Hinn 31. maí sl. var fyrsta varaforseta Feneyjanefndar Evrópuráðsins boðið á fund með forseta Hvíta Rússlands, Alexander Lukashenko í forsetahöllinni (Palace of Independence) í Minsk ásamt forsetum og varaforsetum stjórnlagadómstóla Rússlands, Kasakstan, Aserbaijan og Lettlands. (Síðastnefndu stöðunni gegnir Ineta Ziemele, fyrrum dómari við Mannréttindadómstól Evrópu en eiginmaður hennar er Dr. Guðmundur Alfreðsson sem er löngu þekktur á alþjóðavettvangi sem sérfræðingur í réttindum minnihlutahópa).
Fundurinn með forseta Hvíta Rússlands var sérstakur að því leyti að boðið kom fyrirvaralaust þar sem ofangreindir aðilar voru á fundi með Stjórnlagadómstól Hvíta Rússlands í Minsk, sem á sama tíma fagnaði 25 ára afmæli sínu.
Forsetinn lagði mikið upp úr því að hitta fulltrúa Feneyjanefndar eins og kom fram í fjölmiðlum enda stendur ríkið frammi fyrir ýmsum ögrunum á alþjóðavettvangi. Feneyjanefndin hefur á þrjátíu ára ferli sínum náð einstökum árangri í samskiptum við ríki (sérstaklega í Austur Evrópu) um framfarir á sviði stjórnskipunar með breytingu á stjórnarskrá sem og almennum lögum – og nýtur almenns trausts sem ráðgefandi aðili.
Erindi Herdísar Þorgeirsdóttur, fyrsta varaforseta Feneyjanefndar á fundinum með stjórnlagadómstólnum var að ræða réttarríkið þar sem réttindi einstaklingsins eiga að vera í forgrunni en ekki réttur stofnana og embætta á vegum ríkisins. Stjórnskipun sérhvers ríkis sem vill kenna sig við þá stjórnskipunarhefð sem varð til með frönsku stjórnarbyltingunni 1789 og stofnun Bandaríkja Norður-Ameríku er að viðurkenna að valdið sé komið frá fólkinu; að grundvallar mannréttindi séu undirstaða réttarríks og þau bindi löggjafa, framkvæmdarvald og dómsvald í öllum sínum verkum. Stjórnskipun snýst því ekki fyrst og fremst um skipulag ríkisvaldsins heldur um hagsmuni borgaranna, grundvallarréttindi þeirra og frelsi einstaklingsins.
Á fundinum með Alexander Lukashenko talaði Herdís um réttarríkið og mannréttindi en vísaði einnig til sögunnar um Þorvald víðförla sem fór til Hvíta Rússlands eftir að hafa verið gerður brottrækur frá Íslandi í lok 10. aldar. Þar hafði Þorvaldur Koðránsson gert tilraun til að boða kristna trú án árangurs (ásamt þýskum biskupi) en uppskar háð landa sinna og varð tveimur að bana í kjölfarið. Þorvaldur fór síðan til Hvíta Rússlands, borgarinnar Polotsk sem þá var Mekka kristinnar trúar, reisti þar klaustur og lagði sitt af mörkum til þeirrar sögu sem síðar varð. Herdís talaði við Lukashenko um mikilvægi mannréttinda í réttarríki þar sem einstaklingur ætti að vera í forgrunni fremur en skipan ríkisvaldsins – hið síðara þjónar hinu fyrra en ekki öfugt. Hún ræddi réttinn til lífs en dauðarefsingar viðgangast enn í Hvíta Rússlandi og er það ástæðan fyrir því að ríkið fær ekki fulla aðild að Evrópuráðinu eða Feneyjanefndinni. Hún ræddi einnig tjáningarfrelsið og nauðsyn þess að í hverju ríki þrifist kröftug opinber umræða þar sem stjórnvöld yrðu að þola harða gagnrýni (án þess að bregðast við eins og Þorvaldur víðförli með vígaferlum) en ekkert væri hættulegra lýðræðinu en sljóir eða óvirkir borgarar sem létu sig engu varða gang mála á opinberum vettvangi.
Sjá hér frétt af heimasíðu Feneyjanefndar.
https://belarus24.by/en/news/president/a-lukashenko-belarus-interested-in-experience-of-foreign-countries-in-constitutional-law/