Á lögfræðitorgi þriðjudaginn 4. nóvember nk. mun dr. Herdís Þorgeirsdóttir, Viðskiptaháskólanum á Bifröst, fjalla um ábyrgð ríkisvaldsins í að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla út frá Mannréttindasáttmála Evrópu.

„Eru fjölmiðlar færir um að sinna hlutverki sínu sem varðhundar almennings?” Í erindu sínu á Lögfræðitorgi mun Herdís benda á hvernig þær forsendur sem hin upphaflega réttarvernd byggir á séu brostnar þar sem breytt umhverfi og aðsteðjandi ógnir að sjálfstæði fjölmiðla stafa ekki lengur eingöngu frá ríkisvaldinu heldur þriðja aðila, þ.e. eigendum fjölmiðla og auglýsendum. Herdís sýnir jafnframt fram á það hvernig markaðsöflin hafa ýtt undir sjálfs ritskoðun meðal blaða- og fréttamanna, þar sem sjálfsstýring og hin lagalega vernd lúta lægra haldi. Hún sýnir einnig fram á það að með jákvæðri (affirmative) túlkun á Mannréttindasáttmálanum og dómaframkvæmd hans sé verndin mun víðtækari en ætla mætti. Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur hér á landi árið 1994.

Bók byggð á doktorsritgerð Herdísar er væntanleg frá Kluwer Law International: „Journalism Worthy of the Name: A Human Rights Perspective on Freedom within the Press.”

Dr. jur Herdís Þorgeirsdóttir er fræðimaður við Lögfræðideild Viðskiptaháskólans á Bifröst. Hún lauk doktorsprófi í lögum á sviði þjóðaréttar við lagadeild Háskólans í Lundi 2003. Hún hefur meistaragráðu í lögum og alþjóðasamskiptum (MALD) frá Fletcher School of Law and Diplomacy í Boston og BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Herdís er varafulltrúi Íslands í Feneyjarnefnd Evrópuráðs um lýðræði með lögum (Venice Commission for Democracy through Law) og er einnig í hópi evrópskra sérfræðinga sem vinna að jafnréttismálum fyrir Evrópusambandið. Hún var gestafræðimaður við Oxford University 1999. Herdís sinnti kennslu í meistaranámi við lagadeildina í Lundi 1997-2000. Hún var útgefandi um árabil, stofnaði og ritstýrði tímaritinu Heimsmynd og var jafnframt fyrsti ritstjóri Mannlífs og blaðamaður við Morgunblaðið 1977 til 1980.

Fyrirlestur Herdísar fer fram í húsnæði háskólans að Þingvallastræti 23, í stofu 14 og hefst klukkan 16:30.

Allir velkomnir!