl við Pútin og sagður hafa auðgast á góðum viðskiptasamböndum og samningum við Rússa en fátt hrýs mönnum eins hugur við og að Rússar nái aftur tökum á Georgíu. Landið var hluti af Sovétríkjunum og í skugga þeirra allt til þess að þau hrundu.

Mótmæli fyrir utan háskólann í Tbilisi síðastliðinn mánudag.

Georgía er staðsett á landfræðilega mikilvægum krossgötum þar sem Evrópa og Asía mætast. Menningarsaga landsins er forn og einstök og Georgíubúar rómaðir fyrir gestrisni sína og matargerð. Íbúar eru um fjórar og hálf milljón og meirihlutinn kristinn. Rétttrúnaðarkirkjan stendur föstum og fornum rótum í landinu og maður sér unga töffara signa sig þegar þeir ganga fram hjá kirkjum. En þeir eru einnig umburðalyndir því í Tbilisi eru moskur og synagogur hlið við hlið.

Rustaveli breiðgatan að kvöldlagi.

Borgin er undurfögur, staðsett í náttúrulegu virki milli hárra fjalla enda verið bitbein Persa, Tyrkja og Rússa í aldanna rás. Rússar náðu yfirráðum í landinu á 19. öld og á Rustaveli breiðgötunni stendur höll Romanov fjölskyldunnar með stórum skrúðgarði. Þar eru glæsileg hótel, listasöfn og kirkjur; stór bygging í sovéskum stíl sem hýsir fræðasetur Marx, Engels og Lenins; rétttrúnaðarkirkjur, söng og leikhús en þarna sátu Leo Tolstoy og Alexander Pushkin ásamt fleiri þekktum einstaklingum sem heilluðust af Tbilisi. Við Rustaveli stendur einnig þinghúsið þar sem mótmælendur söfnuðust saman í apríl 1989 og kröfðust sjálfstæðis við fall Sovétríkjanna þegar brynvarðir skriðdrekar og rússneskir hermenn murkuðu lífið úr tuttugu ungmennum sem þar komu saman, þar af sautján  ungum stúlkum. Landið var innlimað í Sovétríkin eftir byltingu bolsévika og hlaut sjálfstæði aftur 1991. Við tóku erfið ár og laganemar sem fóru með mér í skoðunarferð sögðu mér að þeir hefðu hreinlega soltið sem börn vegna ástandsins í landinu á tímabili; enginn matur, ekkert rafmagn og fólk beið í biðröð heilan dag eftir brauðhleif. Þetta var árið 2000.

Enn er Georgía bitbein stórvelda en bæði Rússar og Bandaríkjamenn telja sig eiga mikilla hagsmuna að gæta þar. Samband Georgíu við Rússa hangir á bláþræði eftir að þeir síðarnefndu studdu aðskilnaðarhreyfignar í Abkhazia og suður Ossetíu. Hagsmunir Bandaríkjamanna liggja meðal annars í fjárfestingum í olíuleiðslum frá Azerbaijan í gegnum Georgíu til Tyrklands. Herinn í Georgíu hefur notið stuðnings frá Bandaríkjamönnum og hefur það verið áhyggjuefni í Kreml þar sem Georgía vill bæði vera í NATO og Evrópusambandinu.

Eftir hrun Sovétríkjanna 1991 var Zivad Gamsahurdia kjörinn forseti en fljótlega vikið frá völdum af stjórnarandstöðunni sem kom fyrrum utanríkisráðherra Sovétríkjanna Eduard Shevardnadze. Í ellefu ára stjórnartíð hans voru kjör almennings mjög bágborgin, glæpatíðni há og mikil spilling. Í fjöldauppreisn 2003 í kjölfar þingkosninga (Rósabyltingarinnar) var honum vikið frá völdum.

