Á alþjóðlegri ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi í London dagana 10. og 11. júlí sl. var einn gestana Bianca Jagger en hún er velgjörðarsendiherra Evrópuráðsins í baráttunni gegn dauðarefsingum. Bianca Jagger var á árum áður eitt “heitasta celeb” samtímans þegar hún var gift stórstjörnunni Mick Jagger í Rolling Stones. Þau gengu í hjónaband í St. Tropez á Ríveríunni árið 1974 og var brúðkaupið í heimsfréttunum þar eð Mick Jagger var þá þegar orðinn goðsögn. Eignuðust þau dótturina Jade en hjónabandið entist ekki nema í nokkur ár. Hér má sjá umfjöllun um feril Biöncu Jagger en hún er fyrir margra hluta sakir merkileg manneskja og ein af þeim fyrstu til að nota stjörnustatus sinn til að vinna að mannréttindamálum. Hún ólst upp í Managua, Nicaragua þar sem hún fæddist hinn 2. maí 1945. Faðir hennar yfirgaf fjölskylduna og bjó hún ásamt systkinum við lítil efni hjá einstæðri móður. Síðar fékk hún styrk til að fara í nám í stjórnmálafræði við Sorbonneháskólann í París.
Eftir að hjónabandi hennar og Mick Jagger lauk en þá var Bianca orðin víðfræg – fór hún ásamt nefnd frá Bandaríkjaþingi í flóttamannabúðir í Honduras. Í þeirri för varð hún vitni að því þegar 40 flóttamannamönnum var smalað saman til aftöku til El Salvador. Með ekkert annað að vopni en myndavélar eltu Bianca og hópurinn hennar dauðasveitina og þegar þau voru komin í návígi við hana gerðu þau hróp að skotmönnum sem vopnaðir vour M16 rifflum: Þið verðið að drepa okkur öll! Hinir vopnuðu menn staðnæmdust, hugsuðu sinn gang, tóku myndavélarnar af Jagger og félögum og létu fórnarlömbin laus. — Þannig segir Bianca Jagger að hún hafi áttað sig á því hvernig hún gæti notað frægð sína öðrum til framdráttar. Þetta atvik markaði tímamót í hennar lífi og síðan þá, undanfarna fjóra áratugi hefur hún helgað sig baráttunni fyrir mannréttindum.