Isabella Rosselini var rekin frá Lancome 43 ára af því andlit hennar var ekki lengur tákn draumsins um eilífa æsku heldur áminning til kvenna um þann meinta ömurlega veruleika sem beið þeirra við að eldast. Nú hefur hún verið ráðin aftur sem andlit Lancome þar sem karlar eru ekki lengur ráðandi í forystu. Aldursfordómar ættu að vera á undanhaldi. Isabella talar í meðfylgjandi viðtali um að hrós til kvenna um að þær séu “enn þá” fallegar komnar yfir sextugt sé tvíeggjað sverð; þ.e. að þær líti enn vel út þrátt fyrir aldurinn; sem og að tala um að konur séu unglegar. Slétt og felld fegurð kann að tengjast æskunni en glæsileiki, persónutöfrar og margt annað er ótengt aldri.
Eitt af stóru viðfangsefnum jafnréttisbaráttunnar og feminisma er baráttan gegn aldursfordómum. Þessi lýsing Fjodor Dostojevskí á sextugri konu árið 1866 sló mig en er táknræn fyrir tíðarandann þegar hann skrifar meistaraverk sitt, Glæpur og refsing – þarna voru aðeins fimm ár liðin frá því að bann var lagt við því að halda þræla í Rússlandi:
“Þetta var smávaxin, skorpin kerling um sextugt, með illilegt og stingandi augnaráð, lítið hvasst nef, berhöfðuð. Litlaust, eilítið grásprengt hárið var rækilega smurt með olíu. Um langan, magran hálsinn sem minnti á hænufót hafði hún vafið einhverri bómullardruslu . . . Gamla konan hóstaði og stundi án afláts”.
(Glæpur og refsing í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur, bls. 8, útg. Forlagið 1984.)