Á meðan Georgía var hluti af Sovétríkjunum var landið nokkuð vel sett vegna aðgangs að ódýrri orku. Í kjölfar sjálfstæðis hertu Rússar skrúfurnar og lokuðu fyrir aðgang Georgíu að orkunni. Rússarnir hafa einnig lokað á önnur viðskipti við landið og efnahagur þess hefur því sem næst hrunið. Georgía var alfarið háð Rússum um gasbirgðir en rússneska fyrirtækið Gazprom hefur margfaldað söluverðið á gasi til þeirra.

Með Irakli Burduli deildarforseta lagadeildar háskólans í Tbilisi.

Ég hitti Mikhael Saakashvili á þingi um stjórnskipunarrétt í boði stjórnlagadómstólsins í Georgíu fyrir rúmu ári. Hann er lögfræðimenntaður með framhaldsmenntun í alþjóðalögum frá Columbiaháskólanum í New York og sá frambjóðandi sem nýtur velvildar vegna baráttu gegn ítökum Rússa í landinu. Hann er talinn hafa staðið sig vel í baráttunni gegn glæpum (Burduli deildarforseti lagadeildarinnar segir mér að „zero tolerance“ – stefnan – ekkert umburðalyndi hafi ráðið því), jafnvel spillingu þótt stjórnmálastétt landsins og embættismenn séu taldir ónæmir fyrir kjörum almennings og á þeim stað í tilverunni að þurfa „skrifaðar siðareglur“ til að þekkja mun á réttu og röngu, nokkuð sem Íslendingar kannast við. En Mikhael Saakashviili þykir líka í forsetatíð sinni hafa fyllst valdhroka en hann lét reisa forsetahöll í hlíðum Tbilisi 2010 sem blasir við upplýst og glæsileg, stærri en Hvíta Húsið í Washington.

Höll Ivanishvilis úr gleri og stáli gnæfir yfir Tbilisi.

Þingkosningarnar í dag eru prófsteinn á framtíð Saakashvilis. Stjórnarandstaðan styður auðkýfinginn Bidzina Ivanishvili. Hann er ríkasti maður Georgíu og flokkur hans lofar íbúum landsins bjartri framtíð. Saakashvili segir hann muni koma Georgíu undir rússnesk yfirráð á nýjan leik.

Þegar ég hóf kennslu við lagadeildina í Tbilisi höfðu myndböndin um pyntingar á ungum föngum (börnum undir lögaldri) í fangelsi lekið út. Stúdentar mótmæltu pyntingunum og tengdu þær núverandi stjórnvöldum. Í eitt skipti komu öryggisverðir inn í kennslustofu og báðu mig að gera hlé á kennslu vegna uppþota á háskólalóðinni. Ivanashvili hefur gert sér mat úr myndböndunum og segir pyntingar á ungu föngunum sýna hve stjórn Saakashvili hirði lítt um mannréttindi. Aðrir segja myndböndunum hafa verið lekið gagngert viku fyrir kosningar til að koma höggi á Saakashvili.

Á laugardaginn tók ég mynd af gler- og stálhöll Ivanishvilis, sem er eins og út úr James Bond mynd með þyrlupalli og gnæfir yfir borgina í fjallshlíð. Almenningur heldur að hann muni nota auð sinn til að láta drauminn um bjarta framtíð Georgíu verða að veruleika. Ivanishvili auðgaðist í Rússlandi á tíunda áratug síðustu aldar en auður hans er metinn á 5.5 milljarða bandaríkjadala eða um helming fjárhags alls landsins. Í listaverkasafni hans má finna verk eftir Picasso og fleiri stórmenni listasögunnar. Meðal mánðarlaun í landinu eru um 200 dollarar.

Í klaustri frá 6. öld hátt upp í fjöllum Georgíu.

Ég varð vör við raunverulegan ótta margs hugsandi fólks sem ég talaði við á meðan ég var í Tbilisi. Aðstæður þessa fólks eru allt aðrar en okkar. Það sem sameinar okkur hins vegar er að baráttan fyrir lýðræði og mannréttindum krefst stöðugrar árvekni og að valdapot af því tagi sem er að eiga sér stað í Georgíu – það er að auðkýfingur sem  hefur að öllum líkindum auðgast óeðlilega á viðskiptum í Rússlandi og er í nánu sambandi við pólitísk öfl þar  er ekki ávísun á bjarta framtíð.

