Staðsetning rússneskra hersveita – um 100 þúsund manns og vopnabúnaðar við landamæri Rússlands og Úkraínu sem og á landamærum Hvíta Rússlands og Úkraínu hefur vakið sterk viðbrögð innan Atlantshafsbandalagsins – auk þess er því haldið fram að Rússar séu í startholunum með skipaflota og flugsveitir komi til átaka. Ástandið veldur ótta. Rússar hafa mánuðum saman verið að byggja upp hernaðarmátt við landamæri Úkraínu sem Pútin, forseti Rússlands, segir að sé liður í að verja Rússa gegn ört vaxandi Atlantshafsbandalagi. Hann hefur lýst yfir vonbrigðum með þá afstöðu NATO að koma ekki til móts við kröfur Rússa um að meina Úkraínu þátttöku í bandalaginu.
Biden forseti Bandaríkjanna er óspar á yfirlýsingar um mögulega innrás Rússa í Úkraínu sem yrði með hans orðum ,,sú stærsta frá því í síðari heimsstyrjöldinni”. Komi til átaka er stigmögnun líkleg í tíma og rúmi. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, hefur biðlað til alþjóða samfélagsins að halda aftur af hræðsluáróðri því efnahagur Úkraínu sé í húfi.
En það kann einnig liggja fyrir lausn sem eru drögin að Minsk samkomulaginu frá 2015 á milli Frakka, Þjóðverja, Rússa og Úkraínu, stutt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – en því var ætlað að enda átökin í Donbas í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga 2014. Efnislega gæti Minsk-samkomulagið átt við núverandi stöðu. Á sínum tíma synjuðu Frakkar og Þjóðverjar tilboði Bandaríkjamanna um að fá Úkraínu til að ganga í NATO enda fyrirséð hver viðbrögð Rússa yrðu við því. Það boð kom upphaflega frá George W. Bush 2008 og var síðar ítrekað af Barak Obama. Minsk samkomulagið 2015 gekk út frá takmörkun vígbúnaðar í aðskilnaðarhluta Rússa í Donbas héraði og að hersveitir yrðu fjarlægðar um leið og fullveldi Úkraínu yrði tryggt og stjórn yfir landamærum við Rússland sem og sjálfstjórn Donbas-héraðs. Minsk samkomulaginu hefur hins vegar ekki verið hrint í framkvæmd.
Emmanuel Macron forseti Frakklands sagði nýlega að mikilvægt væri að endurvekja fjórhliða viðræður Rússa, Þjóðverja, Frakka og Úkraínu til að finna lausn á stigmögnun átaka. Eins og samskiptum Rússa og Bandaríkjamanna er nú háttað gætu ríki Evrópu stigið inn og reynt að miðla málum. Öryggi og friður í Evrópu er einnig í húfi.
Hvað varðar kröfu Rússa um að Úkraína gangi ekki í NATO má minna á Svíþjóð og Finnland sem ekki eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og lýstu áður yfir hlutleysi vegna nálægðar við Rússland. Því hlutleysi var hins vegar aflýst þegar þau gengu í Evrópusambandið þótt þau séu formlega ekki aðilar að NATO. Síðustu vikur og daga hefur verið ítrekað af hálfu forsvarsmanna NATO að dyrnar að bandalaginu stæðu þeim opnar. Bæði ríkin hafa aukið sveigjanleika í stuðningi við NATO með því að hleypa hersveitum Atlantshafsbandalagsins inn í lögsögu sína á krísutímum. Það hefði hins vegar bæði hernaðarlegar og pólitískar afleiðingar gengju Svíar og Finnar í NATO. Ólíklegt er annað en að Rússar myndu bregðast við því með einhverjum hætti. Að sama skapi er óþolandi fyrir fullvalda ríki annað en að hafa valkostinn og vera ekki múlbundin af skilyrðum nærliggjandi stórvelda.
Þrátt fyrir að Rússar virðist í startholunum að ráðast inn í Úkraínu með uppbyggingu á hernaðarmætti á landamærunum – og að til innrásar kæmi á næstu vikum er ólíklegt að NATO ríkin myndu blanda sér beint í slík átök en þau myndu hafa voveiglegar afleiðingar fyrir stöðuna á alþjóðavettvangi. Það er einnig ljóst að í því er fólgin mikil áhætta fyrir Rússa að ráðast inn í Úkraínu. Bandaríkin gætu brugðist hart við og Rússar væru komnir í ógöngur.
Pútin talar fyrir rússneskum hagsmunum og aðgerðir síðustu mánaða eru til að staðfesta alvöruna – því liggur beinast við að tala saman áður en stórslys verður. Það er ótækt annað en að finna lausn á þessari deilu.