Í Venezúela er klíkuræði; stjórn sem hikar ekki við að taka opinbert fé og ríkiseigur til að skara eld að eigin köku. Ástandið í landinu er hrikalegt, jaðrar við hungursneyð þar sem fólk hefur ekki efni á matvælum sem hafa hækkað upp úr öllu valdi. Ungbarnadauði hefur tvöfaldast frá því 2008, malaría og aðrir sjúkdómar grassera. Sjúkrahús eru gersamlega fjársvelt og hafa hvorki lyf né tæki til að bjarga fólki.

 

Efnahagsástandið hefur lengi verið slæmt. Eftir að svokölluð sósíalistastjórn Nicolás Maduro kom til valda hefur ástandið hríðversnað og efnahagsþvinganir Bandaríkjastjórnar hjálpa ekki til enda bitna þær á almenningi ekki spilltum stjórnvöldum. Enda hafa þær ekki dugað til að hrekja hann frá völdum. Maduro forseti sem er jafnframt yfirmaður hersins tryggir sér stuðning hans með fjárframlögumsem sem ella færi í lyf og sjúkraaðstoð og launar háttsettum mönnum innan hersins og hermönnum hollustuna með kauphækkunum og með því að koma þeim fyrir í lykilstöðum. Lokað er fyrir fjárframlög erlendis frá til mannúðarmála. Hörmungarnar blasa alls staðar við. Börn deyja úr hungri og sjúkdómum.

 

Allar eignir Venesúela í Bandaríkjunum  hafa verið frystar og blátt bann lagt við öllum viðskiptum við yfirvöld í landinu og fulltrúa þeirra. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Venesúela eru þær hörðustu sem vestrænt ríki hefur verið beitt í meira en þrjá áratugi og eru á pari við þær sem Norður-Kórea, Íran, Sýrland og Kúba hafa þurft að þola.

 

Það hefur hallað undan fæti í Venesúela allt frá dögum Hugo Chavez, sem varð forseti 1999 en landið var eitt sinn hið auðugusta í Suður-Ameríku enda ríkt af olíuauðlindum. Þegar Chavez sem var sósíalisti tók við embætti hafði ójöfnuð vaxið hröðum skrefum í landinu; hinir ríku orðið ríkari og þeir fátækari fátækari. Chavez lofaði að berjast gegn óværu spillingar og minnka ójöfnuð en aðferðirnar sem stjórn hans beitti skiluðu ekki árangri heldur hinu gagnstæða. Gjaldeyrishöf juku á svört viðskipti með Bandaríkjadali; verðlagshöft bitnuðu á matvælaframleiðendum en þegar Maduro tók við embætti 2013 var 800 % verðbólga í landinu. Stjórn hans brást við með aukinni prentun peninga, verðbólgan jókst; verðlagseftirlit var hert með enn verri afleiðingum en áður. Vöruskortur eykst stöðugt, innfluttur varningur ókaupandi og matur og lyf af skornum skammti.

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því mars, eru 94% íbúa landsins undir fátæktarmörkum og tuttugu og fimm prósent íbúa þiggja einhvers konar mannúðaraðstoð.