TENGSLANETS-ráðstefnurnar eru vettvangur til þess að efla samstöðu kvenna og skapa vettvang fyrir frjóar umræður sem skila einhverju út í samfélagið,“ segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst og stjórnandi núorðið stærstu ráðstefnu, sem haldin er í viðskiptalífinu.

Tengslanet IV – völd til kvenna ráðstefnan, sem nú fer fram í fjórða sinn hefst á Bifröst á morgun og stendur fram á föstudag. Hátt í 500 konur sækja ráðstefnuna í ár og er það metþátttaka, en á fyrstu ráðstefnunni, sem fram fór fyrir fjórum árum voru um 160 þátttakendur. Bifröst fagnar 90 ára afmæli sínu í ár og segir Herdís gleðiefni að ráðstefnan sé haldin á afmælisárinu. Hún var síðast haldin 2006 en hafði fram að því verið árviss viðburður. Aukning þátttakenda hefur verið um 60% á ári frá því að hún var fyrst haldin 2004.

En hvers konar ráðstefna er Tengslanetið? Herdís bendir á að sérstaða ráðstefnunnar sé að hún gangi þvert á stétt og stöðu, pólitíska ása og aldur kvenna, en í ár eru konurnar sem taka þátt á aldrinum 20-80 ára. Þverpólitískur andi svífi yfir vötnum á Tengslanetinu. „Þetta kom fram strax á fyrstu ráðstefnunni. Þar sátu í pallborði fyrrverandi andstæðingar í stjórnmálum, þær Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Inga Jóna Þórðardóttir,“ segir hún. Meðal þátttakenda í ár séu lögmenn, dómarar, prófessorar, blaðamenn, tannlæknar, húsmæður, bændur, framkvæmdastjórar, ömmur, námskonur, flugfreyjur, prestar, leikskólakennarar og rithöfundar svo eitthvað sé talið.

Herdís segir að hin góða þátttaka í ráðstefnunni sýni að mikil þörf sé á henni. „Ég held að það sé þörf fyrir að fá fróðleik og alþjóðlega strauma beint í æð,“ segir Herdís og vísar til aðalfyrirlesara ráðstefnunnar, sem jafnan hafa komið frá útlöndum. Herdís segir að á ráðstefnunni hafi hún ávallt upplifað mikla gleði og ákafa. „Umræðan hefur ekki snúist upp í þvarg, heldur er eldmóður í konunum. Ég held að þetta sé nokkuð sem einkennir kvennabaráttu þegar hún er í réttum farvegi. Þessi gleði og samstaða hefur haldist allt frá fyrstu ráðstefnunni,“ segir hún.

Konur hafi þörf fyrir að mynda með sér tengslanet, líkt og þekkt er að karlmenn gera sín á milli. Karlar hafi verið of lengi við völd og aðeins hleypt fáum konum að. „Karlar hafa hleypt einni og einni konu að og sú kona þá orðið einskonar tákngervingur fyrir að konur séu þátttakendur. Þá er hægt að benda á konuna einu og segja, jú, víst er kona í stjórn hjá okkur,“ segir Herdís.

Karlar með sinn reynsluheim

Staða kvenna í samfélaginu sýni þörfina fyrir að konur komi saman og ræði málin. Enn er langt í land með að konur njóti jafnra kjara og karlmenn. Konur komi almennt ekki að ákvörðunartökuferli í efstu lögum og það hafi áhrif. „Karlar nálgast hlutina út frá sínum reynsluheimi og hagsmunum. Þeir geta ekki talað fyrir okkur. Það verðum við að gera sjálfar,“ segir Herdís. Ákveðnum markmiðum jafnréttislaganna, t.d. þeim sem kveða á um samræmingu þátttöku á vinnumarkaði og fjölskylduábyrgðar, verði ekki náð nema konur eigi þar stærri hlut að máli en nú er. Ég held að konur séu orðnar langþreyttar á að hlutirnir gerist æ ofan í æ á forsendum karla. En það þýðir ekki að hagsmunir kynjanna séu endilega andstæðir.“Herdís segir að jafnréttisstarf sé mannréttindabarátta. „Mannréttindabarátta er ekki háð þeim tilgangi að tryggja eigin hag heldur til þess að skapa betra samfélag,“ segir hún og bætir við að konur megi ekki vera hræddar við að standa saman. „Konur óttast stundum að ef ein kona kemst að sé ekki pláss fyrir fleiri. Það er ekki langt síðan konur voru hræddar við að koma saman og ræða opinskátt um jafnrétti og kvenfrelsi. Þá var það skammaryrði að vera femínisti, en þetta hefur breyst,“ segir Herdís, sem sjálf átti þátt í stofnun Femínistafélags Íslands árið 2003.

En getur ráðstefna sem þessi haft áhrif? „Hún hefur þegar haft áhrif,“ segir Herdís og bendir á ályktanir sem Tengslanets-ráðstefnurnar hafi sent frá sér. Vísar hún m.a. til þess að lögum um hlutafélög hafi verið breytt í kjölfar ályktunar Tengslanets III um konur í stjórnir fyrirtækja. Þá komi fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að afnema beri launaleynd, en ályktun um þetta var samþykkt á Tengslaneti II árið 2005.

Í hnotskurn

» Ráðstefnan Tengslanet kvenna er nú haldin í fjórða sinn.
» Hún fer fram í Háskólanum á Bifröst.
» Yfirskrift ráðstefnunnar er konur og réttlæti.
» Stjórnandi og skipuleggjandi Tengslanetsins frá upphafi er dr. Herdís Þorgeirsdóttir prófessor.

 

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1217515/