Fyrsta konan sem fékk titilinn stórmeistari í skák, Nona Gaprindashvili, hefur stefnt efnisveitunni Netflix fyrir meiðyrði og krefst 5 milljóna dala í miskabætur. Hún telur að hin vinsæla þáttaröð ,,The Queen’s Gambit” sé lítilsvirðandi fyrir hana sem ruddi brautina fyrir konur í skák og sýni fordóma í garð kvenna. Hún segir að söguþráðurinn af fyrsta kvenstórmeistaranum í þáttaröðinni sé fullur af meiðandi rangfærslum sem geri lítið úr afrekum hennar og sigrum í skákinni, frammi fyrir milljónum áhorfenda. Gaprindashvili er áttræð og býr í Tbilisi, höfuðborg Georgíu.
Netflix fór upphaflega fram á að meiðyrðamálinu yrði vísað frá dómi þar sem sjónvarpsserían sé skáldskapur og handritshöfundur njóti verndar tjáningarfrelsisákvæðis bandarísku stjórnarskrárinnar. Að sögn lögmanna Netflix reiddu framleiðendur þáttanna sig á tvo skáksérfræðinga við gerð þeirra og með skírskotun til Nonu Gaprindashvili hafi ætlunin verið að sýna henni heiður en ekki að lítillækka hana.
,,Skáldverk eru ekki undanþegin kröfum um miskabætur vegna meiðyrða þegar fyrirmyndir eru byggðar á raunverulegum persónum”
Dómarinn sem tók málið fyrir í Kaliforníu neitaði að verða við kröfu um frávísun frá dómi, sem þýðir að málið verður tekið fyrir efnislega. Dómarinn kvað kröfur Nonu Gaprindashvili ekki ósanngjarnar og sagði skáldverk ekki undanþegin kröfum um miskabætur vegna meiðyrða þegar fyrirmyndir væru byggðar á raunverulegum persónum.
Nona Gaprindashvili var fyrsta kona til að fá titilinn stórmeistari í skák. Hún stefndi efnisveitunni Netflix í september síðastliðnum og segir ranglega farið með framlag hennar í skákinni þar sem söguhetja þáttanna sé látin segja að hún hafi aldrei teflt við karlmenn og það sé þrungið af kynjafordómum og lítillækkandi fyrir stórmeistarann Nona Gaprindashvili sem hafði teflt við 59 karlkyns skákmeistara 1968, sem markar upphaf þeirrar sigurgöngu sem þáttaröðin tekur til.
Þáttaröðin „The Queen‘s Gambit“ vann til 11 Emmy verðlauna árið 2021 og byggir á bók Walter Tevis sem kom út 1983. Sagan segir frá afrekum Beth Harmon á skáksviðinu á sjöunda áratug síðustu aldar þegar Nona Gaprindashvili varð fyrst kvenna til að öðlast titilinn stórmeistari í skák.