Í dag  barst sú harmafregn frá Vilnius að fyrrum fulltrúi í Feneyjanefndinni og dómari við stjórnlagadómstól Litháen, Gediminas Mesonis væri látinn. Hann var  fæddur í Vilnius 9. nóvember 1968. Hann varð doktor í lögum árið 2000 en áður en hann lagði stund á lögfræði lærði hann efnafræði.

Félagar í Feneyjanefnd eru harmi slegnir vegna sviplegt fráfalls óvenju greinds og góðs manns. Hann var sérfræðingur í stjórnskipunarrétti. Á vettvangi Feneyjanefndar vann aðallega að málum tengdum félagafrelsi í austur Evrópu og dómstólum í löndum Mið-Asíu.

Persónulega minnist ég einstaklega góðs og glaðværs manns með mikla kýmnigáfu . Mér er það ógleymanlegt þegar við ræddum tilurð máls sem síðar fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu varðandi auglýsingu þar sem sjálfur Jesús Kristur var í gallabuxum (Sekmadienis Ltd. v. Lithuania). Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að litháísk stjórnvöld hefðu gerst brotleg við 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu með því að skerða tjáningarfrelsi fyrirtækis sem notaði auglýsingar sem sýndu trúarlegar persónur eins og Jesú Krist í gallabuxum. Litháískir dómstólar töldu sig vera að verja rétt trúaðra sem gengi í þessu tilviki framar tjáningarfrelsi auglýsanda.

Sjálfur hafði hann húmor fyrir þessu máli og ég heyri enn hláturinn þegar við ræddum um það. Enda var hann maður sem virtist ekki taka sig eða aðra of hátíðlega.

Sorglegt þegar gott fólk fer of snemma.

https://www.venice.coe.int/webforms/events/?id=3370