Mynd frá Minsk af fundi með Lukashenko 22.07.2019 | ALMANAK Var að berast þessi mynd frá Minsk sem tekin var eftir fund með Alexander Lukashenko forseta Hvíta Rússlands sem ég fór á sem fulltrúi Feneyjanefndar Evrópuráðsins – fékk tækifæri til að ræða við hann um mikilvægi mannréttinda í réttarríki þar sem einstaklingur ætti að vera í forgrunni fremur en skipan ríkisvaldsins – hið síðara þjónar hinu fyrra en ekki öfugt. Ræddi réttinn til lífs en dauðarefsingar viðgangast enn í Hvíta Rússlandi og er það ástæðan fyrir því að ríkið fær ekki fulla aðild að Evrópuráðinu eða Feneyjanefndinni. Ræddi einnig tjáningarfrelsið og nauðsyn þess að í hverju ríki þrifist kröftug opinber umræða þar sem stjórnvöld yrðu að þola harða gagnrýni en ekkert væri hættulegra lýðræðinu en sljóir eða óvirkir borgarar sem létu sig engu varða gang mála á opinberum vettvangi. Hin konan á myndinni er Inete Ziemele fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Aðrir eru æðstu dómarar við stjórnlagadómstóla í ríkjum A-Evrópu og mið-Asíu. Lengst t.h. er varaforseti stjórnlagadómstóls Rússlands.