Á nýafstöðnum aðalfundi Feneyjanefndar Evrópuráðsins (7.-8. okt. s.l.) skýrði ég fundinum frá niðurstöðum umræðna sem áttu sér stað fyrir fundinn með þátttöku fulltrúa Feneyjanefndar, fulltrúa OSCE/ODIHR, fulltrúa frá Evrópusambandinu og fulltrúum félagasamtaka víðsvegar að í Evrópu. Umræðufundur þessi var haldinn vegna beiðni aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Feneyjanefndar um að úttekt yrði gerð á lagasetningu varðandi takmarkanir á fjárframlögum erlendra aðila til félagasamtaka. Feneyjanefndin hefur þegar skilað álitum vegna umdeildra laga í Azerbaijan 2011 (sjá hér), Rússlandi árið 2012 þar sem félagasamtökum var gert skilt að skrá sig sem “erlendan umboðsmann” (sjá hér: foreign agent-law) ef þau þægju styrki erlendis frá. Mörg ríki setja skorður við slíkum styrkjum og hefur það færst í vöxt með tilkomu nýrra stjórnvalda í Póllandi og Ungverjalandi. Í júní s.l. samþykkti Feneyjanefndin álit varðandi umdeild lög í Ungverjalandi sem krefjast gagnsæis á slíkum styrkjum erlendis frá, fari þeir yfir ákveðna upphæð, u.þ.b. 25 þúsund evrur. Evrópusambandið hefur sett sig mjög upp á móti þeim lögum og reyndar höfðað mál gegn Ungverjalandi fyrir brot á fjórfrelsinu, frjálsu flæði fjármagns á meðan Feneyjanefndin telur lögin út af fyrir sig ekki brjóta gegn Mannréttindasáttmála Evrópu svo fremi að markmiðið sé lögmætt, þ.e. að slíkt gegnsæi sporni gegn hryðjuverkum og peningaþvætti. Ekki ríkir einhugur um lögmætt markmið ungversku laganna eins og kom fram í umræðum á fundinum.
Sarah Cleveland prófessor við Columbiaháskólann í New York og fulltrúi í Feneyjanefnd taldi lög af þessu tagi brjóta gegn friðhelgi félagasamtakanna, félagafrelsinu sjálfu og réttinum til þess að geta tjáð sig án tilgreiningar (anonymous speech). Fulltrúi Evrópusambandsins hvað lög af þessu tagi ekki þjóna almannahagsmunum og fulltrúar félagasamtaka bentu á fælingaráhrif kröfunnar um gagnsæi vegna styrkja á félagasamtök sem ættu allt sitt undir því að fá styrki erlendis frá. Jan Helgesen prófessor við lagadeildina í Osló og fulltrúi í Feneyjanefnd skýrði frá því að þegar unnið var að yfirlýsingu um mannréttindasamtök af hálfu Sameinuðu þjóðanna (sem var 14 ár í smíðum) hefði Nelson Mandela sagt að baráttan gegn aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku hefði aldrei orðið ef ekki hefði komið til erlendur fjárstuðningur. Fidel Castro sagði hins vegar að erlendur fjárstuðningur væri ógn við fullveldi og myndi hafa gert út um kúbverskt sjálfstæði ef slíkt hefði verið leyft. Fulltrúi frá stórum félagasamtökum benti á það að alþjóðleg fyrirtæki sem vildu styrkja félagasamtök hefðu þörf fyrir leynd þar eð þau vildu á sama tíma eiga í góðum samskiptum við stjórnvöld.
Eins og ég skýrði frá á aðalfundi Feneyjanefndarinnar náðist ekki samstaða í hringborðsumræðunum um erlend fjárframlög og gagnrýndu sumir afstöðu Feneyjanefndar í álitinu um ungversku gagnsæis-lögin í júní 2016 (sjá hér) að gagnsæi væri í sjálfu sér lögmætt markmið til að skerða félagafrelsið með slíkum kröfum. Benti ég á að stjórnvöldum bæri að tryggja frjálsa pólitíska umræðu í sinni lögsögu og slíkt væri m.a. gert með kröfunni um að gagnsæi þannig að öllum mætti vera ljóst hverjir sæktust eftir að móta hina almennu umræðu á grundvelli hárra fjárframlaga. Á hinn bóginn orkaði tvímælis að bera fyrir sig lögmætt markmið í ákveðnum tilgangi á meðan málflutningur stjórnvalda fæli jafnvel eitthvað allt annað í sér.