Að axla ábyrgð er hluti af þeirri stjórnfestu sem er kjölfesta þess að lýðræðið geti þrifist. Stjórnmálamenn verða samkvæmt því að gangast við alvarlegum yfirsjónum sem og aðrir sem gegna háum opinberum stöðum. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar voru sér þess mjög meðvitaðir að ein frumforsenda þess að unnt væri að byggja upp lýðveldi væri sú að þeir sem færu með völd í umboði fólksins væru „dyggðugir“ –annað væri ávísun á spillingu.
Stjórnfesta þar sem menn axla ábyrgð hefur ekki einkennt íslenskt samfélag. Bankahrunið var afleiðing ábyrgðarleysis og pólitískrar spillingar; samfélags þar sem menn og konur vinna kerfisbundið í klíkum að því að komast að kjötkötlum. Þegar ný ríkisstjórn tók við eftir hrun var það ein af tillögum forsætisráðherra að setja starfsmenn stjórnsýslu á námskeið í stjórnfestu og láta draga upp siðareglur svo að þeir sem gegndu opinberum störfum áttuðu sig á hvar mörkin lægju. Hér er engin forsaga um riddaramennsku og „noblesse oblige“ – þ.e. að þeir sem gegna virðingarstöðumum átti sig á því að vandi fylgir vegsemd hverri – að „heiður“ og „sómi“ kalla á ríka ábyrgðarkennd gagnvart samfélaginu.
Það grefur undan réttarríkinu þegar það viðgengst að sneiða hjá reglum og ábyrgð. Það grefur undan lýðræðinu þegar forystan setur sjálfa sig í forgrunn og hagsmuni almennings í aftursætið.
Því eru það góð skilaboð til umheimsins þegar ráðherrar í Þýskalandi segja af sér vegna ritstuldar.
10. febrúar 2013