Myndræn birting misréttis

Myndræn birting misréttis

 

Á meðfylgjandi mynd er framkvæmdastjórn Seðlabanka Evrópu. Evrópusamtök kvenlögfræðinga hafa sent frá sér bréf til stjórnvalda í 17 ríkjum evrusvæðisins til að mótmæla því að 17. sætið í stjórn bankans verði skipað karlmanni en fyrir eru eintómir karlar. Þar að auki er sex manna framkvæmdastjórn skipuð eintómum körlum.

Ekki gefst tækifæri til að skipa konu í stjórn bankans fyrr en 2018 ef þetta eina sæti sem enn er laust verður skipað karli. Hér er ályktun Evrópusamtaka kvenlögfræðinga um nauðsyn þess að skipa konur í stjórnir fyrirtækja frá 2008 – en framkvæmdastjórn Evrópuráðsins hefur í hyggju að setja lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja – þar sem treglega hefur gengið að uppfylla markmið byggð á jafnréttissjónarmiðum.

Talið frá vinstri: Michael D. Weeks, John F. Hughes, Jr., B. Martelle Marshall, J. Bryant Kittrell III, George Thomas Davis, Jr., R. S. Spencer, Jr., A. Dwight Utz, Joseph T. Lamb, Jr.

Peningaöflin og pólitíkin í Rússlandi

Peningaöflin og pólitíkin í Rússlandi

russian oligarchsLengi hef ég bent á þær hættur sem lýðræði stafar af tengslum peningaafla og stjórnmála. Nú eru rússnesk stjórnvöld í sviðsljósinu vegna réttarhaldanna yfir Pussy Riot en þær tróðu upp í rétttrúnaðarkirkju til að mótmæla Pútin og pólitískri spillingu. Athygli heimsins beinist nú að Pussy Riot en mikilvægt er að setja í samhengi og gleyma ekki hverju þær eru að mótmæla – og að slík spilling og vaxandi ójöfnuður er ein helst ógn við lýðræði og mannréttindi í heiminum nú. Þeir sem eru að berjast fyrir mannréttindum í Rússlandi og fyrrum ríkjum Sovétríkjanna sæta margir miklu harðræði, andlegum og líkamlegum pyntingum.

Í dag ákallaði GRECO-hópur Evrópuráðsins Rússa um að skera upp herrör gegn mútum og  auka gagnsæi á tengsl peningaafla og stjórnmálamanna. Miklar áhyggjur eru innan Evrópuráðsins vegna stuðnings peningaafla við ákveðna stjórnmálamenn í í rússneska sambandslýðveldinu. Bent er á að núgildandi lög um fjárframlög til stjórnmálamanna séu flókin, stöðugt sé verið að breyta þeim til að skapa svigrúm til að túlka þau með ýmsum hætti sem og  framkvæmd þeirra. Sérstakar áhyggjur eru af meintri tilvist mikils fjárstreymis sem falli utan ramma laganna og víðtækri misbeitingu stjórnvalda í þágu ákveðinna stjórnmálamanna í kosningum.

Í einkavæðingarferlinu á tíunda áratug síðustu aldar, eftir hrun Sovétríkjanna, fór ómældur auður frá ríkinu til einkaðaðila. Einkavæðingarferlið í Rússlandi var gerspillt en auðurinn er víst óafturkræfur. Í aðdraganda kosninganna fyrr á þessu ári  lýsti Pútin því yfir að þeir sem hefðu hagnast á óheiðarlegu einkavæðingarferli ættu að greiða eignaskatt í eitt skipti en með þeim hætti gætu þær eignir og auður sem þessir aðilar fengu í einkavæðingarferlinu talist lögmæt.

Gagnrýnendur Pútins, þ.á.m. Boris Nemtsov fyrrverandi ráðherra, benda á að þeir sem eru nánir valdhöfum og náttúrulegum auðlindum séu að verða ríkari. Samkvæmt Alþjóðabankanum voru 13 prósent í Rússlandi undir fátækramörkum 2010.

