Feneyjanefnd hefur sent frá sér álit sem fékk flýtimeðferð að beiðni eftirlitsnefndar þings Evrópuráðsins. Álitið fjallar um drög að nýju ákvæði í tyrkneskum hegningalögum varðandi dreifngu falsfrétta. Samkvæmt drögunum varðar slíkt eins til þriggja ára fangelsi og ef slík dreifing er nafnlaus hækkar refsingin um helming. Feneyjanefnd varar við því að þessi drög verði að lögum enda fara þau á skjön við tjáningarfrelsið eins og það er verndað með 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Varar nefndin við pólitískum afleiðingum þess verði ákvæðið að lögum því sjálfs-ritskoðun í landinu muni aukast að mun. Pólitísk umræða á undir högg að sækja vegna ótta almennings sem og blaðamanna, aðgerðasinna og stjórnarandstæðinga við afleiðingar þess að tjá sig. Það er ekki síst mikilvægt að standa vörð um rétt fólks til að tjá sig nú í aðdraganda kosninga í landinu næsta sumar. Herdís er annar höfundur álitsins af hálfu Feneyjanefndar en málið er nú til umræðu á þingi Evrópuráðsins og umrædd drög rædd í tyrkneska þinginu í þessari viku. Álitið hvetur tyrknesk stjórnvöld til að falla frá því að samþykkja þessi drög – telur vægari úrræði standa til boða auk þess sem tyrknesku hegningalögin búa yfir öðrum ákvæðum sem taka á dreifingu upplýsinga sem ógna almannaöryggi. Sjá álitið hér.