Búdapest 2006

Ársþing EWLA (European Women Lawyers’  Association) í Búdapest, Ungverjarlandi.

Evrópusamtök kvenlögfræðinga voru stofnuð árið 2000 en aðild að félaginu eiga samtök kvenlögfræðinga og kvenna í lögmennsku í aðildarríkjum Evrópusambandslandanna og ríkja sem eiga aðild að EES samningnum.

Herdís Þorgeirsdóttir var kjörin varaforseti EWLA á ársþinginu í Strasbourg 2005. Í stjórn EWLA eru lögmenn, dómarar, lagaprófessorar og lögfræðingar á ýmsum sviðum, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Forseti samtakanna er Leena Linnainmaa sem er aðstoðarframkvæmdastjóri finnska versluanrráðsins. Fyrrum forseti er Elizabeth Mueller og varaforseti Sophia Spiliotopoulos sem er lögmaður í Aþenu og öflug í starfi á sviði jafnréttismála á vettvangi Evrópusambandsins.

Álitið sem Herdís Þorgeirsdóttir skrifaði fyrir EWLA um Vegvísi Evrópusambandsins (Roadmap to Gender Equality 2006-2011) var kynnt á ráðstefnunni en þar voru með framsögu m.a. Renate Jager dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en hún er einn af stofnendum EWLA. Margar athyglisverðar málstofur voru haldnar þá tvo daga, sem ráðstefnan stóð yfir; m.a. um mansal, viðskipasiðferði, jafnrétti kynjanna og þróun mannréttinda á vettvangi Evrópusambandsins.

Laugardaginn 21. maí voru nokkrar ályktanir EWLA samþykktar, m.a. um jöfnun hlutfalla kynja í stjórnum fyrirtækja, sem eru skráð á markaði.

Það var félag kvenna í lögmennsku í Ungverjalandi sem átti stóran þátt í að undirbúa ráðstefnuna og var ráðstefnugestum boðið upp á siglingu um Dóná og í kvöldverð í hið mikilfenglegaþinghús í Búdapest sem reist var á tímum Austuríska ungverska keisaradæmisins og er eitt hið glæsilegasta, sem fyrirfinnst í Evrópu.

Myndin hér að ofan var tekin í 192 þrepa stiga þinghússins en í fremstu röð stendur forseti EWLA Leena Linnainmaa í bleikri dragt. Við hlið hennar er Herdís Þorgeirsdóttir varaforseti EWLA. Ofar í stiganum glittir í tvo íslenska þátttakendur, þær Elsu þorkelsdóttur lögfræðing, sem um árabil hefur unnið að jafnrétti kynjanna á Íslandi. Hún er nú búsett í Basel í Sviss þar sem hún starfar sem sjálfstæður sérfræðingur að þessum málum, m.a. fyrir jafnréttisskrifstofu Evrópuráðsins. Hinn íslenski þátttakandinn var Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður hjá Acta en hún er í varastjórn Félags kvenna í lögmennsku á Íslandi.