Samkvæmt lista Forbes í mars 2012 eru 95 milljarðamæringar í Rússlandi. Kína sem er tíu sínnum fjölmennara á „aðeins“ 14 fleiri milljarðamæringa en Rússar. Rússnesku milljarðamæringarnir eru metnir á bilinu 18.1 milljarður bandaríkjadala niður í 6.5 samkvæmt Forbes listanum.

Réttarhöld í málaferlum tveggja rússneskra auðkýfinga í London fyrr á þessu ári vörpuðu ljósi á það með hve skuggalegum hætti þessir forríku olígarkar auðguðust með skjótum hætti á tíunda áratug síðustu aldar. Gögn sem komu fram í réttarhöldunum beindu sjónum að ótrúlegum auði og lífsstíl þessarar nýrríku rússnesku elítu, glæsihýsum um alla veröld, lúxussnekkjum, glæsibifreiðum, dvölum á lúxushótelum – sýn inn í heim, handan og ofan þess, sem flestir aðrir íbúar jarðarinnar geta  ímyndað sér.

Smávægilegar lagabreytingar virka sem siðvæðing spillingar í því ástandi sem hér er lýst að ofan.

Skortur á samkennd

Skortur á samkennd

older peopleNýlega benti umboðsmaður heilsugæslunnar í Svíþjóð á ýmsa annmarka sem fylgja einkavæðingu stofnana fyrir eldri borgara í kjölfar hneykslismála, sem upp komu vegna slæmrar meðferðar á fullorðnu fólki.

Sænskir fjölmiðlar hafa flutt fréttir af því hvernig fyrirtæki, sem rekur stofnanir fyrir eldri borgara hefur sett gróðann af rekstrinum á oddinn, góð laun og bónusa fyrir stjórnendur í stað þess að sinna þörfum þeirra sem búa á stofnununum.

Benti umboðsmaðurinn á að þessir eldri borgarar væru ekki að njóta áhyggjulauss ævikvölds.  Réttindi þeirra væru brotin með margvíslegum hætti. Þeim væri hvorki sýnd hlýja né virðing og fagmennsku í umönnun þeirra væri stórlega ábótavant.

Flestir vilja verða gamlir en enginn vill vera gamall og alls ekki ef  viðhorfin hér að ofan verða ríkjandi.

Margir af eldri kynslóðinni, hvort sem er hér eða annars staðar, voru aldir upp við það að taka ekki að sér verk nema að geta sinnt þeim sómasamlega. „Yfir litlu varstu trúr og yfir mikið mun ég setja þig“ var boðskapurinn – enginn yrði góður skipstjóri nema að hafa verið góður háseti.

Í græðgis- og neysluvæðingu undafarinna áratuga hefur þessum boðskap verið snúið á hvolf. Menn eru oft og iðulega settir yfir mikið óháð verðleikum. Af hverju skyldi það vera hægt? Vegna þess að aðrir axla ábyrgð af því sem fer úrskeiðis þegar hæfileikalausir eða óábyrgir einstaklingar eru settir i stöður sem þeir valda ekki.

Dæmin blasa alls staðar við. Íslendingar súpa seyðið af vitleysunni í kringum einkavæðingarferli bankanna um ókoma tíð. Nafngiftin andverðleikasamfélagið hefur fest sig í sessi. Menn eru skipaðir út og suður án þess að vera hæfir. Flokksskírteini vegur oft þyngra en prófskírteinið. Engum dytti í hug að skipa landsliðið í fótbolta út frá flokksskírteinum. En þegar tapinu er hvort eð er velt yfir á almenning skipta hæfnissjónarmið minna máli.

