Nú á tímum hinnar undarlegu kórónaveiru grípur fólk til ýmislegrar dægrastyttingar á samfélagsmiðlum. Þar var skorað á mig að skrifa um tíu kvikmyndir sem hefðu hreyft við mér með einhverjum hætti. Hér kemur sú fyrsta:
Ég vel kvikmyndir sem höfðu áhrif á mig þegar ég horfði á þær fyrst. Gone with the Wind (Á hverfanda hveli), ein þekktasta bíómynd sögunnar, er slík mynd (1939), byggð á sögu Margaret Mitchell úr þrælastríðinu, borgarastríðinu milli norður- og suðurríkja Bandaríkjanna 1861-65. Allt leggst á eitt að gera þessa mynd að sígildri stórmynd; litríkar senur, glæsilegir búgarðar, búningar og stórleikarnir Clark Gable sem glæsimennið Rhett Butler og Vivienne Leigh í einu flottasta kvenhlutverki kvikmyndanna sem Scarlett O´Hara. Fyrir mér sem unglingi varð hún femínísk fyrirmynd, sjálfstæð, full af eldmóði, hugrökk.
Scarlett finnst óeðlilegt að fá ekki að fara sínu fram; að þurfa að þykjast ekki hafa matarlyst af því að það sé kvenlegt að borða eins fugl, að þurfa að taka lítil skref þegar hana langi til að hlaupa, að þurfa að þykjast þreytt eftir einn dans þegar hún gæti dansað dögum saman. Henni leiðist að þurfa að hrósa körlum fyrir vitsmuni þeirra þegar þeir komist ekki með tærnar þar sem hún hafi hælana – svo að þeir verði öruggari með sig.
Scarlett er marglaga persóna, skarpgreind og sjálfstæð en líka hégómleg og einþykk. Sagt er að Mitchell hafi ætlað hinni mildu og kvenlegu Melanie að verða aðalhetjan í þessari sögu úr þrælastríðinu en Scarlett hafi tekið yfir. Fordekruð „southern belle“ á búgarðinum Töru en í lok auðmýkjandi ósigurs suðurríkjanna í þrælastríðinu – kemur að vendipunkti í sögunni þar sem reynir á karakter hennar og styrk til að lifa af. Hún hefur misst allt.; búgarðurinn glæsti næstum rústir, móðir hennar dáinn, faðir hennar elliær og hungrið sverfur að. Atlanta er brunnin til grunna. Í dramatískri senu steytir hún hnefann til himins og sver þess eið að láta aldrei slíkt yfir sig eða sína fjölskyldu ganga aftur. Hún vinnur baki brotnu og gengur í öll verk á búgarðinum með sigg í lófum. Hún er fyrirvinnan sem aðrir reiða sig á. Hún ver sig gegn ágangi norðurríkjahermanns sem líklega ætlar að nauðga henni. Skýtur hann í andlitið og drepur. Scarlett óttast ekki átök, hvorki við menn né aðstæður. Hún geldur fyrir það að vera á skjön við aðra, fellur ekki að viðmiðum hópsins en hún sættir sig líka við þá útskúfun.
Að þessu leyti er hún fullkomin andstaða við flestar kvenímyndir á hvíta tjaldinu frá þessum tíma. Stríðið breytti Scarlett úr sjálfselskri dekurrófu í áræðna konu sem ætlar að lifa af. Þegar stríðinu er lokið og margir eru bugaðir eru viðbrögð Scarlett að nú hljóti verðið á baðmull að rjúka upp. Hún gefst aldrei upp þótt hún klúðri ýmsu og geri mistök sem hún þó reynir oft að bæta fyrir. Scarlett fór ekki aðeins gegn hefðum samtímas með framtakssemi sinni og djörfum ákvörðunum heldur einnig út fyrir lagarammann þar sem konum var sniðinn mun þrengri stakkur. Eiginmenn höfðu agavald yfir konum sínum. Höfundurinn Mitchell hundsar þær reglur og lætur Scarlett fara sínu fram.
Þegar Rhett Butler hefur gefist upp á henni og róstusömu sambandi þeirra og hún reynir að tala hann til, segir hann hina frægu setningu ,,frankly my dear I don‘t give a damn“. Bob Dylan notar þennan þekktasta frasa kvikmyndanna í nýrri 17 mínútna ballöðu, „Murder Most Foul“ sem eina af táknmyndum síðustu aldar. Endir myndarinnar þar sem Rhett gengur út frá grátbólginni Scarlett með þeim orðum að honum sé „skítsama“ þótti ekki æskilegur Hollywood-endir þegar myndin var gerð. Scarlett heitir sjálfri sér að finna leið til að ná Rhett aftur til sín. Höfundurinn, Margaret Mitchell,l sagði síðar aðspurð að það væri allsendis óljóst hvort Rhett og Scarlett myndu ná saman aftur. Allt eins líklegt að Rhett hafi fundið viðráðanlegri týpu en Scarlett O‘Hara.