Elfa Ýr Gylfadóttir og Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir

Tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um jafnréttismál, sem fyrsti varaforseti Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Ráðstefnan var haldin á vegum Evrópuráðsins og utanríkisráðuneytis Danmerkur en Danir fara um þessar mundir með formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins.  Heiti ráðstefnunnar sem haldin var í Kaupmannahöfn 3. -4. maí sl. var: Kynjajafnrétti: Að ryðja brautina (Gender Equality: Paving the Way).

Markmið ráðstefnunnar var að kynna jafnréttisáætlun Evrópuráðsins fyrir tímabilið 2018-2023 og vera vettvangur umræðu um aðsteðjandi vandamál sem standa kynjajafnrétti enn fyrir þrifum og hvernig best mætti hrinda áætluninni í framkvæmd í 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Eitt meginþema ráðstefnunnar var hvernig binda mætti endi á refsileysi í málum er varða ofbeldi gegn konum; heimilisofbeldi; auk þess var rætt um þátt kvenna í ákvarðanatöku; mannréttindi kvenna og stúlkna á flótta; staðalímyndir og fordóma gagnvart konum og þátt karla í að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna.

Ráðstefnan var opnuð af Marie, krónprinsessu Dana, en auk hennar fluttu opnunarávörp nýskipaður jafnréttisráðherra Danmerkur Eva Kjer Hansen og varaframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Gabriella Battaini-Dragoni.

Á myndinni erum við Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar og jafnréttisfulltrúi stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og upplýsingasamfélag en þarna var einnig viðstödd af Íslands hálfu, Magnea Marínósdóttir frá Velferðaráðuneytinu sem skipuð var í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins fyrir hönd Íslands sl. haust.

Á ráðstefnunni flutti Laura Boldrini áhugavert erindi en hún er forseti fulltrúadeildar ítalska þingsins og þekktur pólitíkus á Ítalíu. Hún lýsti því hvernig  hún hefur þurft að sæta hótunum um ofbeldi af hálfu þeirra sem ekki þola málflutning hennar; hvernig hún hefur verið rægð og úthrópuð og hvað hún upplifði það sem mikil vonbrigði að kynsystur hennar stóðu ekki með henni þegar rógsherferðin náði hæstum hæðum. Ef barátta fyrir mannréttindum leiðir til þess að maður er úthrópaður, til hvers hefur þá verið lifað?, spyr Laura Boldrini.  Sjá hér.