Hér hefur þróast það sem ég kalla „fyrirtækja-flokksræði“ – óformlegt bandalag fjársterkra  hagsmunaðila og stjórnmálamanna þar sem ítök í fjölmiðlum skipta miklu. Í samfélagi sem er stýrt með þessum hætti dafna óæskilegir eiginleikar mannlegrar breytni. Þótt fólk skynji órétt og finni lyktina af spillingu þegir það af því að þeir sem ljóstra upp um slíkt eru „jaðraðir“ – settir út á jaðarinn og oft sæta þeir þaðan einelti frá varðhundum kerfisins.  Ungu konurnar í Pussy Riot , sem íslenska „kerfið“ tekur nú upp á arma sína – voru að hrópa út á jaðrinum. Þær voru að andmæla kerfi þar sem pólitískt vald byggir á peningaöflum.

Samkennd, ein af forsendum siðaðs samfélags, blómstrar ekki í „fyrirtækja-flokksræði“. Þeir sem hagnast á því fyrirkomulagi tímabundið verða einhvern tíma gamlir eins og sænsku fórnarlömbin á stofnunum, sem rekin eru af bíræfnum aðilum.  Þeir sem hagnast á vondu kerfi verða fórnarlömb þess síðar. Sama hver á í hlut.

Valdakerfi karla

Valdakerfi karla

 

Mitt Romney kynnir varaforsetaefni sitt, Paul Ryan. Hingað til hafa 44 gegnt stöðu forseta – allt karlar og 47 gegnt stöðu varaforseta – allt karlar.

Konur eru 157 milljónir í Bandaríkjunum en karlar 151.8 milljónir.    Konur eru 58,6 % af vinnuaflinu en um 1% ráða yfir 43% alls auðs í Bandaríkjunum.

Paul Ryan er 42 ára – vill draga úr skattlagningu á þá ríku og og draga úr útgjöldum til velferðarmála.  Hann hefur setið á þingi síðan hann var 28 ára og hefur enga reynslu úr viðskiptalífinu en er formaður fjárlaganefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Hver sem niðurstaða kosninganna verður eru Bandaríkin í ógöngum. „Við munum endurreisa Bandaríkin sem stórveldi“ sagði Ryan við útnefninguna.

Um 7,5 milljón kvenna búa við sára örbirgð og rúm 40% einstæðra mæðra í Bandaríkjunum búa við fátækt.

Áhrif Tolstoys á Gandhi og Martin Luther King á borgaralega óhlýðni

Áhrif Tolstoys á Gandhi og Martin Luther King á borgaralega óhlýðni

Leo Tolstoy. Myndin er tekin 1908 tveimur árum áður en hann dó.

7. ágúst 2012

Hvað eiga presturinn og mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King (1929-1968), frelsishetja Indverja Mathma Gandhi (1869-1948) og rússneski rithöfundurinn Leo Tolstoy (1828-1910) sammerkt? Jú, hugsjónina um að þjóna mannkyni í baráttu fyrir réttlæti með friðsamlegri andstöðu og borgaralegri óhlýðni. Martin Luther King tók upp baráttuaðferðir Gandhis  um friðsamleg mótmæli og borgaralega óhlýðni – en Gandhi varð fyrir áhrifum af Leo Tolstoy og skrifaði honum eftir að hann las bók hans Guðsríki er innra með yður. Þar segir Tolstoy að allt hugsandi fólk verði að taka afstöðu um hvort það ætli að feta þrönga veginn og berjast fyrir réttlæti. Tolstoy benti einnig á hvernig valdhafar hafa lag á því að láta fólkið sjálft verða þátttakendur í því að viðhalda þeim ójöfnuði og óréttlæti sem viðgengst – þannig að hinir undirokuðu eru farnir að beita sjálfa sig harðræði —- þegar fólk samsamar sig með skoðanakúgun mætti það minnast þess að Jesú gekk inn í helgidóminn í Jersúsalem og tók að reka út þá sem voru að selja þar og kaupa og hratt um borðum víxlaranna . . . húsið sem átti að vera bænahús höfðu þeir gert að ræningjabæli.

Að gagnrýna spillingu og stöðuga viðleitni þeirra sem eru við völd að viðhalda ríkjandi ástandi – er ekki borgaraleg óhlýðni heldur borgaraleg skylda.

Mathma Gandhi og Martin Luther King.