Í tilefni af 70 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, fyrstu alþjóðlegu stefnuyfirlýsingarinnar sem samþykkt var á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Samarkand í Uzbekistan í mið-Asíu 22.-23. nóvember 2018 og sú fyrsta sinnar tegundar. Ráðstefnuna sóttu m.a. varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og fleiri fulltrúar alþjóðlegra stofnana. Svo skemmtilega vildi til að tveir aðal fyrirlesarar í sama panel voru þær Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forstjóri Mannréttindastofnunar OSCE í Varsjá og Herdís Þorgeirsdóttir fyrsti varaforseti Feneyjanefndar Evrópuráðsins.
Mannréttindayfirlýsing S.Þ. markaði ákveðin tímamót og varð grunnur að Mannréttindasáttmála Evrópu og Samningi SÞ um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Eleanor Roosevelt sem var einn af aðalhvatamönnum þess að að útbúa yfirlýsinguna kallaði hana Magna Carta alls mannkynst. Mannréttindayfirlýsingin er ekki lagalega bindandi en hefur öðlast fastan sess í hinu alþjóðlega réttarkerfi um hvað séu eðlileg viðmið í vernd mannréttinda.
Frumkvæði að því að halda ráðstefnuna í hinni fornu og fögru borg Samarkand átti forseti Uzbekistan, Shavkat Mirziyoyev á allsherjarþingi SÞ fyrir ári síðan. Þannig vilja Uzbekar marka sér stöðu sem leiðandi á sviði mannréttinda í mið-Asíu.